Fara í innihald

Vopnafjörður

Hnit: 65°45′23″N 14°49′35″V / 65.75639°N 14.82639°V / 65.75639; -14.82639
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

65°45′23″N 14°49′35″V / 65.75639°N 14.82639°V / 65.75639; -14.82639

Vopnafjörður

Vopnafjörður er allbreiður flói á norðausturströnd Íslands, næst fyrir norðan Héraðsflóa, á milli Digraness og Kollumúla. Fyrir miðjum firði er langur og mjór tangi, Kolbeinstangi (Tangi), þar sem Vopnafjarðarbær stendur en norðan tangans eru Nípsfjörður og inn af honum Nípslón. 528 íbúar voru á Vopnafirði árið 2015 en tæplega 700 manns búa í sveitarfélaginu Vopnafjarðarhreppi.

Landslag í Vopnafirði mótaðist á síðustu ísöld. Þá þakti jökull alla sveitina og fjörðinn og svarf fjöllin og klettana umhverfis hann. Norðan Vopnafjarðar eru ávalar heiðar þar sem nokkur há fjöll standa þó upp úr en sunnan fjarðarins eru Krossavíkurfjöll, yfir þúsund metra há. Inn af firðinum eru þrír dalir, Hofsárdalur syðst, þá Vesturárdalur og Selárdalur nyrst. Dalirnir voru allir fjölbyggðir áður en í Selárdal er nú aðeins einn bær í byggð. Um þá renna Hofsá, Vesturá og Selá, sem allar eru þekktar laxveiðiár. Heitar uppsprettur eru í Selárdal og þar er sundlaug. Fjörðurinn er þekktur fyrir veðursæld.

Vopnafjarðarkirkja.

Upp af dölunum eru víðlendar heiðar og um miðja nítjándu öld, þegar mikill skortur var á jarðnæði, risu þar víða nýbýli. Bæirnir risu á árunum 1841-1862. Misjafnt var hvað þeir voru lengi byggðir en síðasti bærinn fór í eyði 1946. Lífsbaráttan á heiðunum var hörð og eru heiðarnar sögusvið skáldsögu Halldórs Laxness, Sjálfstætt fólk.

Á Vopnafirði hefur verið verslunarstaður frá gamalli tíð. Í sveitinni er stundaður hefðbundinn landbúnaður en í kaupstaðnum er einnig stunduð útgerð, fiskvinnsla, verslun og ýmis þjónusta. .

Á Bustarfelli í Vopnafirði er reisulegur torfbær sem hefur verið haldið mjög vel við og þar er minjasafn. Kirkja er í Vopnafjarðarþorpi og útkirkja á Hofi í Vopnafirði.

Ysti hluti Kolbeinstanga nefnist Tangasporður. Þar er engin byggð en landslag mjög sérstakt, óvenjulegar klettamyndanir og ljósar sandfjörur. Á Tangasporði eru þrjú fell, Fagrafjall, Miðfell og Taflan.

Í kringum 1900

Við landnám eru taldir þrír landnámsmenn í Vopnafirði: Eyvindur vopni og Hróaldur bjóla sem voru fóstbræður og Lýtingur Arnbjarnarson. Nafn fjarðarins er sagt dregið af viðurnefni Eyvindar sem nam Hofsárdal og hluta Vesturárdals austan megin og bjó hann í Syðrivík sem þá hét heitið Krossavík innri. Hróaldur nam Selárdal, hluta Vesturárdals og norðurströnd fjarðarins. Hann bjó fyrst á Hróaldsstöðum í Selárdal en síðar á Torfastöðum í Vesturárdal. Lýtingur nam austurströnd fjarðarins og bjó í Krossavík ytri. Telja má bróðurson Eyvindar vopna, Steinbjörn kört Refsson, fjórða landnámsmanninn þar sem hann byggði sér bæ á Hofi eftir að Eyvindur frændi hans gaf honum land milli Hofsár og Vesturdalsár. Loks kom Þorsteinn hvíti Ölvisson frá Noregi og keypti hann land af Eyvindi en tók síðar Hofslönd af Steinbirni upp í skuld. Hann bjó að sögn Landnámabókar á Hofi í sextíu ár.

Í Vopnfirðinga sögu segir frá því að héraðsvöld og goðavald skiptust í upphafi milli Hofverja og Krossvíkinga. Sameiginlegur þingstaður var í Sunnudal en í heiðni var blóthof á Hofi og efldi það héraðsvöld Hofverja. Brodd-Helgi sonarsonur Þorsteins hvíta giftist Höllu systur Geitis Lýtingssonar en skildi við hana og ósætti varð vegna fjárskipta þeirra. Fó svo að Geitir vó Helga á Sunnudalsþingi en sættir tókust við Víga-Bjarna son Helga. Víga-Bjarni rauf sættirnar að áeggjan stjúpu sinnar og vó Geiti en iðraðist verknaðarins. Leiddi þetta til fjandskapar milli Bjarna og Þorkels Geitissonar sem endaði með orrustu milli þeirra í Böðvarsdal. Særðist Þorkell þar og greru sár hans illa. Sendi þá Bjarni honum lækni sem læknaði sár hans og það, ásamt milligöngu Jórunnar, konu Þorkels, varð til þess að sættir tókust og flutti Þorkell á endanum til Bjarna að Hofi þar sem hann bjó til dauðadags. Þorkell átti aðeins eina dóttir sem fluttist burt og eftir að hann fluttist sjálfur að Hofi færðust öll völd til Hofverja.

Vopnfirðinga saga segir um Þorkel Geitisson að hann hafi verið hreystimenni og fylginn sér en Hofverjar hafi ekki verið spakir að viti þó flest hafi vel til tekist. Forræði Hofverja náði til 1122 í beinan karllegg en þá komu til sögunar Valþjófsstaðamenn sem raunar bjuggu löngum á Hofi og tengdust Hofverjum. Voru þeir helstu höfðingjar héraðsins allt til loka þjóðveldisins en Austfirðingar gengu Noregskonungi á hönd 1264, tveimur árum síðar en aðrir landsfjórðungar.

Eftir það eru heimildir stopular og stór hluti sögunar óþekktur. Þó er vitað að kaupmenn sigldu á Vopnafjörð frá fornu fari og á einokunartímanum var þar ein af þremur verslunarhöfnum fjórðungsins. Dönsku kaupmennirnir Ørum & Wulff ráku umfangsmikla verslun og aðra starfsemi á Vopnafirði á 19. öld. Kaupfélag Vopnfirðinga var stofnað árið 1918 og var einn helsti vinnuveitandi sveitarfélagsins allt þar til það varð gjaldþrota árið 2004.

Vopnafjörður var helsta brottfararhöfn Vesturfara, ekki aðeins á Austurlandi, heldur á öllu landinu á síðustu áratugum 19. aldar og í upphafi þeirrar tuttugustu. Mjög margir Vestur-Íslendingar eiga ættir að rekja til Vopnafjarðar. Þar er nú Vesturfaramiðstöð Austurlands.