Muse
Muse | |
---|---|
Upplýsingar | |
Uppruni | Teignmouth, Devon, Bretland |
Ár | 1994 – í dag |
Stefnur | Nýframsækið rokk Öðruvísi rokk Framsækið rokk |
Útgáfufyrirtæki | Warner, Helium 3, Taste, East West, Mushroom, Dangerous |
Meðlimir | Matthew Bellamy Christopher Wolstenholme Dominic Howard |
Vefsíða | muse.mu |
Muse er ensk rokkhljómsveit frá Teignmouth í Devon og var stofnuð árið 1994 undir dulnefninu Rocket Baby Dolls. Síðar ákváðu þeir að kalla sig Muse, hættu í skóla og lögðu tónlistina fyrir sig. Sveitina skipa þeir Matthew Bellamy (söngvari, gítarleikari og hljómborðsleikari), Christopher Wolstenholme (bassaleikari) og Dominic Howard (trommari og slagverksleikari). Muse blandar saman öðruvísi rokki, þungarokki, framsæknu rokki, sígildri tónlist og raftónlist og mynda þannig nýframsækið rokk. Muse er best þekkt fyrir kröftuga og ægibjarta tónleika og fyrir sérvitringslegan áhuga Matthew Bellamy á alheimssamsæri, lífi úti í geimnum, ofsóknaræði, guðfræði og heimsendi.[1] Muse hefur gefið út fimm breiðskífur og var sú fyrsta nefnd Showbiz og kom út 1999, en sú síðasta The Resistance (2009). Black Holes & Revelations sem kom út 2006 hlaut Mercury Prize-tilnefningu og lenti í þriðja sæti hjá NME á „lista yfir plötur ársins 2006“.[2]
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Stofnun sveitarinnar (1992 – 1997)
[breyta | breyta frumkóða]Meðlimir Muse voru hver í sinni hljómsveit þegar þeir gengu í framhaldsskólanum Teignmouth Community College snemma á 10. áratug 20. aldar. Samstarf þeirra fór að taka á sig mynd þegar Matthew Bellamy, þá 14 ára gamall, þreytti áheyrnarpróf sem gítarleikari fyrir hljómsveit Dominics Howards. Þeir báðu Chris Wolstenholme, sem þá spilaði á trommur, að læra að leika á bassa og ganga til liðs við þá.
Árið 1994 sigraði hljómsveitin í tónlistarkeppni. Þá gengu þeir undir nafninu Rocket Baby Dolls og voru með gotnesku yfirbragði. Þeir voru „eina alvöru rokkhljómsveitin“ sem tók þátt í keppninni og mölvuðu hljóðfærin sín á sviðinu.[3] „Þetta áttu að vera mótmæli, yfirlýsing“, sagði Bellamy, „svo, þegar við unnum í raun, var það áfall. Rosalegt áfall. Eftir þetta fórum við að taka okkur alvarlega.“[4] Stuttu eftir keppnina ákváðu þeir að fara ekki í háskóla, hættu í vinnu, breytu nafni hljómsveitarinnar í Muse og fluttu frá Teignmouth.
Fyrstu stuttskífurnar og Showbiz (1998 – 2000)
[breyta | breyta frumkóða]Eftir að hafa byggt upp aðdáendahóp á nokkrum árum, hélt hljómsveitin fyrstu tónleika sína í London og Manchester. Þeir áttu góðan fund með Dennis Smith eiganda hljóðversins Sawmills, sem var innréttuð, gömul vatnsmylla í Cornwall.
Samstarf Muse við Sawmills leiddi til fyrstu stuttskífu þeirra, sem var einfaldlega kölluð Muse, en hún var gefin út undir merkjum Dangerous sem tilheyrði Sawmills og sá Dominic Howard um hönnun plötuhulstursins. Önnur stuttskífa þeirra, Muscle Museum, vakti athygli breska tónlistarskríbentsins Steve Lamacq og breska tónlistartímaritsins NME. Á sama tíma stofnaði Dennis Smith ásamt Safta Jaffery plötufyrirtækið Taste Media og var það sérstaklega gert fyrir Muse (sveitin var á mála hjá þeim við gerð fyrstu þriggja diska sinna).
Þrátt fyrir að önnur stuttskífa þeirra hafi aflað þeim minni háttar hylli, voru bresk plötufyrirtæki treg til að styðja þá fjárhagslega og vildu margir meina að þeir hljómuðu, eins og svo margir samtímamenn þeirra, of mikið eins og Radiohead. Hins vegar voru bandarísk plötufyrirtæki áköf í að semja við þá og buðu þeim flug í fyrsta farrými til Bandaríkjanna í áheyrnarprufur. Þeir komust á samning hjá Maverick Records þann 24. desember 1998. Fyrir heimkomu þeirra til Englands stóð Taste Media að samningum við hin og þessi upptökufyrirtæki í Evrópu og Ástralíu og veitti það þeim frelsi til að stjórna ferli sínum þar.
John Leckie, sem hafði framleitt plötur fyrir The Stone Roses, „Weird Al“ Yankovic og The Verve auk hinnar áhrifaríku plötu The Bends fyrir Radiohead, var fenginn til að framleiða fyrstu plötu sveitarinnar, Showbiz. Platan opinberaði harðan rokkstíl sveitarinnar og textarnir fjölluðu til dæmis um hversu erfitt hafði verið að koma sér á framfæri í bænum Teignmouth.[3]
Eftir útgáfu Showbiz fór Muse í tónleikaferðalag með Savage Garden um Bandaríkin. Árin 1999 og 2000 spiluðu þeir á stórhátíðum í Evrópu og á tónleikum í Ástralíu og á sama tíma eignuðust þeir stóran aðdáendahóp í Vestur-Evrópu, sérstaklega í Frakklandi.[3]
Origin of Symmetry og Hullabaloo (2001 – 2002)
[breyta | breyta frumkóða]Við gerð annarrar plötu sveitarinnar, Origin of Symmetry, gerði sveitin ýmsar tilraunir með óvenjulegum hljóðfæraútsetningum á borð við kirkjuorgel, mellotron og stærra trommusett. Það var meira um hátónaðan söng hjá Bellamy, brotna gítarhljóma og auðkennandi píanóspil. Bellamy hefur nefnt að gítarleikurinn hafi verið undir sterkum áhrifum Jimi Hendrix og Tom Morello (úr Rage Against the Machine og Audioslave), en áhrif þess síðarnefnda koma sérstaklega í ljós í stefbyggðum lögum á Origin of Symmetry, og þar sem Bellamy notar „pitch-shift“-hljóðbreyta í gítareinleik. Á plötunni er líka sérstök endurgerð af laginu „Feeling Good“, sem var samið af Anthony Newley og Leslie Bricusse. Muse fór í mál við Neskaffi árið 2003 fyrir að nota þeirra útgáfu af „Feeling Good“ í sjónvarpsauglýsingu án leyfis og gáfu Oxfam þau 500,000 pund sem þeir fengu í skaðabætur.
Céline Dion var einnig hótað lögsókn árið 2002 þegar hún hugðist kalla sýningu sem hún stóð fyrir í Las Vegas „Muse“, þrátt fyrir að Muse hefði einkarétt á nafninu á heimsvísu. Céline Dion bauð þeim 50,000 dali til að nota nafnið en þeir höfnuðu því og Bellamy sagði „Við viljum ekki fara þangað og fólk heldur að við séum stuðningssveit Céline Dion“. Á endanum neyddist Céline Dion til að hætta við.
Muse hefur verið líkt við hljómsveitina Queen, þó það sé að nokkru leyti vegna þess hversu svipaðar hljómsveitirnar eru á sviði, og stíll Bellamy minnir á Brian May úr Queen.
Platan hefði getað náð miklum vinsældum í Bandaríkjunum, en Maverick útgáfan var ósammála Muse um hvernig söngurinn ætti að vera. Hún vildi hafa hann tónlægri til að hann „hljómaði betur í útvarpi“, svo hún bað þá um að breyta honum áður en þeir gæfu plötuna út í Bandaríkjunum. Við þetta ákvað sveitin að skilja við Maverick og varð það til þess að platan var ekki gefin út í Bandaríkjunum fyrr en 20. september 2005.
Eftir að Muse hafði getið sér gott orð sem tónleikasveit var ákveðið að gefa út tónleikamynddisk og geisladisk. Mynddiskurinn, Hullabaloo, var tekinn upp á velheppnuðum tónleikum á Le Zenith í París, þar sem þeir spiluðu tvö kvöld í röð. Samtímis var tvöfaldur geisladiskur gefinn út, Hullabaloo Soundtrack, en á honum voru upptökur af lögum og eitthvað af tónleikunum á Le Zenith. Þá voru lögin „In Your World“ og „Dead Star“ gefin út á smáskífu. Lagið „Shrinking Universe“ frá Hullabaloo Soundtrack var eitt af aðallögum kvikmyndarinnar 28 Weeks Later sem gefin var út 2007.
Í febrúar 2006 setti Q Magazine plötuna Origin of Symmetry í 74. sæti af 100 bestu plötum frá upphafi samkvæmt skoðanakönnun meðal aðdáenda blaðsins.
Absolution (2003 – 2005)
[breyta | breyta frumkóða]Árið 2003 var platan Absolution gefin út en hún var framleidd af Rich Costey sem hafði unnið með Rage Against the Machine. Platan var framhald af tilraunastarfsemi sveitarinnar líkt og Origin of Symmetry og skartaði einnig hinu vinsæla lagi „Time Is Running Out“.
Sveitin hefur sagt að þemað, sem sé gegnumgangandi á plötunni, snúist um heimsendi og hvernig brugðist er við honum. Þrátt fyrir þetta segir Muse plötuna vera „upplífgandi“, með jákvæðum skilaboðum í lögum eins og „Blackout“ og „Butterflies And Hurricanes“. Ástæðan er áhugi Bellamy á samsæriskenningum, guðfræði, tækni og hinu yfirnáttúrulega. Til dæmis er lagið „Ruled By Secrecy“ nefnt eftir bók eftir Jim Marrs, Rule by Secrecy, sem fjallar um leyndardóma á bak við stjórnun stórvelda. Margir textanna á plötunni hafa stjórmálalegar tilvísanir.
Með þessari plötu náði Muse loksins miklum árangri á Bretlandi og með nýjan bandarískan plötusamning upp á vasann fór Muse í fyrsta skipti í alþjóðlega tónleikaferð og héldu tónleika á íþróttavöllum. Á ferðalaginu fóru þeir um Ástralíu, Nýja Sjáland, Bandaríkin, Kanada og Frakkland. Á meðan á ferðinni stóð tókst þeim að gefa út lögin Time Is Running Out, Hysteria, Sing for Absolution, Stockholm Syndrome og Butterflies and Hurricanes.
Sveitin spilaði á Glastonbury-hátíðinni í júní 2004. Þar lýsti Bellamy tónleikunum sem „bestu tónleikar lífs okkar“. „Þetta var besta tilfinning um afrek sem að við höfðum fundið á ævi okkar eftir að koma af sviði.“ sagði Bellamy. Skömmu eftir tónleikana lést faðir Dominic Howard, trommuleikara, af völdum hjartaáfalls en hann hafði verið á tónleikunum. „Það var næstum óraunverulegt að aðeins klukkutíma síðar var faðir hans dáinn. Það var varla hægt að trúa því. Næstu vikuna vorum við að reyna að styðja við Dom. Ég held að hann hafi verið glaður yfir því að faðir hans gat séð hann á þeirri stund sem var örugglega sú besta á ferli sveitarinnar.“
Muse hélt áfram tónleikaferðalagi sínu. Síðustu tónleikarnir voru í Bandaríkjunum en aukatónleikar voru haldnir vegna mikillar eftirspurnar á Earls Court í London. Í lok ársins gaf Vitamin Records út The String Quartet Tribute to Muse eftir The Tallywood Strings, plötu með órafmagnaðri útgáfu af sumum laga Muse.
Sveitin lauk ferðalaginu í janúar 2005 en sneri aftur til Bandaríkjanna í apríl og maí það ár. Þann 2. júlí 2005 tók Muse þátt í Live 8 í París þar sem þeir spiluðu „Plug In Baby“, „Bliss“, „Time Is Running Out“ og „Hysteria“.
Í apríl 2005 var ævisaga sveitarinnar gefin út á mynddiski sem nefnist Manic Depression. Hljómsveitin tók ekki þátt í verkefninu og studdi ekki þessa útgáfu. Annar mynddiskur, Absolution Tour, var gefinn út 12. desember, 2005 og innihélt hann endurklippt efni frá Glastonbury-hátíðinni 2004 ásamt áður óséðu efni frá Earls Court í London, Wembley Arena og Wiltern Theatre í Los Angeles. Tvö lög voru falin á diskinum, „Endlessly“ og „Thoughts Of A Dying Atheist“, en þau voru mynduð á Wembley Arena. Eina lagið af plötunni Absolution sem var ekki á mynddiskinum var lagið „Falling Away With You“, en það hefur aldrei verið spilað á tónleikum. Absolution varð á endanum gullplata í Bandaríkjunum.
Black Holes & Revelations og HAARP (2006 – 2008)
[breyta | breyta frumkóða]Sveitin sneri aftur í hljóðver í ágúst 2005, þó að upptökur hæfust ekki af alvöru fyrr en í september. Platan var tekin upp fram á vor 2006 með nokkrum hléum vegna fría. Sveitin tilkynnti um nýju plötuna í maí 2006. Platan, sem var framleidd af Rich Costey eins og Absolution, hét Black Holes & Revelations. Stuttu fyrir útgáfu plötunnar var henni lekið á veraldarvefinn. Platan var gefin út í Japan 28. júní 2006 með aukalaginu „Glorious“ sem er ekki á plötum annars staðar í heiminum en lagið var hægt að fá pantað frá iTunes. Platan var gefin út í Evrópu 3. júlí 2006 og í Norður-Ameríku 11. júlí 2006. Hún lenti í 1. sæti á vinsældalistunum á Bretlandi, mestum hluta Evrópu, Ástralíu og náði miklum vinsældum í Bandaríkjunum þar sem hún lenti í 9. sæti á Billboard 200 plötulistanum. Black Holes & Revelations seldist í meira en einni milljón eintaka.
Titill plötunnar og þemu laganna stafa af áhuga sveitarinnar á geimnum, sérstaklega Mars og Cydoniu. Myndirnar á plötunni voru hannaðar af Storm Thorgerson og sýna landslag reikistjörnunnar Mars með fjórum mönnum við borð og fjóra smáhesta ofan á því – líklegast eru þar á ferð Fjórmenningarnir sem hafa vaxið meira en hestar þeirra.
Tónlistarþemað á disknum er að miklu leyti nokkurs konar rokk-diskó. Enn og aftur fjalla textarnir um stjórnmál og spillingu en sjónarhornið er ekki jafn svartsýnt og áður.
Fyrsta lag plötunnar var selt eitt og sér á veraldarvefnum. Það var „Supermassive Black Hole“ frá og með 9. maí 2006. Laginu fylgdi tónlistarmyndband sem leikstýrt var af Floria Sigismondi. Lagið fékk misjafnar móttökur þar sem það vék frá tónlistarstíl sveitarinnar. Það var síðan gefið út á smáskífu með laginu „Crying Shame“. Önnur smáskífa sveitarinnar af diskinum innihélt lagið „Starlight“, gefið út þann 4. september 2006. „Knights of Cydonia“ var gefið út sem útvarpssmáskífa í Bandaríkjunum þann 13. júní 2006 og sem smáskífa í Bretlandi 27. nóvember sama ár og náði inn á Topp 10 listann. Myndbandið við lagið var tekið upp í Rúmeníu og er undir áhrifum frá spagettí vestrum. Fjórða lagið af plötunni, sem gefið var út á smáskífu, var „Invincible“, sem kom út 9. apríl 2007. Önnur smáskífa, „Map of the Problematique“, kom í kjölfar Wembley Stadium tónleikanna og var hún aðeins seld á veraldarvefnum sem niðurhal þann 18. júlí 2007.[5]
Muse byrjaði aftur á tónleikaferðalagi 13. maí 2006. Þeir komu fyrst fram á „One Big Weekend“ sem BBC Radio 1 stóð fyrir og þar á eftir nokkrum sinnum í sjónvarpi. Aðalferðalagið byrjaði rétt fyrir útgáfu plötunnar. Þar spiluðu þeir mest á hátíðum, meðal annars í Reading og Leeds. Í lok júlí spiluðu þeir í Norður-Ameríku og lauk ferðinni í september 2006. Þá tók við tónleikaferðalag í Evrópu þar sem mikið var spilað á innanhússíþróttavöllum í Bretlandi. Breska hljómsveitin Noisettes studdi þá á ferðalaginu í nóvember og mestan hluta desember 2006. Ferðalagið hélt svo áfram í Ástralíu og Suðaustur-Asíu.
Í lok ársins 2006 tilkynnti Muse að þeir myndu spila á hinum nýbyggða Wembley-leikvangi fyrir alls 90.000 manns þann 16. júní 2007.[5]
Von bráðar seldist upp á Wembley-tónleikana og var þá öðrum bætt við 17. júní. Sem upphitunarsveitir spiluðu The Streets, Rodrigo y Gabriela og Dirty Pretty Things þann 16. júní og My Chemical Romance, Biffy Clyro og Shy Child þann 17. júní. Báðir tónleikarnir voru myndaðir fyrir tónleikamynddisk sem kom út um páskana 2008 og hlaut nafnið HAARP.
Muse neyddist til að aflýsa nokkrum tónleikum með My Chemical Romance í maí, þar sem nokkrir starfsmenn og meðlimir My Chemical Romance fengu matareitrun.[6]
Tímaritið Q Magazine setti Muse í níunda sæti yfir „10 mest spennandi sveitir á Jörðu í dag“ í 252. tölublaðinu sínu.
The Resistance (2009 - 2011)
[breyta | breyta frumkóða]Fimmta breiðskífa hljómsveitarinnar, The Resistance, var gefin út 14. september 2009. Platan seldist vel og var hún þriðja plata hljómsveitarinnar til að ná efst á metsölulista í Bretlandi.
The 2nd Law (2011 - 14)
[breyta | breyta frumkóða]Hljómsveitin hóf upptökur á sinni sjöttu breiðskífu í september 2011. Platan nefnist The 2nd Law og kom út 1. október 2012.
Drones (2014 - 2016)
[breyta | breyta frumkóða]Sjöunda breiðskífa hljómsveitarinnar, Drones, var gefin út 8.Júní 2015.
Simulation Theory og Origin of Muse (2017 – nú)
[breyta | breyta frumkóða]Áttunda breiðskífa hljómsveitarinnar, Simulation Theory, var gefin út 9 November 2018.
Hljómsveitarmeðlimir
[breyta | breyta frumkóða]Núverandi meðlimir
[breyta | breyta frumkóða]- Matthew Bellamy – söngur, gítar, píanó, hljómborð, hljóðgervlar, kirkjuorgel
- Christopher Wolstenholme – bassagítar, bakraddir, gítar, hljómborð, hljóðgervlar
- Dominic Howard – trommur, slagverkshljóðfæri, hljóðgervlar, stöku sinnum bakraddir
Tónleikameðlimir
[breyta | breyta frumkóða]- Morgan Nicholls – hljómborð, hljóðgervlar, bakraddir, bassagítar, úkúlele (2004, 2006 - í dag)
- Nicholls spilaði á bassagítar á V Festival árið 2004, eftir að Wolstenholme úlnliðsbraut sig í knattspyrnu við Didz Hammond úr The Cooper Temple Clause.
Hann hefur haldið áfram að spila „Hoodoo“ á bassan síðan 2006 tónleikaferðinni.
- Dan „trompetmaðurinn“ Newell – trompet (2006 - í dag)
- Newell spilar bara á trompet í tveimur lögum; „Knights of Cydonia“ og „City of Delusion“.
Plötur
[breyta | breyta frumkóða]- Showbiz (1999)
- Origin of Symmetry (2001)
- Absolution (2003)
- Black Holes & Revelations (2006)
- The Resistance (2009)
- The 2nd Law (2012)
- Drones (2015)
- Simulation Theory (2018)
- Will of the People (2022)
Verðlaun
[breyta | breyta frumkóða]Ár | Verðlaun | Flokkur | Svæði | Athugasemdir |
---|---|---|---|---|
2000
|
NME Awards | Bestu nýju listamennirnir | Bretland | |
2001
|
Kerrang! Awards | Besta breska hljómsveitin | Bretland | |
2003
|
Kerrang! Awards | Besta breska hljómsveitin | Bretland | |
2004
|
Q Awards | Hugmyndaverðlaun | Bretland | |
Kerrang! Awards | Besta hljómplatan | Bretland | Fyrir Absolution | |
Q Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | ||
MTV EMA | Besta öðruvísi hljómsveitin | Ítalía | ||
MTV EMA | Besta tónleikaframmistaðan í Bretlandi & Írlandi | Ítalía | ||
2005
|
BRIT Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | |
NME Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | ||
mtvU Woodie Awards | Besta alþjóðahljómsveitin | Bandaríkin | ||
2006
|
Q Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | |
MTV EMA | Besta öðruvísi hljómsveitin | Danmörk | ||
Kerrang! Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | ||
BT Digital Music Awards | Besta rokkframmistaðan | Bretland | ||
UK Festival Awards | Bestu rokktónlistamennirnir | Bretland | Fyrir Reading og Leeds Festivals 2006 | |
UK Festival Awards | Besta aðalframmistaðan | Bretland | Fyrir Reading og Leeds Festivals 2006 | |
Vodafone Live Music Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | ||
2007
|
BRIT Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | |
NME Awards | Besta breska hljómsveitin | Bretland | ||
BT Digital Music Awards | Bestu rokktónlistamennirnir | Bretland | ||
Vodafone Live Music Awards | Tónleikaferðalag ársins | Bretland | ||
Q Awards | Besta tónleikaframmistaða | Bretland | ||
MTV EMA | Aðalhljómsveit | Þýskaland | ||
MTV EMA | Besta tónleikaframmistaðan í Bretlandi & Írlandi | Þýskaland | ||
mtvU Woodie Awards | Besta frammistaðan | Bandaríkin | ||
2008
|
Meteor Music Awards | Besta alþjóðlega tónleikaframmistaða | Írland | Fyrir Oxegen 2007 |
NME Awards | Besta tónleikahljómsveitin | Bretland | ||
MTV Asia Awards | Bring Da House Down | Malasía | Fyrir Muse Asia Tour 2007 | |
2009
|
NME Awards | Besta tónleikahljómsveitin | Bretland | |
NME Awards | Besta plötuskreytingin | Bretland | Fyrir HAARP |
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Muse play supermassive free show á NME.COM
- ↑ NME Albums Of The Year 2006 á NME
- ↑ 3,0 3,1 3,2 Ævisaga Muse á MicroCuts.net Geymt 27 nóvember 2015 í Wayback Machine
- ↑ Ævisaga sveitarinnar á TasteMedia
- ↑ 5,0 5,1 Grein um Muse og Wembley-leikvanginn á WembleyStadium.com Geymt 22 ágúst 2007 í Wayback Machine
- ↑ Grein um matareitrun starfsmanna og My Chemical Romance á StrangeGlue.com Geymt 18 ágúst 2007 í Wayback Machine
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Muse (band)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. ágúst 2007.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Muse.mu Geymt 28 apríl 2007 í Wayback Machine - Opinber vefsíða
- Muse á Open Directory Project
- Muse á Last.fm (Enska)
- Muse plötulisti á MusicBrainz
- Muse á MySpace
- MuseWiki