Fara í innihald

Joe Biden

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Joe Biden
Forseti Bandaríkjanna
Núverandi
Tók við embætti
20. janúar 2021
VaraforsetiKamala Harris
ForveriDonald Trump
EftirmaðurDonald Trump
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 2009 – 20. janúar 2017
ForsetiBarack Obama
ForveriDick Cheney
EftirmaðurMike Pence
Öldungadeildarþingmaður fyrir Delaware
Í embætti
3. janúar 1973 – 15. janúar 2009
ForveriJ. Caleb Boggs
EftirmaðurTed Kaufman
Persónulegar upplýsingar
Fæddur20. nóvember 1942 (1942-11-20) (82 ára)
Scranton, Pennsylvaníu, Bandaríkjunum
StjórnmálaflokkurDemókrataflokkurinn
MakiNeilia Hunter (g. 1966; d. 1972)
Jill Biden (g. 1977)
TrúarbrögðKaþólskur
Börn4
BústaðurHvíta húsið, Washington, D.C.
HáskóliHáskólinn í Delaware
Syracuse-háskóli
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Joseph Robinette Biden Jr. (fæddur 20. nóvember 1942) er bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum og núverandi forseti Bandaríkjanna frá 2021. Biden var áður varaforseti Bandaríkjanna frá 2009 til 2017 í forsetatíð Baracks Obama og sat á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir heimafylki sitt, Delaware, frá 1973 til 2009.[1] Biden tók við embætti Bandaríkjaforseta þann 20. janúar 2021 eftir að hafa unnið forsetakosningarnar 2020 og er því 46. forseti Bandaríkjanna.

Biden hafði áður sóst eftir tilnefningu Demókrataflokksins sem forsetaframbjóðandi í forsetakosningunum árið 1988 og forsetakosningunum árið 2008 en hætti við bæði framboðin eftir slakt gengi. Þann 23. ágúst 2008 tilkynnti Barack Obama að Biden yrði varaforsetaefni sitt í forsetakosningunum. Obama og Biden unnu kosningarnar og náðu endurkjöri í kosningunum 2012.

Biden tilkynnti þann 25. apríl 2019 að hann hygðist gefa kost á sér í þriðja sinn í forsetakosningunum 2020 á móti Donald Trump, sitjandi forseta úr Repúblikanaflokknum.[2] Biden var formlega tilnefndur frambjóðandi Demókrataflokksins á flokksþingi Demókrata þann 18. ágúst.[3] Þann 7. nóvember, fjórum dögum eftir að kosningarnar fóru fram, hafði Biden tryggt sér meirihluta í kjörmannaráðinu sem velur forsetann samkvæmt talningum, og var hann því lýstur sigurvegari af flestum bandarískum fréttastofum og eftirlitsstofnunum.[4] Kjörmannaráðið staðfesti kjör hans þann 14. desember[5] og Biden tók því við sem 46. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2021.[6]

Þann 25. apríl 2023 tilkynnti Biden að hann hygðist bjóða sig fram til endurkjörs í forsetakosningununum 2024. Hann tryggði sér útnefningu Demókrata þann 12. mars 2024 og hlaut 87,1% atkvæða í forvali flokksins. Hann dró síðan framboð sitt til endurkjörs til baka þann 21. júlí 2024 eftir fjölda áskorana vegna áhyggja af aldri hans eftir slæma útkomu í kappræðum á móti Trump í júní 2024. Biden er fyrsti forsetinn sem býður sig ekki fram til endurkjörs frá Lyndon B. Johnson árið 1968. Hann mun því láta af embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 2025. Donald Trump var kjörinn eftirmaður hans í forsetakosningunum sem fóru fram í nóvember 2024 þar sem kosið var á milli Trump og Kamölu Harris varaforseta Bandaríkjanna.

Biden er elsti maður sem hefur náð kjöri til forseta Bandaríkjanna, en hann var 79 ára þegar að hann náði kjöri. Hann er jafnframt annar kaþólski forseti landsins, á eftir John F. Kennedy, og fyrsti Bandaríkjaforsetinn frá Delaware.

Joe Biden fæddist þann 20. nóvember árið 1942 í bænum Scranton í Pennsylvaníu og var elstur fjögurra systkina. Fjölskylda hans fluttist til Delaware þegar Joe var tíu ára, en þar vann faðir hans við bílasölu. Biden nam sögu og stjórnmálafræði en hóf síðar lögfræðinám við Syracuse-háskóla.[7]

Biden útskrifaðist úr laganámi árið 1968 og hóf í kjölfarið störf við stóra lögmannsstofu í Wilmington. Hann sagði upp starfi sínu þar eftir sex mánuði og var ráðinn við aðra minni lögmannsstofu sem fékkst við að verja verkafólk og fólk úr minnihlutahópum.[8] Biden hóf eiginlega þátttöku í stjórnmálum árið 1970 þegar hann bauð sig fram til setu í sveitarstjórn Newcastle County í Delaware. Kosningabarátta hans þótti ötul, en Biden lagði meðal annars áherslu á byggingu fleiri félagslegra íbúða í sýslunni. Biden náði kjöri en hóf síðan nánast umsvifalaust áform um að bjóða sig fram á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Delaware.[8]

Þingferill

[breyta | breyta frumkóða]

Þökk sé kröftugri frammistöðu sinni í sveitarstjórninni vann hann sér smám saman traust Demókrataflokksins og árið 1972 varð Biden frambjóðandi flokksins í kosningum Delaware til öldungadeildarinnar á móti sitjandi þingmanni úr Repúblikanaflokknum, J. Caleb Boggs. Í kosningabaráttunni höfðaði Biden til yngri kjósenda. Meðal annars talaði hann fyrir brottflutningi bandarískra hermanna úr Víetnamstríðinu, fyrir umhverfisvernd og fyrir auknum réttindum bandarískra blökkumanna. Á kjördag vann Biden óvænt nauman sigur gegn Boggs. Biden var þá aðeins 29 ára, en átti eftir að verða 30 ára (sem er lágmarksaldur fyrir setu á öldungadeildarþinginu) fyrir upphaf nýja þingtímabilsins árið 1973.[8] Biden varð því sjötti yngsti einstaklingurinn sem hafði verið kjörinn á öldungadeildina.[7]

Á námsárum sínum í lögfræði árið 1966 kvæntist Biden konu að nafni Neiliu Hunter. Hjónin eignuðust tvo syni og eina dóttur saman. Árið 1972, stuttu eftir að Biden hafði náð kjöri á öldungadeild Bandaríkjaþings fyrir Delaware, lést Neilia í bílslysi ásamt dóttur þeirra. Synir þeirra, sem einnig voru í bílnum, slösuðust alvarlega en lifðu af. Biden íhugaði að taka ekki sæti sitt á öldungadeildinni vegna harmleiksins en féllst á að taka það eftir hvatningu frá vinum sínum og frá Richard Nixon, þáverandi forseta.[7][8]

Biden kvæntist á ný árið 1977, konu að nafni Jill Tracy Jacobs, og eignaðist með henni eina dóttur.[7] Árið 1987 gaf Biden kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar sem fóru fram næsta ár. Hann þótti í fyrstu vænlegur kostur en framboð hans rataði í vandræði eftir að Biden var sakaður um ritstuld vegna ræðu sem hann flutti og þótti öpuð eftir svipaðri ræðu sem Neil Kinnock, leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, hafði flutt. Málið reyndist Biden pínlegt og leiddi til þess að hann dró sig úr forvalinu, sem Michael Dukakis vann að endingu.[9]

Árið 1988 veiktist Biden lífshættulega og gekkst undir skurðaðgerð vegna heilablæðingar. Hann var í kjölfarið sjö mánuði í fríi frá störfum við þingið. Árin 1987 og 1991 stýrði Biden yfirheyrslum bandarísku dómsmálanefndarinnar yfir dómurum sem höfðu verið tilnefndir í Hæstarétt Bandaríkjanna. Í fyrra skiptið átti yfirheyrslan þátt í því að þingið neitaði að staðfesta tilnefningu Roberts Bork í Hæstaréttinn. Í seinna skiptið stóð Biden fyrir yfirheyrslum yfir Clarence Thomas, sem var sjónvarpað og vöktu mikla athygli um allt landið. Biden staðfesti að endingu tilnefningu Thomas í Hæstaréttinn, sem varð nokkuð umdeilt þar sem Thomas hafði verið sakaður um kynferðislega áreitni af fyrrverandi samstarfskonu sinni.[10]

Biden átti árið 1994 þátt í lagasetningu til að koma í veg fyrir heimilis- og kynferðisofbeldi gegn konum og hjálpa fórnarlömbum að koma lífi sínu á réttan kjöl. Biden hefur í seinni tíð sagst stoltastur af þætti sínum í þessari lagasetningu af öllum þingstörfum sínum.[10]

Árið 2002 greiddi Biden atkvæði með þingsályktun sem heimilaði stjórn George W. Bush Bandaríkjaforseta að gera innrás í Írak.[11] Sem formaður utanríkismálanefndar öldungadeildarinnar safnaði Biden jafnframt saman vitnum til að sannfæra bandaríska þingmenn um nauðsyn innrásarinnar.[12] Biden varð síðar gagnrýnni á stríðið og mótmælti meðal annars fjölgun bandarískra hermanna í Írak árið 2007.[11] Hann hefur í seinni tíð gert lítið úr upphaflegum stuðningi sínum við innrásina og hefur lagt áherslu á að hann hafi verið ósammála því hvernig stjórn Bush hóf stríðið og háttaði stríðsrekstrinum.[13]

Varaforseti Bandaríkjanna (2009-2017)

[breyta | breyta frumkóða]
Barack Obama forseti og Joe Biden varaforseti í Hvíta húsinu árið 2015.

Árið 2007 tilkynnti Biden að hann hygðist gefa kost á sér í annað skipti í forvali Demókrataflokksins í aðdraganda bandarísku forsetakosninganna árið 2008. Biden dró framboð sitt til baka í janúar árið 2008 eftir slakt gengi í forkosningum í Iowa. Barack Obama, sem vann tilnefningu Demókrata að endingu, tilkynnti þann 23. ágúst árið 2008 að hann hefði valið Biden sem varaforsetaefni sitt í kosningunum. Með því að velja Biden sem varaforsetaefni þótti Obama koma til móts við gagnrýnendur sína, sem lögðu gjarnan áherslu á reynsluleysi Obama og þekkingarskort hans í utanríkismálum, en Biden var þá einn þaulsetnasti þingmaður öldungadeildarinnar og hafði lengi verið formaður utanríkismálanefndar þingsins.[14]

Obama og Biden unnu forsetakosningarnar í nóvember árið 2008 á móti John McCain og Söruh Palin, forseta- og varaforsetaframbjóðendum Repúblikana. Biden tók við embætti sem varaforseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2009. Obama og Biden unnu endurkjör í forsetakosningunum árið 2012, en þar voru keppinautar þeirra úr röðum Repúblikana Mitt Romney forsetaframbjóðandi og Paul Ryan varaforsetaframbjóðandi.

Helsta hlutverk Bidens í embætti varaforseta var að veita Obama ráðgjöf, aðallega í utanríkis- og efnahagsmálum. Biden var spurður ráða í mörgum lykilákvörðunum Obama, meðal annars í vali á ráðherrum og í skipulagningu á áframhaldandi hernaði í stríðinu í Afganistan.[15] Obama setti hann yfir stjórn hópa sem áttu að taka á vandræðum verkalýðsstéttarinnar og hafa eftirlit með fjárframlögum til efnahagsáætlunar til endurreisnar efnahagslífsins árið 2009.[16][17] Biden fór einnig í nokkrar opinberar ferðir til Mið-Austurlanda í umboði Obama á varaforsetatíð sinni.[18]

Biden fór nokkrum sinnum á vegum Bandaríkjastjórnar til Úkraínu eftir úkraínsku byltinguna árið 2014. Í desember árið 2015 var Biden einn helsti talsmaður þess að ríkissaksóknari Úkraínu, Víktor Sjokín, yrði rekinn úr starfi fyrir að standa sig ekki nógu vel við að uppræta spillingu í landinu. Kall Bidens eftir brottrekstri Sjokíns naut á þeim tíma þverpólitísks stuðnings í Bandaríkjunum og hjá öðrum ríkjum og alþjóðastofnunum sem áttu hagsmuna að gæta í Úkraínu.[19] Víktor Sjokín var að endingu leystur úr embætti í mars 2016 en aðkoma Bidens að brottrekstri hans varð umtöluð árið 2019 eftir að Donald Trump, eftirmaður Obama á forsetastól, ýjaði að því að Biden hefði hvatt til brottreksturs Sjokíns til að koma í veg fyrir frekari spillingarrannsóknir á gasfyrirtækinu Burisma, þar sem sonur Bidens, Hunter Biden, starfaði á þeim tíma. Sjokín stóð þó ekki í rannsókn á Burisma þegar hann var rekinn.[20] Trump reyndi að fá Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, til að hefja rannsóknir á Biden-feðgunum í júlí 2019 og hafði áður látið frysta hernaðarstyrki frá Bandaríkjunum til Úkraínu.[21] Ásakanir um að Trump væri þannig að beita ríkisfjármunum á ólögmætan hátt til að koma höggi á pólitískan mótherja (en Biden þótti þá sennilegur andstæðingur Trumps í forsetakosningunum næsta árs) leiddi til þess að Trump var kærður til embættismissis árið 2019. Árið 2020 hafði endurskoðun úkraínskra ríkissaksóknara á gömlum skýrslum ekki leitt í ljós ólöglegt athæfi Hunters Biden á meðan hann sat í stjórn Burisma.[22]

Forsetaframboð 2020

[breyta | breyta frumkóða]
Joe Biden hefur kosningaherferð sína í maí 2019.

Þann 25. apríl árið 2019 tilkynnti Biden að hann hygðist gefa kost á sér í forvali Demókrata fyrir forsetakosningar ársins 2020 á móti Donald Trump, sitjandi forseta úr Repúblikanaflokknum.[2] Kosningabarátta Bidens þótti ekki fara vel af stað og honum gekk ekki vel í fyrstu forkosningum flokksins í Iowa, New Hampshire og Nevada. Hagur Bidens tók að vænkast eftir að hann vann öruggan sigur í forvali Demókrata í Suður-Karólínu[23] og vann síðan í níu af fjórtán fylkjum sem kusu í forvalinu á svokölluðum „ofurþriðjudegi“ þann 3. mars 2020.[24] Þann 8. apríl 2020 höfðu allir keppinautar Bidens í forvalinu dregið framboð sín til baka.[25]

Á meðan á forvalinu stóð sakaði lögfræðingur að nafni Tara Reade Biden um að hafa beitt sig kynferðislegu ofbeldi fyrir 27 árum, á meðan hún starfaði fyrir hann á þingmannsskrifstofu hans í Washington.[26] Biden vísaði ásökuninni á bug en hvatti til þess að öll möguleg gögn um málið yrðu gerð opinber, þar á meðal kvörtun sem Reade sagðist hafa lagt fram á sínum tíma og ætti að vera geymd í Þjóðskjalasafni Bandaríkjanna.[27]

Biden tilkynnti þann 11. ágúst að hann hefði valið öldungadeildarþingmanninn Kamölu Harris sem varaforsetaefni sitt í kosningabaráttunni.[28] Biden var formlega tilnefndur forsetaframbjóðandi Demókrata þann 18. ágúst 2020.[3]

Kosningarnar voru haldnar þann 3. nóvember. Skoðanakannanir höfðu lengi spáð Biden auðveldum sigri en á kosninganótt reyndist leikurinn milli þeirra Bidens og Trumps mun jafnari en von var á. Trump vann sigra í mikilvægum fylkjum á borð við Flórída og Texas og eftir fyrstu talningar virtist hann einnig hafa forystu í mikilvægum fylkjum á borð við Wisconsin, Michigan og Pennsylvaníu. Þegar farið var að telja utankjörfundaratkvæði síðla nætur og á næstu dögum fór hagur Bidens hins vegar að vænkast verulega. Metfjöldi póstatkvæða hafði verið greiddur vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins, en Trump hafði ítrekað ráðið fylgjendum sínum frá því að greiða utankjörfundaratkvæði og haldið því fram án röksemda að slík atkvæði byðu upp á stórtækt kosningasvindl. Hlutfallslega runnu því mun fleiri utankjörfundaratkvæði til Bidens og þegar farið var að telja þau á næstu dögum náði Biden forystu í nokkrum fylkjum þar sem Trump hafði virst sigurstranglegri á kosninganótt. Þann 7. nóvember höfðu flestar bandarískar fréttastofur lýst Biden sigurvegara, enda hafði hann þá náð forskoti í nógu mörgum fylkjum til að tryggja sér ríflega 270 atkvæði í kjörmannaráðinu sem velur forsetann.[4] Trump neitaði þó lengst af að viðurkenna ósigur og fór þess í stað í mál við ýmis fylki vegna ásakana um kosningasvindl.[29]

Kjörmannaráðið kom saman þann 14. desember og greiddi atkvæði um næsta forseta. Lokaniðurstaðan var þannig að Biden fékk 306 atkvæði en Trump 232.[5]

Forsetatíð (2021–2025)

[breyta | breyta frumkóða]
Biden með Volodymyr Zelenskyj, forseta Úkraínu, í Kænugarði þann 20. febrúar 2023.
Biden með Benjamín Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, þann 18. október 2023.

Biden var svarinn í embætti sem 46. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar 2021. Á fyrsta degi sínum í embætti gaf hann út fimmtán tilskipanir sem sneru við ýmsum stefnumálum Trumps. Meðal annars leiddi Biden Bandaríkin aftur inn í Parísarsamkomulagið um loftslagsbreytingar og innleiddi grímuskyldu í byggingum alríkisstjórnarinnar til að stemma stigu við útbreiðslu veirusýkinnar COVID-19.[30][31] Þann 25. janúar undirritaði Biden jafnframt tilskipun til að aflétta banni sem Trump hafði sett gegn því að trans fólk gegndi þjónustu í Bandaríkjaher.[32]

Þann 4. febrúar tilkynnti Biden að Bandaríkin hygðust hætta fjárstuðningi við hernaðarbandalag Sádi-Arabíu í borgarastyrjöldinni í Jemen.[33]

Þann 24. apríl 2021 varð Biden fyrstur Bandaríkjaforseta til að viðurkenna formlega að fjöldamorð Tyrkja gegn Armenum á árunum 1915 til 1917 hafi verið þjóðarmorð.[34]

Biden tilkynnti þann 13. febrúar að hann hygðist kalla alla bandaríska hermenn heim frá Afganistan fyrir 11. september 2021 til að binda enda á hið 20 ára langa stríð Bandaríkjamanna í Afganistan. Stjórn Trumps hafði áður gert samkomulag við Talíbana í Afganistan sem hafði gert ráð fyrir brottflutningi bandaríska herliðsins fyrir 1. mars.[35] Frá því að Bandaríkjamenn hófu að draga herafla sinn burt frá Afganistan hófu Talíbanar leiftursókn um landið og hertóku fjölda héraðshöfuðborga á stuttum tíma.[36] Þann 15. ágúst, aðeins um hálfu ári eftir að Biden tilkynnti um fyrirhugaða brottför herliðsins, hertóku Talíbanar afgönsku höfuðborgina Kabúl og endurheimtu þannig völd í landinu. Biden viðurkenndi í kjölfarið að hröð framrás Talíbana hefði komið sér á óvart en varði engu að síður ákvörðun sína um brottflutning hersins og sagði ótækt að biðja bandaríska hermenn að berjast endalaust í erlendri borgarastyrjöld.[37] Biden sætti töluverðri gagnrýni fyrir að ljúka stríðinu í Afganistan með þessum hætti[38] og vinsældir hans innanlands drógust nokkuð saman í kjölfar brottfararinnar.[39]

Stjórn Bidens hefur veitt Úkraínu ríkulega aðstoð í yfirstandandi innrás Rússa í Úkraínu frá árinu 2022, meðal annars með fjárhagsstuðningi og vopnasendingum. Biden fór í óvænta heimsókn til úkraínsku höfuðborgarinnar Kænugarðs þann 20. febrúar 2023, stuttu fyrir eins árs afmæli innrásarinnar, og hitti Volodymyr Zelenskyj Úkraínuforseta.[40]

Forsetakosningarnar 2024

[breyta | breyta frumkóða]

Biden tilkynnti formlega þann 25. apríl 2023 að hann hygðist sækjast eftir endurkjöri í forsetakosningum 2024.[41] Hann tryggði sér formlega útnefningu Demókrataflokksins þann 12. mars 2024.

Aldur Bidens var mikið til umræðu í aðdraganda forsetakosninganna og efasemda gætti víða um að hann hefði heilsu eða þrótt til að gegna öðru fjögurra ára kjörtímabili. Léleg frammistaða Bidens í fyrstu kappræðunum gegn Donald Trump í júní 2024 leiddi til hvatninga, meðal annars frá ýmsum þingmönnum og fjárhagslegum bakhjörlum Demókrataflokksins, um að Biden drægi framboð sitt til baka svo yngri frambjóðandi gæti hlaupið í skarðið fyrir flokkinn.[42] Þann 11. júlí 2024 hélt Biden ræðu á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins þar sem hann kynnti óvart Volodymyr Zelenskyj forseta Úkraínu sem Pútín. Biden hélt aðra ræðu síðar þetta sama kvöld þar sem hann vísaði óvart til Trump sem varaforseta Bandaríkjanna. Þessar ræður hafa báðar dregið dilk á eftir sér og vakið upp spurningar hvort Biden sé hæfur til áframhaldandi framboðs til forseta.[43]

Meðal einstaklinga sem hvöttu Biden til að draga framboð sitt til baka voru Peter Welch, Seth Moulton, Julian Castro, James Carville, George Clooney og Andrew Yang. Nokkrar ástæður voru nefndar en þá sérstaklega aldur Bidens og slök frammistaða hans í forsetakappræðum á móti Donald Trump þann 27. júní 2024.

Biden tilkynnti þann 21. júlí að hann hygðist draga framboð sitt til baka og lýsti yfir stuðningi við Kamölu Harris.[44] Hann mun því láta af embætti forseta Bandaríkjanna þann 20. janúar 2025.

Joe Biden er af írsk-bandarískum uppruna og aðhyllist rómversk-kaþólska trú. Fyrsta eiginkona hans var Neilia Hunter, sem hann kvæntist árið 1966. Með henni eignaðist hann tvo syni; Beau og Hunter; og eina dóttur; Naomi. Neilia og Naomi létust þann 18. desember árið 1972 í bílslysi. Biden kvæntist seinni eiginkonu sinni, Jill Jacobs, árið 1977 og eignaðist síðar með henni dótturina Ashley. Elsti sonur Bidens, Joseph Robinette „Beau“ Biden III , lést úr krabbameini í heila þann 30. maí árið 2015.[45]

Joe Biden hefur verið viðriðinn ýmsum gælunöfnunum í gegnum tíðina en þar má helst nefna Dark Brandon, sem að stuðningsmenn hans notuðu oft yfir hann.[46]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „BIDEN, Joseph Robinette, Jr. (Joe)“ (enska). Biographical Directory of the United States Congress. Sótt 13. júlí 2020.
  2. 2,0 2,1 Margrét Helga Erlingsdóttir (25. apríl 2019). „Joe Biden býður sig fram til forseta og segir grunngildi þjóðarinnar í húfi“. Vísir. Sótt 8. apríl 2020.
  3. 3,0 3,1 „Biden form­lega út­nefnd­ur“. mbl.is. 18. ágúst 2020. Sótt 19. ágúst 2020.
  4. 4,0 4,1 „Joe Biden sagður kjör­inn for­seti Banda­ríkj­anna“. mbl.is. 7. nóvember 2020. Sótt 7. nóvember 2020.
  5. 5,0 5,1 Kristján Kristjánsson (15. desember 2020). „Formlega staðfest að Joe Biden verður næsti forseti Bandaríkjanna“. DV. Sótt 23. desember 2020.
  6. Birgir Þór Harðarson (20. janúar 2021). „Joe Biden er orðinn 46. forseti Bandaríkjanna“. RÚV. Sótt 22. janúar 2021.
  7. 7,0 7,1 7,2 7,3 Kolbeinn Þorsteinsson (28. ágúst 2008). „Málglaður reynslubolti“. Dagblaðið Vísir. bls. 12-13.
  8. 8,0 8,1 8,2 8,3 Vera Illugadóttir (17. apríl 2020). „Í ljósi sögunnar – Joe Biden“. RÚV. Sótt 13. júlí 2020.
  9. Simon Hoggart (14. október 1987). „Í viðjum siðgæðisins“. Morgunblaðið. bls. 52.
  10. 10,0 10,1 Valgerður Þ. Jónsdóttir (28. september 2008). „Maður margra orða – og mismæla“. Morgunblaðið. bls. 14-15.
  11. 11,0 11,1 Richter, Paul; Levey, Noam N. (24. ágúst 2008). „Joe Biden respected—if not always popular—for foreign policy record“. Los Angeles Times. Sótt 18. júlí 2020.
  12. Joe Biden championed the Iraq war. Will that come back to haunt him now?, The Guardian, Mark Weisbrot, 17. febrúar 2020. Skoðað 18. ágúst 2020.
  13. Kjartan Kjartansson (6. janúar 2020). „Biden fullyrðir ranglega að hann hafi verið andsnúinn Íraksstríðinu frá upphafi“. Vísir. Sótt 18. júlí 2020.
  14. Bogi Þór Arason (24. ágúst 2008). „Tvíeggjað val“. Dagblaðið Vísir. bls. 4.
  15. „Biden says he'll be different vice president“. CNN. 22. desember 2008. Sótt 18. júlí 2020.
  16. Hornick, Ed and Levs, Josh (21. desember 2008). „What Obama promised Biden“. CNN. Sótt 23. desember 2008.
  17. Scherer, Michael (7. janúar 2009). „What Happened to the Stimulus?“. Time. Afrit af upprunalegu geymt þann október 11, 2017. Sótt 8. júlí 2009.
  18. Wilson, Scott (17. september 2009). „Biden Pushes Iraqi Leaders On Vote Law, Oil-Bid Perks“. The Washington Post. Sótt 17. september 2009.
  19. Cullison, Alan (22. september 2019). „Biden's Anticorruption Effort in Ukraine Overlapped With Son's Work in Country“. The Wall Street Journal. Afrit af uppruna á 13. október 2019. Sótt 18. júlí 2020. „Messrs. Trump and Giuliani have suggested that Joe Biden pushed for the firing of Ukraine's general prosecutor, Viktor Shokin, in March 2016 to stop an investigation into Burisma. In Ukraine, government officials and anticorruption advocates say that is a misrepresentation ... Mr. Shokin had dragged his feet into those investigations, Western diplomats said, and effectively squashed one in London by failing to cooperate with U.K. authorities ... In a speech in 2015, the U.S. ambassador to Ukraine, Otto Pyatt, called the Ukrainian prosecutor "an obstacle" to anticorruption efforts“
  20. „Trump segist hafa rætt um Biden við forseta Úkraínu“. Varðberg. 23. nóvember 2019. Sótt 18. júlí 2020.
  21. Kjartan Kjartansson (24. september 2019). „Trump stöðvaði styrk til Úkraínu áður en hann talaði við nýja forsetann“. Vísir. Sótt 18. júlí 2020.
  22. Róbert Jóhannsson (5. júní 2020). „Engar sannanir um misgjörðir Bidens“. RÚV. Sótt 18. júlí 2020.
  23. „Biden vann ör­ugg­an sig­ur í Suður-Karólínu“. mbl.is. 1. mars 2020. Sótt 18. júlí 2020.
  24. Ævar Örn Jósepsson (4. mars 2020). „Stefnir í sigur Bidens í 9 ríkjum af 14“. RÚV. Sótt 18. júlí 2020.
  25. „Bernie Sand­ers dreg­ur sig í hlé“. mbl.is. 8. apríl 2020. Sótt 8. apríl 2020.
  26. Arnar Þór Ingólfsson (2. maí 2020). „Biden í bobba vegna alvarlegra ásakana“. Kjarninn. Sótt 18. júlí 2020.
  27. Einar Þór Sigurðsson (1. maí 2020). „Joe Biden segist sak­laus: „Þetta gerðist aldrei". Fréttablaðið. Sótt 18. júlí 2020.
  28. Freyr Gígja Gunnarsson (11. ágúst 2020). „Kamala Harris verður varaforsetaefni Biden“. RÚV. Sótt 11. ágúst 2020.
  29. „Giuli­ani: Trump ját­ar ekki ósig­ur“. mbl.is. 7. nóvember 2020. Sótt 7. nóvember 2020.
  30. „Fimmtán til­skip­an­ir á fyrsta degi“. mbl.is. 20. janúar 2021. Sótt 20. janúar 2021.
  31. „17 til­skip­an­ir Bidens“. mbl.is. 20. janúar 2021. Sótt 20. janúar 2021.
  32. „Biden aflétt­ir trans­banni hers­ins“. mbl.is. 25. janúar 2021. Sótt 25. janúar 2021.
  33. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (4. febrúar 2021). „Bandaríkin hætta fjárveitingum til stjórnarhers Jemen“. RÚV. Sótt 5. febrúar 2021.
  34. „Viður­kenndi þjóðarmorð Tyrkja á Armen­um“. mbl.is. 24. apríl 2021. Sótt 24. apríl 2021.
  35. Samúel Karl Ólason (13. apríl 2021). „Ætla að kalla hermenn heim fyrir ellefta september“. Vísir. Sótt 14. apríl 2021.
  36. Samúel Karl Ólason (12. ágúst 2021). „Valta yfir stjórnarherinn: Ríkisstjórnin býðst til að deila völdum með Talibönum“. Vísir. Sótt 13. ágúst 2021.
  37. Andri Magnús Eysteinsson (17. ágúst 2021). „Biden varði ákvörðunina í ávarpi“. RÚV. Sótt 16. ágúst 2021.
  38. Bogi Ágústsson (27. ágúst 2021). „Biden gagnrýndur vegna burtkvaðningar frá Afganistan“. RÚV. Sótt 2. september 2021.
  39. Arnar Björnsson (25. ágúst 2021). „Vinsældir Bidens dvína vestanhafs“. RÚV. Sótt 2. september 2021.
  40. „Biden í óvænta heimsókn til Úkraínu“. mbl.is. 20. febrúar 2023. Sótt 27. apríl 2023.
  41. Alexander Kristjánsson (25. apríl 2023). „Joe Biden sækist eftir endurkjöri“. RÚV. Sótt 27. apríl 2023.
  42. Sólrún Dögg Jósefsdóttir (11. júlí 2024). „Vaxandi efa­semdir um á­gæti Biden sem for­seta­efni“. Vísir. Sótt 10. júlí 2024.
  43. Rafn Ágúst Ragnarsson (12. júlí 2024). „Vísaði til Selenskís sem Pútíns og vara­for­setans sem Trumps“. Vísir. Sótt 12. júlí 2024.
  44. Eiður Þór Árnason (21. júlí 2024). „Joe Biden dregur fram­boð sitt til baka“. Vísir. Sótt 21. júlí 2024.
  45. „Son­ur Joes Bidens lát­inn“. mbl.is. 31. maí 2015. Sótt 18. júlí 2020.
  46. „Let's Go Brandon“, Wikipedia (enska), 22. júlí 2024, sótt 23. júlí 2024


Fyrirrennari:
Donald Trump
Forseti Bandaríkjanna
(2021 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti (Donald Trump tekur við af honum 20. janúar 2025
Fyrirrennari:
Dick Cheney
Varaforseti Bandaríkjanna
(2009 – 2017)
Eftirmaður:
Mike Pence