Hades
Hades var holdgervingur dauðans í grískri goðafræði, en nafn hans er talið komið af indóevrópsku orði sem þýðir hinn óséði. Stundum er Hades einnig haft um alla undirheima, og nafn hans þá nokkurskonar hluti fyrir heild.
Hjá Hadesi er að finna hið sama tvískinnungseðli og hjá Persefónu eiginkonu hans. Eftir hinum eldri hugmyndum er hann sá miskunnarlausi og heiftrækni óvinur alls lífs, er Hómer segir, að leiðastur sé mönnum allra goða. En smám saman ryðja sér til rúms mildari hugmyndir um hann: Hann veitir jurtum og öllum gróðri næringu úr skauti jarðar. Í neðanjarðargöngum og klefum á hann ógrynni auðs, dýra málma og verðmæta steina, sem hann gefur mönnunum. Í þeirri veru nefndist hann Plúton, hinn auðgi.
Hades er bróðir Seifs eins og Póseidón. Þegar synir Krónosar skiptu með sér völdum, hlaut hann undirheima. Er mennirnir hafa runnið sitt takmarkaða skeið, flytur hann þá niður í ríki sitt. Í fyrndinni ímynduðu menn sér hann sem ofbeldisfullan og sterkan ræningja, eins og kemur fram í ráni Persefónu, er hann nemur brúði sína á braut á fráum akjóum. Síðar var Hermesi fengið það hlutverk að leiðbeina sálum framliðinna niður í undirheima. Þjónar hann þannig Pluton eða Seifi undirheima á svipaðan hátt og hann er boðbori hins ólympska Seifs. En þótt hugmyndirnar um Hades milduðust með tímanum, stóð Grikkjum ávallt einhver stuggur af honum. Um hann eru tæplega aðrar sagnir sagðar en rán Persefónu.
Hómer kallar Hades: hinn hestfræga, en sagt er að hann hafi haft ágæta akjóa fyrir vagni sínum.
Rómverskur Hades
[breyta | breyta frumkóða]Með Rómverjum nefndist þessi guð Pluto eða Dis pater. Voru hugmyndirnar um hann þær sömu og hjá Grikkjum, enda höfðu Rómverjar tekið þennan guð að erfðum frá þeim.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Jón Gíslason, Goðafræði Grikkja og Rómverja