Fara í innihald

Suðurnesjabær

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Suðurnesjabær
Garðskagi
Garðskagi
Skjaldarmerki Suðurnesjabæjar
Staðsetning Suðurnesjabæjar
Staðsetning Suðurnesjabæjar
Hnit: 64°01′N 22°39′V / 64.017°N 22.650°V / 64.017; -22.650
LandÍsland
KjördæmiSuðurkjördæmi
Þéttbýliskjarnar
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriMagnús Stefánsson
Flatarmál
 • Samtals82 km2
 • Sæti55. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals3.897
 • Sæti16. sæti
 • Þéttleiki47,52/km2
Póstnúmer
245–250
Sveitarfélagsnúmer2510
Vefsíðasudurnesjabaer.is

Suðurnesjabær er sveitarfélag á Suðurnesjum sem nær yfir stærstan hluta af Miðnesi, frá Básendum í vestri að Hólmsbergsvita í austri. Innan sveitarfélagsins eru Stafnes, Hvalsnes, Fuglavík, Sandgerði, Flankastaðir, Kirkjuból, Garðskagi, Garður og Leira. Sandgerðishöfn er helsta höfn sveitarfélagsins. Flugstöð Leifs Eiríkssonar og stærstur hluti Keflavíkurflugvallar eru innan marka Suðurnesjabæjar, en ekki hverfið Ásbrú sem er innan marka Reykjanesbæjar. Þar er að finna leifar af ratsjárstöðinni Rockville. Skemmur sem reistar voru yfir fyrirhugaða starfsemi Norðuráls við Helguvík eru innan marka Suðurnesjabæjar.

Tveir golfvellir eru í sveitarfélaginu: Kirkjubólsvöllur (Golfklúbbur Sandgerðis) og Hólmsvöllur (Golfklúbbur Suðurnesja). Þar eru líka tvö knattspyrnufélög: Knattspyrnufélagið Víðir í Garði og Knattspyrnufélagið Reynir í Sandgerði. Hvort félagið er með sinn útigrasvöll.

Í sveitarfélaginu eru fjórir vitar: Stafnesviti, Sandgerðisviti, Garðskagaviti og Hólmsbergsviti. Björgunarsveitin Sigurvon starfar í Sandgerði, en Björgunarsveitin Ægir í Garði. Tveir leikskólar eru í sveitarfélaginu og tveir grunnskólar: Gerðaskóli og Sandgerðisskóli. Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Suðurnesjum er í Sandgerði. Þrjár kirkjur eru í Suðurnesjabæ: Hvalsneskirkja, Sandgerðiskirkja og Útskálakirkja.

Samanlagður íbúafjöldi Sandgerðis og Garðs var 3.374 þann 1. janúar 2018 samkvæmt tölum Hagstofu Íslands og er nýja sveitarfélagið því næstfjölmennast á Suðurnesjum á eftir Reykjanesbæ. Í Grindavík voru á sama tíma 3.323 svo að fjöldinn var nánast sá sami, en síðan þá hefur orðið aðeins meiri fjölgun í Suðurnesjabæ.

Sandgerðisbær og Sveitarfélagið Garður sameinuðist í eitt sveitarfélag þann 10. júní 2018 eftir að sameining hafði verið samþykkt í kosningum í báðum sveitarfélögunum. Í nóvember 2018 voru íbúar sveitarfélagsins beðnir um að kjósa nafn á sameinaða sveitarfélagið. Nafnið „Suðurnesjabær“ var vinsælast og hlaut 75,3% atkvæða.[1]

Bæjarstjóri var ráðinn á fundi bæjarstjórnar þann 18. júlí 2018, Magnús Stefánsson, sem áður gegndi stöðu bæjarstjóra í Garði, en Sigrún Árnadóttir, fráfarandi bæjarstjóri Sandgerðis sótti ekki um. Magnús tók við embætti þann 15. ágúst.[2] Ráðhúsinu var skipt þannig að bæjarskrifstofurnar eru staðsettar í Garði, en fjölskyldusvið er í Sandgerði.

  Þessi landafræðigrein sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.