Fara í innihald

Kim Jong-un

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Kim Jong-un
김정은
Kim Jong-un árið 2018.
Æðsti leiðtogi Norður-Kóreu
Núverandi
Tók við embætti
17. desember 2011
ForveriKim Jong-il
Persónulegar upplýsingar
Fæddur8. janúar 1984 (1984-01-08) (41 árs)
Pjongjang, Norður-Kóreu
StjórnmálaflokkurVerkamannaflokkur Kóreu
MakiRi Sol-ju (g. 2009)
Börn3 (óstaðfest), þar með talin dótturin Kim Ju-ae sem er mögulegur erfingi (systir Kim Jong-un, Kim Yo-jong, hefur líka nefnd sem mögulegur eftirmaður)
ForeldrarKim Jong-il og Ko Yong-hui
HáskóliKim Il-sung-háskólinn
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

Kim Jong-un (f. 8. janúar 1984) er æðsti leiðtogi og einræðisherra Norður-Kóreu. Hann er sonur forvera síns, Kims Jong-il, og sonarsonur stofnanda Norður-Kóreu, Kims Il-sung. Kim Jong-un tók við sem leiðtogi Norður-Kóreu eftir dauða föður síns árið 2011. Kim Jong-un er fyrsti leiðtogi Norður-Kóreu sem er fæddur eftir stofnun ríkisins árið 1945.

Kim Jong-un gekk á árunum 1998 til 2000 í skóla í Köniz í Sviss ásamt systur sinni, Kim Yo-jong. Hann gekk þar undir nafninu „Pak-un“ og kvaðst vera sonur starfsmanna norður-kóreska sendiráðsins í Bern. Samkvæmt bekkjarfélögum hans var „Pak-un“ hlédrægur en viðkunnanlegur drengur sem talaði sjaldan um heimaland sitt.

Þegar Kim Jong-un fæddist var ekki útrætt að hann myndi taka við af föður sínum sem einræðisherra. Lengst af hafði elsti hálfbróðir Kims, Kim Jong-nam, verið álitinn sennilegasti arftaki föður þeirra sem leiðtogi Norður-Kóreu. Kim Jong-nam var hins vegar útskúfað árið 2001 eftir að hann var gómaður við að reyna að komast til Japan með fölsuðu vegabréfi, þar sem hann hugðist heimsækja Disneyland í Tókýó. Kim Jong-un fór í kjölfarið að birtast æ oftar með Kim Jong-il á opinberum viðburðum og var orðinn traustur í sessi sem arftaki við byrjun annars áratugs 21. aldar.

Kim Jong-il lést þann 17. desember árið 2011 og Kim Jong-un tók við formennsku kóreska Verkamannaflokksins ásamt öðrum embættum föður síns. Í upphafi leyfðu margir sér að vona að Kim Jong-un myndi vera umbótamaður og frjálslyndisvæða stjórn ríkisins. Þessar vonir rættust ekki og Kim Jong-un hefur viðhaldið svipuðum stjórnarháttum og tíðkuðust á valdatíðum föður síns og afa. Snemma á valdatíð sinni lét Kim taka af lífi fjölda herforingja og annarra embættismanna sem talið var að gætu ógnað stöðu hans. Mikla athygli vakti árið 2013 þegar Kim lét handtaka frænda sinn, Jang Song-thaek, sem hafði verið náinn samstarfsmaður föður hans. Jang Song-thaek var sakaður um svikráð gegn Norður-Kóreu og síðan tekinn af lífi.[1] Talið er að ættingjar Jangs, þar á meðal systir hans, tengdabróðir, systursonur og synir systursonarins, hafi einnig verið teknir af lífi í hreinsuninni.

Í byrjun ársins 2017 var Kim Jong-nam, hálfbróðir Kims, myrtur með taugaeitri á flugvelli í Malasíu.[2] Talið er að norður-kóresk stjórnvöld hafi fyrirskipað morðið.

Á valdatíð Kims hafa Norður-Kóreumenn haldið áfram að þróa kjarnorkuvopn.[3][4] Lengst af hefur orðræða Norður-Kóreumanna í stjórnartíð Kims Jong-un verið mjög herská, sér í lagi í garð Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Spennan náði hámarki árið 2017 og Norður-Kóreumenn hótuðu meðal annars að gera kjarnorkuárás á Gvam.[5]

Kim mildaði orðræðu sína umtalsvert í byrjun ársins 2018 og rétti fram sáttahönd. Þann 27. apríl 2018 átti Kim fund með Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og sammældist um það að reyna að binda formlegan enda á Kóreustríðið og stefna að afkjarnavopnun Kóreuskaga.[6] Kim átti síðan fund með Donald Trump Bandaríkjaforseta í Singapúr þann 12. júní sama ár og var þetta í fyrsta skipti sem leiðtogar ríkjanna áttu formlegan leiðtogafund.[7] Á fundinum undirritaði Kim yfirlýsingu sem skuldbatt Norður-Kóreu til að vinna að „friði og farsæld“ með Bandaríkjamönnum og til að vinna að algerri afkjarnavopnun.[8]

Þrátt fyrir fyrirheitin um afvopnun hafa Norður-Kóreumenn haldið áfram að þróa kjarnavopn eftir fundinn.[9] Kim og Trump áttu annan fund í Hanoi á dögunum 27. – 28. febrúar árið 2019 en enginn frekari árangur í átt að afkjarnavopnun náðist á þeim fundi og því var fundinum slitið án samnings. Að sögn Trumps kröfðust Norður-Kóreumenn afléttingu allra viðskiptaþvingana gegn ríkinu í skiptum fyrir skref í átt að afkjarnavopnun en Trump sagðist ekki geta gengið að slíkum kröfum.[10] Norður-Kóreumenn sögðu Trump síðar hafa misskilið kröfur þeirra og að þeir hefðu í raun aðeins beðið um afléttingu sumra viðskiptaþvinganana.[11]

Kim og Trump funduðu í þriðja sinn í lok júní árið 2019. Þetta var í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna fór inn í Norður-Kóreu.[12][13] Þrátt fyrir vinsamleg samskipti leiðtoganna hafa Norður-Kóreumenn haldið áfram að gera tilraunir með eldflaugar og kjarnavopn eftir fundina.[14] Trump hefur þó heitið Kim áframhaldandi stuðningi þótt möguleiki sé á að hann hafi brotið gegn banni Sam­einuðu þjóðanna við til­raun­um með kjarn­orku­eld­flaug­ar.[15]

Í desember 2019 lýstu norður-kóresk stjórnvöld því yfir að kjarnorkuafvopnun væri ekki lengur á samningaborðinu og að ekki væri þörf á frekari löngum viðræðum við Bandaríkjamenn.[16] Í nýársávarpi sínu í byrjun ársins 2020 tilkynnti Kim svo að Norður-Kóreumenn hygðust hætta að standa við orð sín um að stöðva próf­un kjarna­vopna og lang­drægra flug­skeyta.[17]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Frænd­inn tek­inn af lífi“. mbl.is. 12. desember 2013. Sótt 29. nóvember 2018.
  2. „Kim Jong Nam myrtur með gereyðingarvopni“. Vísir. 24. febrúar 2017. Sótt 29. nóvember 2018.
  3. „Norður-Kórea og stórveldin tvö“. Kjarninn. 26. mars 2017. Sótt 29. nóvember 2018.
  4. „Nota ekki kjarnavopn að fyrra bragði“. Viðskiptablaðið. 8. maí 2016. Sótt 29. nóvember 2018.
  5. „Norður-Kóreumenn tilbúnir í eldflaugaárás á Gvam von bráðar“. Vísir. 10. ágúst 2017. Sótt 29. nóvember 2018.
  6. „Kim Yong-un býður Moon Jae-in heim“. 10. febrúar 2018. Sótt 27. apríl 2018.
  7. „Sögulegur fundur Kim Jong Un og Trump“. 12. júní 2018. Sótt 29. nóvember 2018.
  8. „Um hvað sömdu Trump og Kim?“. Hringbraut. 12. júní 2018. Sótt 29. nóvember 2018.
  9. „Norður-Kórea heldur áfram að þróa kjarnavopn“. RÚV. 4. ágúst 2018. Sótt 29. nóvember 2018.
  10. Stefán Ó. Jónsson (28. febrúar 2019). „Gat ekki gengið að kröfum Kim“. Vísir. Sótt 1. mars 2019.
  11. Stefán Ó. Jónsson (1. mars 2019). „Trump hafi misskilið kröfur Norður-Kóreu“. Vísir. Sótt 1. mars 2019.
  12. Lovísa Arnardóttir (30. júní 2019). „Trump og Kim hittust í þriðja sinn: „Frábær dagur". Fréttablaðið. Sótt 9. ágúst 2019.
  13. „Trump og Kim hitt­ast“. mbl.is. 30. júní 2019. Sótt 9. ágúst 2019.
  14. „Skutu fjölda eld­flauga á loft“. mbl.is. 30. júlí 2019. Sótt 9. ágúst 2019.
  15. „Trump styður Kim áfram“. mbl.is. 2. ágúst 2019. Sótt 9. ágúst 2019.
  16. „Kjarn­orku­af­vopn­un ekki á dag­skrá“. mbl.is. 8. desember 2019. Sótt 10. janúar 2020.
  17. „Kim Jong-un her­skár á ný­árs­dag“. mbl.is. 31. desember 2019. Sótt 10. janúar 2020.


Fyrirrennari:
Kim Jong-il
Æðsti leiðtogi Norður-Kóreu
(17. desember 2011 –)
Eftirmaður:
Enn í embætti


  Þetta æviágrip sem tengist stjórnmálum er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.