Fara í innihald

Búðardalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Búðardalur við Hvammsfjörð.
Vínlandssetrið í Búðardal.

Búðardalur er þorp í Dölum, við botn Hvammsfjarðar. Þorpið er nú hluti af sveitarfélaginu Dalabyggð og er stjórnsýslumiðstöð þess. Íbúar Búðardals voru 256 árið 2022.

Í Laxdælasögu er Búðardalur nefndur og sagt frá því að Höskuldur Dala-Kollsson lenti skipi sínu fyrir innan Laxárós þegar hann kom úr Noregsferð og hafði ambáttina Melkorku með sér: „Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur. Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng leið.“

Verslun hófst í Búðardal árið 1899 er Bogi Sigurðsson, kaupmaður, byggði þar fyrsta húsið, sem var bæði íbúðar- og verslunarhús. Þetta hús var síðar flutt á Selfoss og stendur þar enn. Um aldamótin hóf Kaupfélag Hvammsfjarðar verslunarrekstur í Búðardal og var þar nær allsráðandi uns það varð gjaldþrota 1989.

Búðardalur er þjónustukjarni fyrir Dalina og þar er meðal annars mjólkurstöð MS, verslanir, bílaverkstæði, pósthús, apótek og önnur þjónusta fyrir heimamenn og ferðamenn. Þar er Auðarskóli, sameinaður leik- og grunnskóli fyrir Dalabyggð, og dvalarheimilið Silfurtún. Sýslumaðurinn á Vesturlandi hefur aðsetur í Stykkishólmi en afgreiðsla er í Búðardal. Í Búðardal er heilsugæslustöð og læknar. Engin kirkja er í þorpinu en sóknarkirkjan er Hjarðarholtskirkja. Hins vegar er prestssetrið í Búðardal.

Vínlandssetrið er við höfnina í Búðardal. Það er safn um Vínlandsferðir Íslendinga. Eiríksstaðir, bóndabær Eiríks rauða, er ekki langt frá Búðardal. Þar bjó Eiríkur áður en hann fór til Grænlands. Skammt utan við þorpið eru Höskuldsstaðir, þar sem Höskuldur Dala-Kollsson bjó og einnig Hjarðarholt, þar sem Ólafur pái bjó. Hallgerður langbrók og Ólafur pái voru börn Höskuldar á Höskuldsstöðum. Á Eiríksstöðum er tilgátubær sem er opinn ferðamönnum. Ein merkasta landnámskonan, Auður djúpúðga Ketilsdóttir, nam land við Hvammsfjörð. Hún byggði bæ sinn í Hvammi og er jarðsett þar í fjörunni. Síðar meir reis í Hvammi mikil ætt, Sturlungar, sem kennd er við Sturla Þórðarson í Hvammi. Enn er búið í Hvammi og er þar búskapur og Hvammskirkja sem byggð var 1883-1884.

  Þessi Íslandsgrein sem tengist landafræði er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.