Jón Vilhjálmsson Craxton
Jón Vilhjálmsson Craxton (d. um 1440) var biskup á Hólum 1425 – 1435 og biskup í Skálholti 1435 - 1437.
Jón Vilhjálmsson mun hafa verið enskur munkur, en Björn Þorsteinsson sagnfræðingur telur að hann hafi verið af norskum ættum og haft vald á norrænni tungu. Marteinn 5. páfi skipaði hann Hólabiskup 1425, og var hann vígður 1426 í kirkjunni Santa Maria sopra Minerva í Róm. Veitingargjaldið fyrir biskupsembættið var 240 flórínur, en auk þess þurfti biskup að inna af hendi árlegar greiðslur. Sjá páfabiskupar.
Jón biskup kom til Íslands 1427, tók land í Hafnarfirði og reið með enskum fylgdarmönnum sínum til alþingis þar sem hann lagði fram embættisbréf sín. Norðlendingar tóku honum ekki vel og fór hann ekki norður að Hólum. Hann kom í Skálholt, þar sem var biskupslaust, vígði þar fjóra presta og nokkra djákna og sigldi aftur til Englands samsumars. Jón biskup kom aftur frá Englandi 1429, tók við Hólastól og söng biskupsmessu í ágúst.
Árið 1431 kom enskt skip, Bartholomeus, í Skagafjörð, fóru skipverjar með ránum um sveitir þar til bændur risu upp og börðust við Englendinga við Mannskaðahól á Höfðaströnd. Féllu margir af Englendingum en hinir flýðu til Hóla á náðir biskups. Tók Jón biskup við þeim með þeim skilmálum að þeir gæfu Hóladómkirkju helminginn í skipi sínu og seldu biskupi hinn helminginn. Komust þeir úr landi undir vernd biskups, enda gætti hann hagsmuna Englendinga hér (sjá Enska öldin).
Björn Þorsteinsson segir að Jón Vilhjálmsson hafi verið mikill embættismaður, lærður kirkjuhöfðingi og vel að sér í lögum. Hann lenti brátt í átökum við helstu klerka nyrðra, meðal þeirra voru Jón Pálsson Maríuskáld á Grenjaðarstað og Þorkell Guðbjartsson í Laufási og Múla í Aðaldal. Bannsöng biskup Jón Pálsson og tók af honum staðinn. Um 1432 tókst Jóni biskupi að lægja þessar deilur og koma á sæmilegri reglu, m.a. með stuðningi Lofts ríka Guttormssonar á Möðruvöllum. Hann mun hafa efnt til kórsbræðrasamkundu á Hólum, sem var með í ráðum við stjórn biskupsdæmisins. Jón biskup er talinn hafa stýrt Hólabiskupsdæmi höfðinglega. Hann hvarf af landi brott 1433 eða 1434.
Hinn 5. janúar 1435 er Jón Vilhjálmsson staddur í Flórens og veitir Eugenius 4. páfi honum þar lausn frá biskupsstörfum á Hólum, og lætur hann fá Skálholt í staðinn, þar sem verið hafði biskupslaust. Jón mun hafa talist biskup þar í tvö ár, en kom þó ekki til Íslands. Hann kom til Englands vorið 1436 og lenti þar í fjárkröggum. Í desember 1436 er hann í Lundúnum og ganga þá tveir menn í ábyrgð fyrir skuldum hans. Hafði hann fengið leyfi konungsins, Hinriks VI, til þess að senda skip til Íslands að sækja varning til lúkningar skuldum sínum. Árið 1437 var annar maður skipaður Skálholtsbiskup að frumkvæði dansk-norsku stjórnarinnar, Gozewijn Comhaer. Voru þá úti draumar Jóns Vilhjálmssonar um að taka við því embætti. Dvaldist hann við þverrandi hag á Englandi og er talið að hann hafi andast þar um 1440.
Í Þjóðskjalasafni Íslands er varðveitt bréfabók Jóns biskups Vilhjálmssonar, og er hún elsta bréfabók íslensk sem til er. Hún er í frumriti á skinni og er gagnmerk sagnfræðileg heimild. Bókin er að mestu með rithönd Jóns Egilssonar, sem var ritari Jóns biskups.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Björn Þorsteinsson: Enska öldin í sögu Íslendinga.
- Jón Helgason biskup: Kristnisaga Íslands I, 223-226.
- Sigurður Líndal (ritstj.): Saga Íslands V.
Fyrirrennari: Jón Tófason |
|
Eftirmaður: Jón Bloxwich | |||
Fyrirrennari: Jón Gerreksson |
|
Eftirmaður: Gozewijn Comhaer |