Fara í innihald

Úkraína

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Úkraína
Україна
(Úkrajína)
Fáni Úkraínu Skjaldarmerki Úkraínu
Fáni Skjaldarmerki
Þjóðsöngur:
Derzjavnyj Hímn Úkrajíny
Staðsetning Úkraínu
Höfuðborg Kænugarður
Opinbert tungumál Úkraínska
Stjórnarfar Forsetaþingræði

Forseti Volodymyr Zelenskyj
Forsætisráðherra Denys Sjmyhal
Þingforseti Rúslan Stefantsjúk
Sjálfstæði frá Sovétríkjunum
 • Yfirlýst 24. ágúst 1991 
 • Þjóðaratkvæðagreiðsla 1. desember 1991 
 • Staðfest 25. desember 1991 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
45. sæti
603.628 km²
7
Mannfjöldi
 • Samtals (2021)
 • Þéttleiki byggðar
27. sæti
41.362.393
74/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 429,947 millj. dala (48. sæti)
 • Á mann 10.310 dalir (108. sæti)
VÞL (2019) 0.779 (74. sæti)
Gjaldmiðill hrinja, гривня (UAH)
Tímabelti UTC+2 (+3 á sumrin)
Þjóðarlén .ua
Landsnúmer +380

Úkraína (úkraínska: Україна/Úkrajína) er land í Austur-Evrópu. Úkraína er næststærsta Evrópulandið á eftir Rússlandi. Landið á landamæri að Rússlandi í austri og norðaustri, Hvíta-Rússlandi í norðri og Póllandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu og Moldóvu í vestri. Úkraína á strönd að Svartahafi og Asovshafi í suðri. Landið er rúmir 600 þúsund km² að stærð með rúmlega 40 milljón íbúa. Það er 8. fjölmennasta land Evrópu. Kænugarður er stærsta borgin og höfuðborg landsins.

Ummerki um mannabyggð þar sem Úkraína er nú eru allt að 34.000 ára gömul. Á miðöldum var landið miðstöð menningar Austur-Slava og varð hluti af Garðaríki. Garðaríki klofnaði í mörg minni furstadæmi á 13. öld, og eftir innrásir Mongóla tókust ýmsar þjóðir á um yfirráð yfir landinu, þar á meðal Pólsk-litháíska samveldið, Tyrkjaveldi og Rússneska keisaradæmið. Höfuðsmannsdæmi kósakka var stofnað þar á 17. öld, en landinu var á endanum skipt milli Póllands og Rússlands. Í kjölfar rússnesku byltingarinnar 1917 var Alþýðulýðveldið Úkraína stofnað. Það reyndist skammlíft og eftir síðari heimsstyrjöld varð vesturhluti þess Sovétlýðveldið Úkraína sem hluti af Sovétríkjunum. Sovétlýðveldið lýsti yfir sjálfstæði við upplausn Sovétríkjanna 1991.

Eftir að landið fékk sjálfstæði lýsti Úkraína yfir hlutleysi í alþjóðamálum,[1] en átti þátt í stofnun Samveldis sjálfstæðra ríkja auk þess að hefja hernaðarsamstarf við Atlantshafsbandalagið 1994. Árið 2013 ákvað forseti Úkraínu, Víktor Janúkovytsj sem tilheyrði rússneska minnihlutanum í landinu, að slíta samstarfssamningi við Evrópusambandið og mynda nánari tengsl við Rússland. Þetta leiddi til mótmæla og að lokum var honum steypt af stóli. Í kjölfarið innlimaði Rússland Krímskaga eftir að hafa sent þangað herlið og haldið atkvæðagreiðslu. Rússneskumælandi héruð í Donbas í austurhluta Úkraínu lýstu í kjölfar yfir sjálfstæði og hafa barist gegn úkraínskum stjórnvöldum með aðstoð Rússa síðan þá.

Árið 2016 óskaði Úkraína eftir að gera fríverslunarsamning við Evrópusambandið.[2] Landið sótti formlega um aðild að Evrópusambandinu árið 2022.[3]

Úkraína er þróunarland og er í 74. sæti vísitölu um þróun lífsgæða. Landið er það fátækasta í Evrópu, ásamt Moldóvu. Fátækt er útbreidd og alvarleg spilling einkennir stjórnmálin.[4][5] Úkraína á víðáttumikið ræktarland og er einn stærsti kornútflytjandi heims.[6][7] Úkraínuher er þriðji stærsti her Evrópu, á eftir Rússlandsher og Frakklandsher. Stjórnarfar í Úkraínu er forsetaþingræði með þrískiptingu ríkisvaldsins. Landið á aðild að Sameinuðu þjóðunum, Evrópuráðinu, Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu, GUAM-stofnuninni, Lublinþríhyrningnum og er einn af stofnaðilum Samveldis sjálfstæðra ríkja, þótt landið hafi aldrei gerst formlegur aðili.

Úkraína var miðja fyrsta slavneska ríkisins, Garðaríkis sem stofnað var af Væringjum (sænskum víkingum) og var stærsta og öflugasta ríki Evrópu á 10. og 11. öld. Innbyrðis deilur og innrás Mongóla veiktu ríkið sem var þá innlimað í Stórhertogadæmið Litáen sem seinna varð að Pólsk-litáíska samveldinu. Menningarleg og trúarleg arfleifð Garðaríkis hélt lífinu í úkraínskri þjóðernishyggju næstu aldirnar. Nýtt ríki kósakka var stofnað í Úkraínu um miðja 17. öld eftir uppreisn gegn Pólverjum, ríkið var formlega hluti af Rússneska keisaradæminu en var í raun nánast alveg sjálfstætt í meira en 100 ár. Á seinni hluta 18. aldar lögðu Rússar undir sig megnið af landi Úkraínu.

Eftir fall Rússneska keisaradæmisins 1917 lýsti Úkraína yfir sjálfstæði sínu um skamma hríð (1917–1920) en var þá innlimað á ný, nú inn í Sovétríkin. Tvær hungursneyðir af mannavöldum riðu yfir landið (1921–1922 og 1932–1933) þegar samyrkjubúskapur var innleiddur með valdi í landinu, yfir átta milljónir manna létu lífið í þessum hörmungum. Úkraína varð að blóðugum vígvelli í Síðari heimsstyrjöld þar sem herir Þýskalands og Sovétríkjanna börðust hatrammri baráttu sem kostaði sjö til átta milljónir mannslífa. Sjálfstæði náðist á ný með falli Sovétríkjanna 1991 en mörg vandamál blasa við hinu unga lýðveldi. Völd ríkisins eru enn þá gríðarleg og spilling er mikil sem hefur tafið fyrir efnahagsumbótum, einkavæðingu og innleiðslu borgaralegra réttinda.

Frá 2014 hafa verið átök eða stríð milli Rússlands og Úkraínu. Úkraína hefur hneigst í átt að Evrópusambandinu og NATÓ sem hefur angrað Rússland. Rússland innlimaði Krímskaga árið 2014. Vopnuð átök í Donetsk og Lúhansk í austurhluta Úkraínu voru milli rússneska minnihlutans og úkraínska meirihlutans. Rússar sendi þeim fyrrnefndu vopnabúnað. Í febrúar 2022 lýsti Vladímír Pútín yfir sjálfstæði lýðvelda sem kennd eru við héruðin þar sem flestir rússnesk ættaðir voru. Skömmu síðar réðst Rússland inn í Úkraínu frá austri, suðri og norðri. Loftárásir voru gerðar um allt land á hernaðarmannvirki og á almenna borgara. Milljónir flýðu land.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Útsýni yfir Karpataþjóðgarðinn og Hoverla sem er hæsta fjall Úkraínu, 2.061 metrar á hæð.

Úkraína er stórt land í Austur-Evrópu og liggur að mestu leyti á Austur-Evrópusléttunni. Úkraína er annað stærsta Evrópulandið á eftir Rússlandi. Landið er 603.628 km² að stærð með 2.782 km langa strandlengju við Svartahaf og Asovshaf.[8] Úkraína er milli 44. og 53. breiddargráðu norður og 22. og 41. lengdargráðu austur.

Landslag Úkraínu einkennist af frjósömum sléttum (eða gresjum) og hásléttum, sem margar ár renna um á leið sinni til Svartahafs. Meðal þeirra eru Dnjepr, Donets, Dnjestr og Pívdennyj Búg. Í suðvestri liggja landamæri Úkraínu að Rúmeníu við Dónárósa. Einu fjöll Úkraínu eru Karpatafjöll í vestri. Hæst þeirra er Hoverla fjall, 2061 metrar á hæð, og Krímfjöll á Krímskaga, syðst við ströndina.[9] Í Úkraínu eru líka hálendissléttur, eins og Volyn-Podillia-sléttan í vestri, og Dnipro-hálendið við bakka Dnjepr. Í austri eru suðvesturásar Mið-Rússlandshásléttunni þar sem landamærin að Rússlandi liggja. Donets-hryggurinn og Asovshálendið eru við Asovshaf. Snjóbráð úr fjöllunum rennur út í árnar og fossar myndast þar sem er skarpur hæðarmunur.

Helstu náttúruauðlindir Úkraínu eru járngrýti, kol, mangan, jarðgas, olía, salt, brennisteinn, grafít, títan, magnesín, kaólín, nikkel, kvikasilfur, timbur og mikið ræktarland. Þrátt fyrir þessar auðlindir stendur landið frammi fyrir áskorunum í umhverfismálum, eins og skorti á drykkjarvatni, loft- og vatnsmengun og skógeyðingu, auk geislamengunar eftir Tsjernobylslysið í norðaustri. Endurvinnsla á eitruðum heimilisúrgangi er skammt á veg komin.[10]

Héraðaskipting

[breyta | breyta frumkóða]

Úkraína skiptist í 24 héruð (úkraínska: область), 1 sjálfstjórnarlýðveldi (Sjálfstjórnarlýðveldið Krím) og 2 borgir með sérstöðu: Höfuðborgina Kænugarð (Kyjív) og Sevastopol:

Hérað Fáni Úkraínskt heiti Höfuðborg
Vínnytsjafylki Вінницька область Vínnytsja
Volynskfylki Волинська область Lútsk
Dníprópetrovskfylki Дніпропетровська область Dnípro
Donetskfylki Донецька область Donetsk
Zjytomyrfylki Житомирська область Zjytomyr
Zakarpatska-fylki Закарпатська область Úzjhorod
Zaporízjzja-fylki Запорізька область Zaporízjzja
Ívano-Frankívskfylki Івано-Франківська область Ívano-Frankívsk
Kænugarðsfylki Київська область Kænugarður
Kyrovohradfylki Кропивницька область Kropyvnytskyj
Lúhanskfylki Луганська область Lúhansk
Lvívfylki Львівська область Lvív
Mykolajívfylki Миколаївська область Mykolajív
Odesafylki Одеська область Odesa
Poltavafylki Полтавська область Poltava
Rívnefylki Рівненська область Rívne
Súmyfylki Сумська область Súmy
Ternopílfylki Тернопільська область Ternopíl
Kharkívfylki Харківська область Kharkív
Khersonfylki Херсонська область Kherson
Khmelnytskyjfylki Хмельницька область Khmelnytskyj
Tsjerkasyfylki Черкаська область Tsjerkasy
Tsjernívtsífylki Чернівецька область Tsjernívtsí
Tsjerníhívfylki Чернігівська область Tsjerníhív
Sjálfstjórnarlýðveldið Krím Автономна Республіка Крим Símferopol
Kænugarður Київ Kænugarður (Kyjív)
Sevastopol Севастополь Sevastopol

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Declaration of State Sovereignty of Ukraine“. Verkhovna Rada of Ukraine. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. Sótt 24. desember 2007.
  2. „Ukraine - Trade - European Commission“. ec.europa.eu.
  3. „Sækir formlega um aðild að ESB“. mbl.is. 28. febrúar 2022. Sótt 15. mars 2022.
  4. „Next to Kyrgyzstan and Djibouti — Ukraine's Results in Corruption Perceptions Index 2019“. Transparency International. 23. janúar 2020. Sótt 18. febrúar 2020.
  5. Bohdan Ben (25. september 2020). „Why Is Ukraine Poor? Look To The Culture Of Poverty“. VoxUkraine. Sótt 4. mars 2021.
  6. „Ukraine becomes world's third biggest grain exporter in 2011 – minister“. Black Sea Grain. 20. janúar 2012. Afrit af upprunalegu geymt þann 31. desember 2013. Sótt 31. desember 2013.
  7. „World Trade Report 2013“. World Trade Organization. 2013. Sótt 26. janúar 2014.
  8. „Ukraine“. CIA World Factbook. 13. desember 2007. Sótt 24. desember 2007.
  9. „Ukraine – Relief“. Encyclopædia Britannica (fee required). Afrit af upprunalegu geymt þann 15. janúar 2008. Sótt 27. desember 2007.
  10. Oksana Grytsenko (9. desember 2011). „Environment suffers from lack of recycling“. Kyiv Post. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. janúar 2012.