Fara í innihald

Hella

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Hella

Hella er þéttbýlisstaður í Rangárþingi ytra í Rangárvallasýslu, 94 kílómetra frá Reykjavík. Kauptúnið stendur á eystri bakka Ytri-Rangár, við brúna þar sem Suðurlandsvegur liggur yfir ána. Íbúar Hellu eru um 900 og í Rangárþingi ytra eru þeir um 1900.

Á Hellu byggist atvinnulífið að mestu upp á þjónustu við landbúnað, en þar má finna stórgripasláturhús, kjötvinnslu, kjúklingasláturhús og samliggjandi kjötvinnslu, dýralæknamiðstöð, útungunarstöð, bifreiðaverkstæði, rafverkstæði, trésmiðjur og ýmsa aðra smærri þjónustuaðila við landbúnað.

Á Hellu er einnig matvöruverslun, veitingastaðir, hótel og gistiheimili, hjúkrunar- og dvalarheimili, sundlaug, þvottahús, heilsugæsla, glerverksmiðja, fiskvinnsla og fiskbúð, kjötvinnsla og kjötbúð, gjafavöruverslun, sundlaug, banki, pósthús, tjaldstæði, apótek, hjólbarðaverkstæði, bensínstöð, íþróttahús, grunn- og leikskólar auk ýmiskonar annarrar þjónustu og stofnanir. Þá eru ráðhús og þjónustumiðstöð sveitarfélagsins á Hellu.

Hella fór að byggjast upp árið 1927, þegar Þorsteinn Björnsson reisti verslunarhús við brúna yfir Rangá, í landi jararinnar Gaddstaða. Þessum frumbyggja Hellu var reistur minnisvarði á árbakkanum á 50 ára byggðarafmæli kauptúnsins árið 1977. Hann rak þó ekki verslun sína nema í 8 ár því að 1935 keypti Kaupfélagið Þór verslunina af honum og byggði síðan upp ýmsa þjónustustarfsemi og iðnað á Hellu.

Þorpið er byggt út úr jörðunum Gaddstöðum, Helluvaði og Nesi á Rangárvöllum.

Mikill vöxtur varð í þorpinu á sjöunda áratugnum þegar fjölmargir þeirra sem störfuðu við uppbyggingu virkjana á svæðinu byggðu sér hús á svæðinu og settust að. Eftir það var vöxturinn hægari fram yfir aldamótin en eftir það hefur verið nokkuð stöðugur vöxtur í þorpinu með byggingu nýrra íbúða á hverju ári.

Á Hellu er eitt þekktasta hestaíþróttasvæði á landinu, Gaddstaðaflatir eða öðru nafni Rangárbakkar. Á svæðinu eru keppnisvellir fyrir hestaíþróttir og þar er einnig reiðhöll. Þar hafa verið haldin sex landsmót hestamanna árin 1986, 1994, 2004, 2008, 2014 og 2022.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.