René Descartes
Vestræn heimspeki Heimspeki 17. aldar | |
---|---|
Nafn: | René Descartes |
Fæddur: | 31. mars 1596 |
Látinn: | 11. febrúar 1650 (53 ára) |
Skóli/hefð: | Rökhyggja |
Helstu ritverk: | Orðræða um aðferð, Hugleiðingar um frumspeki, Lögmál heimspekinnar |
Helstu viðfangsefni: | þekkingarfræði, frumspeki, vísindi, stærðfræði |
Markverðar hugmyndir: | aðferðafræðileg efahyggja, cogito, ergo sum, tvíhyggja, verufræðileg rök fyrir tilvist guðs, kartesískt hnitakerfi |
Áhrifavaldar: | Platon, Aristóteles, Anselm, Tómas Aquinas, William af Ockham, Francisco Suárez, Marin Mersenne |
Hafði áhrif á: | Baruch Spinoza, Antoine Arnauld, Nicolas Melbranche, John Locke, Gottfried Wilhelm Leibniz, Immanuel Kant, Edmund Husserl |
René Descartes einnig þekktur sem Cartesius á latínu (31. mars 1596 – 11. febrúar 1650) var franskur stærðfræðingur og heimspekingur og vísindamaður.[1] Descartes er stundum nefndur „faðir nútímaheimspeki“ og „faðir nútímastærðfræði“ en mikið af nýaldarheimspeki var beinlínis viðbragð við kenningum hans.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Descartes fæddist í La Haye en Touraine (en bærinn heitir í dag Descartes) í Indre-et-Loire í Frakklandi.[2] Móðir hans, Jeanne Brochard, lést úr berklum þegar hann var eins árs gamall. Faðir hans, Joachim, var hæstaréttardómari. Þegar Descartes var ellefu ára gamall hóf hann nám hjá jesúítum í hinum konunglega skóla Hinriks mikla í La Flèche. Að náminu loknu lá leiðin til háskólans í Poitiers, þaðan sem Descartes brautskráðist með gráðu í lögfræði árið 1616. Faðir Descartes ætlaði honum að verða lögfræðingur.
En Descartes starfaði aldrei sem lögfræðingur. Árið 1618 gekk hann í þjónustu Maurice frá Nassau í Hollandi. Descartes hugðist skoða heiminn og uppgötva sannleikann.
Þann 10. nóvember 1618 kynntist Descartes Isaac Beeckman, sem glæddi áhuga hans á stærðfræði og hinni nýju eðlisfræði. Ári síðar, 10. nóvember 1619, var Descartes á ferðalagi um Þýskaland og var hugsi um beitingu stærðfræðinnar til að leysa vandamál í eðlisfræði. Hann dreymdi draum þar sem hann „uppgötvaði undirstöður merkilegra vísinda“.[3] Undirstöðurnar sem Descartes dreymdi um urðu síðar að hnitarúmfræði þeirri sem Descartes fann upp. Hann helgaði líf sitt rannsóknum í stærðfræði, heimspeki og vísindum. Descartes las sér einnig til um hugmynd Ágústínusar um frjálsan vilja, þ.e. að vilji okkar sé óháður vilja guðs.
Árið 1622 sneri Descartes aftur til Frakklands. Næstu árum varði hann í París og víðar í Evrópu. Hann hélt til La Haye árið 1623, seldi þar allar eignir sínar og fjárfesti í skuldabréfum. Arðurinn nægði Descartes til að framfleyta sér til æviloka. Árið 1628 flutti hann til Hollands og einbeitti sér að ritstörfum sínum.
Árið 1633 fordæmdi Rómversk-kaþólska kirkjan Galileo Galilei. Descartes hætti í kjölfarið við útgáfu á riti sínu Um heiminn sem hann hafði unnið að fjögur ár á undan.
Rit Descartes Orðræða um aðferð kom út árið 1637. Hann hélt áfram að semja og gefa út rit um stærðfræði og heimspeki. Árið 1643 fordæmdi háskólinn í Utrecht heimspekilegar kenningar Descartes. Descartes átti í miklum bréfaskriftum vegna þessa. Árið 1663, að Descartes látnum, lét Alexander VII páfi setja rit Descartes á lista yfir bannfærðar bækur.
Descartes lést 11. febrúar 1650 í Stokkhólmi í Svíþjóð, þar sem hann var gestur Kristínar Svíjadrottingar. Dánarorsök var sögð vera lungnabólga. Andlátsorð hans voru „ça, mon âme, il faut partir“ eða „Jæja, sál mín, tími til að fara“[4]
Descartes var borinn til grafar í kirkjugarði Adolf Friðriks-kirkjunnar í Stokkhólmi. Jarðneskar leifar hans voru síðar grafnar upp og fluttar til Frakklands þar sem þeim var komið fyrir í Sainte-Geneviève-du-Mont-kirkjunni í París. Leifar hans voru fluttar enn á ný á dögum frönsku byltingarinnar, að þessu sinni til Panthéon í París þar sem margir að merkustu vísindamönnum Frakka eru grafnir. Grafhvelfing hans er nú í Saint-Germain-des-Prés-kirkjunni í París. Þorpið þar sem hann fæddist var nefnt La Haye – Descartes árið 1802 og stytt í Descartes árið 1967.
Stærðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Descartes varð þekktur fyrir nýjungar sínar sem fólust í því að nota algebru við lausnir rúmfræðilegra verkefna og einnig á hinn bóginn að nota rúmfræði við lausnir algebruverkefna.[5] Þetta svið stærðfræðinnar er nú þekkt sem „analytísk“ rúmfræði eða hnitarúmfræði. Descartes skrifaði og gaf út bókina La Géométrie, en fyrstu hugmyndir hans um hnitareikning komu út sem dæmi í bókinni Orðræða um aðferð (Discourse de la méthode) 1637. Kartesískt hnitakerfi er nefnt eftir honum.
Heimspeki
[breyta | breyta frumkóða]Enda þótt heimspeki Descartes sé að einhverju leyti viðleitni til þess að losna undan áhrifum eldri spekinga fela ýmsir þættir í heimspeki hans í sér áhrif frá eldri kenningum, til dæmis aristótelisma, stóuspeki, sem naut vinsælda á ný á 16. öld, og frá kenningum Ágústínusar.[6]
Descartes var einn mikilvægasti hugsuður rökhyggjunnar á 17. öld, ásamt hugsuðunum Baruch Spinoza og Gottfried Leibniz. Hann beitti aðferðafræðilega efahyggju, sem gjarnan er kennd við Descartes en er þó er ekki réttnefnd efahyggja, heldur felst hún í því að vefengja kerfisbundið eigin hugmyndir og trú í þeim tilgangi að finna vísindalegri þekkingu traustan grunn.[7] Það eina sem hann gat ekki efast um var eigin tilvist úr því að hann efaðist. Þetta dró hann saman í þá frægu setningu: Ég hugsa, þess vegna er ég til (latína: Cogito, ergo sum). Frá þessum upphafspunkti leiddi hann út ýmsa aðra þekkingu.[8] Þetta viðhorf — að alla þekkingu skuli að reisa á traustum grunni — nefnist bjarghyggja um þekkingu.[9]
Descartes hafnaði aristótelísku greiningunni á efnislegum hlutum í efni og form sem verið hafði viðtekin í skólaspeki.[10] Einnig hafnaði hann markhyggjuskýringum á náttúrufyrirbærum.[11]
Hugspeki og sálfræði
[breyta | breyta frumkóða]Descartes gerði skýran mun á sál og líkama.[12] Samkvæmt kenningu hans um tvíhyggju sálar og líkama stjórnast öll líkamsstarfsemi af lögmálum, til dæmis berast boð um sársauka eftir taug til heilans þegar við komumst í snertingu við eld. Hins vegar taldi hann að mannssálin stjórnaðist ekki af vélrænum lögmálum heldur varð að kanna hana með sjálfsskoðun og íhugun.
Hann taldi að heilaköngullinn væri aðsetur hugans og tengdi saman samskipti milli hugar og líkama.[13] Heilaköngullinn er eina líffærið í heilanum sem er ekki tvískipt og hélt því að hann að hann væri nokkurs konar brú milli þess andlega og líkamlega.
Descartes kom einnig með nýjar uppgötvanir í líffræðilegri sálfræði, þótt hann hafi verið uppi löngu áður en sálfræði var viðurkennd fræðigrein. Hann var með þeim fyrstu til að reyna að skýra ákveðna hegðun með líffræðilegum þáttum, sbr. rannsóknir hans á taugakerfinu og viðbrögðum mannsins við sársauka.
Trú
[breyta | breyta frumkóða]Fræðimenn hafa deilt ákaft um hver trúarviðhorf Renés Descartes raunverulega voru. Hann kvaðst sjálfur vera dyggur kaþólikki og hélt því fram að eitt markmiða sinna í Hugleiðingum um frumspeki hafi verið að verja kristna trú. Descartes var aftur á móti sakaður um það á sínum tíma að aðhyllast frumgyðistrú á laun eða jafnvel guðleysi. Samtímamaður hans, Blaise Pascal, sagði „Ég get ekki fyrirgefið Descartes. Í allri sinni heimspeki reyndi hann að ýta guði til hliðar. En Descartes gat ekki komist hjá því að nota guð til þess að setja heiminn í gang með sínum guðdómlega fingrasmelli. En eftir það hafði Descartes ekki meiri not fyrir guð.“[14]
Í ævisögu Descartes eftir Stephen Gaukroger kemur fram að „hann hafði djúpstæða guðstrú sem kaþólikki og hélt henni allt til æviloka ásamt harðákveðinni og ástríðufullri þrá eftir því að uppgötva sannleikann.“[15] Að Descartes látnum í Svíþjóð afsalaði Kristín Svíadrottning sér krúnunni og snerist til kaþólskrar trúar (en samkvæmt sænskum lögum varð þjóðhöfðinginn að vera mótmælenda trúar). Descartes var eini kaþólikkinn sem hún átti verulegt samneyti við.
Rit Descartes
[breyta | breyta frumkóða]- Musicae compendium (1618)
- Regulae ad directionem ingenii (um 1628)
- (Reglur um beitingu hugans)
- Discours de la méthode pour bien conduire sa raison et chercher la vérité dans les sciences 1637
- Dioptrique (1637)
- Les Météores (1637)
- La Géométrie (1637)
- (Rúmfræðin)
- Meditationes de prima philosophia (1641)
- Principia philosophiae. 1644
- Inquisitio veritatis per lumen naturale (um 1647)
- Les Passions de l'âme (1649)
- (Hræringar sálarinnar)
- De homine (1662)
- (Um manneskjuna)
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Cottingham (2006) er greinasafn sem fjallar um nær allar hliðar heimspeki og vísindastarfs Descartes.
- ↑ Um ævi Descartes, sjá Elmar Geir Unnsteinsson, „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 15.11.2005. (Skoðað 30.7.2007), og Douglas Burnham og James Fieser, „René Descartes (1596-1650): 1. Life“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 30.7.2007).
- ↑ „René Descartes“ í Encyclopedia Britannica (1911).
- ↑ Elmar Geir Unnsteinsson, „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 15.11.2005. (Skoðað 30.7.2007).
- ↑ Elmar Geir Unnsteinsson, „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“[óvirkur tengill], Vísindavefurinn 15.11.2005. (Skoðað 30.7.2007).
- ↑ Um heimspeki Descartes, sjá Wilson (1982).
- ↑ Um þekkingarfræði Descartes, sjá Lex Newman, „Descartes' Epistemology“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (Skoðað 30.07.2007). Um hinn kerfisbundna efa sem aðferð, sjá einkum kafla 2.2 Method of Doubt.
- ↑ Um upphafsreit Descartes, sjá Lex Newman, „Descartes' Epistemology: 4. Cogito Ergo Sum“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (Skoðað 30.07.2007). Sjá einnig Peter Markie, „The Cogito and Its Importance“ hjá John Cottingham (ritstj.), Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006): 140-73.
- ↑ Sjá Lex Newman, „Descartes' Epistemology 2.1 Foundationalism“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (Skoðað 27.07.2011). Um bjarghyggju sem slíka, sjá Richard Fumerton, „Foundationalist Theories of Epistemic Justification“ (2010) (Skoðað 27. júlí 2011).
- ↑ Um Descartes og skólaspeki, sjá Roger Ariew, „Descartes and scholasticism: the intellectual background to Descartes' thought“ hjá John Cottingham (ritstj.), Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006): 58-90.
- ↑ Um náttúruspeki Descartes, sjá Edward Slowik, „Descartes' Physics“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2005) (Skoðað 30.07.2007).
- ↑ Um tvíhyggju Descartes, sjá Justin Skirry, „Descartes: The Mind-Body Distinction“, The Internet Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 30.07.2007). Sjá einnig John Cottingham, „Cartesian dualism: theology, metaphysics, and science“ hjá John Cottingham (ritstj.), Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006): 236-57.
- ↑ Sjá Gert-Jan Lokhorst, „Descartes and the Pineal Gland“, Stanford Encyclopedia of Philosophy (2006) (Skoðað 30.07.2007). Sjá einnig Gary Hatfield, „Descartes' physiology and its relation to his psychology“ hjá John Cottingham (ritstj.), Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006): 335-70.
- ↑ Think Exist on Blaise Pascal Geymt 12 nóvember 2017 í Wayback Machine. Skoðað 12. febrúar 2009.
- ↑ The Religious Affiliation of philosopher and mathematician Rene Descartes Geymt 11 september 2013 í Wayback Machine. Skoðað 5. október 2005.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Clarke, Desmond, Descartes: A Biography (Cambridge: Cambridge University Press, 2006).
- Cottingham, John (ritstj.), The Cambridge Companion to Descartes (Cambridge: Cambridge University Press, 2006).
- Frankfurt, Harry G., Demons, Dreamers, and Madmen: The Defense of Reason in Descartes's "Meditations" (Indianapolis og New York: Bobbs-Merrill Company, Inc., 1970).
- Garber, Daniel, Descartes' Metaphysical Physics (Chicago: University of Chicago Press, 1992).
- Gaukroger, Stephen, Descartes: An Intellectual Biography (Oxford: Oxford University Press, 1995).
- Grayling, A.C., Descartes: The Life and times of a Genius (New York: Walker Publishing Co., Inc, 2005).
- Sorrell, Tom, Descartes (Oxford: Oxford University Press, 1987).
- Wilson, Margaret D., Descartes (London: Routledge, 1982).
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- „Hver var René Descartes og fyrir hvað er hann þekktur?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig get ég sannfært sjálfan mig svo vel um að ég sé ekki til að ég geti sýnt öðrum fram á það?“. Vísindavefurinn.
- „Hvernig er best að hugsa röklega?“. Vísindavefurinn.
- Descartes; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1954
- Descartes; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1954
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Epistemology“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Ethics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Life and Works“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Modal Metaphysics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Ontological Argument“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes' Physics“
- Stanford Encyclopedia of Philosophy: „Descartes and the Pineal Gland“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „René Descartes: 1596-1650“
- The Internet Encyclopedia of Philosophy: „René Descartes: The Mind-Body Distinction“