Fara í innihald

Drangsnes

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Drangsnes
Kerlingin, Drangsnesi

Drangsnes er lítið þorp á Selströnd yst við norðanverðan Steingrímsfjörð í Kaldrananeshreppi í Strandasýslu. Íbúar voru 83 árið 2015.

Í Hveravík skammt innan við þorpið eru heitir hverir í fjöruborðinu alveg í vegarkantinum. Þar lifa sérstakar hitaþolnar flær. Þar var áður sundlaug. Í nágrenninu er Strákatangi þar sem hafist var handa haustið 2005 við fornleifauppgröft á hvalveiðistöð Baska frá 17. öld.

Á Drangsnesi er löndunarbryggja, en 2,5 km innan við þorpið, í Kokkálsvík, er viðleguhöfn. Yst í þorpinu, þar sem heita Grundir, er sérkennilegur steindrangur, sem heitir Kerling. Þorpið dregur nafn af þessum drangi, en þjóðsagan segir að hann hafi verið eitt af þremur tröllum sem reyndu að grafa Vestfirði frá meginlandinu.

Fyrir ofan þorpið er Bæjarfell (344 m). Þaðan er víðsýnt og er þægileg gönguleið á fellið.

Við mynni Steingrímsfjarðar utan við Drangsnes er Grímsey, sannkölluð náttúruperla. Þar er stór lundabyggð. Einungis 10 mínútna sigling er út í eyjuna og eru ferðir til Grímseyjar á sumrin með bátnum Sundhana, sem einnig býður upp á sjóstangaveiði.

Árið 1996 fannst heitt vatn við borun í miðju þorpinu og var lögð hitaveita í öll hús. Í fjöruborðinu neðan við þorpið eru heitir pottar, sem öllum er frjálst að nýta sér, salerni og skiptiklefar voru opnaðir sumarið 2011 og eru þeir staðsettir hinum meginn við götuna. Sumarið 2005 var Sundlaugin á Drangsnesi opnuð, en hún er útisundlaug með vaðlaug, heitum potti og eimbaði.

Drangsnesingar hafa haldið Bryggjuhátíð árlega frá 1996 og dregur hún til sín fjölda fólks hvert sumar. Flestir Drangsnesingar taka þátt í undirbúningi hátíðarinnar í sjálfboðavinnu.