Fara í innihald

Marcellus (d. 1460)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Marcellus de Niveriis (d. 1460) var þýskur Fransiskusarmunkur og ævintýramaður sem var skipaður Skálholtsbiskup 15. apríl 1448 og hafði þann titil til dauðadags þótt aldrei kæmi hann til Íslands.

Falsbréfasali og strokufangi

[breyta | breyta frumkóða]

Ekkert er vitað um ætt og uppruna Marcellusar nema hvað hann er talinn fæddur í þorpinu Nivern an der Lahn, ekki langt frá Koblenz. Hann virðist hafa verið mjög vel menntaður en fyrst er vitað um hann þegar hann var handtekinn fyrir sölu falsaðra aflátsbréfa í Lübeck árið 1426 og flúði úr fangelsi þar. Næst fréttist af honum í þjónustu Henry Beauforts kardínála, sem var erindreki Marteins V. páfa í Þýskalandi. Þegar kom upp úr dúrnum að Marcellus var strokufangi var hann aftur settur í fangelsi í Köln, strauk en náðist aftur og var þá meðal annars leiddur allsnakinn um stræti og hæddur og jafnvel hengdur táknrænni hengingu. Í ágúst 1428 var hann dæmdur í ævilangt fangelsi.

Hann var hafður í haldi í turni erkibiskupssetursins í Brühl suður af Köln við illan aðbúnað. Þaðan skrifaði hann yfirmönnum kirkjunnar bænarbréf sem varðveist hafa og urðu þau til þess að honum var sleppt úr haldi og fékk uppreisn æru, að sögn eftir að hafa læknað erkibiskupinn af hættulegum sjúkleika. Hann fékk svo prestsembætti í Neuss árið 1431. Hann sat þó ekki á friðarstóli þar og árið 1439 var hann bannfærður en virðist þó hafa setið sem fastast til 1442 og virðist hafa notið mikilla vinsælda sóknarbarna sinna. Hann settist þá að í Köln og bjó þar um tíma.

Skálholtsbiskup og erkibiskupsefni

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1447 varð Nikulás V. páfi og Marcellus flýtti sér til Rómar, kom sér í mjúkinn hjá honum og fékk hann til að skipa sig biskup í Skálholti. Hann virðist hafa dvalist lengi í Róm og komist þar í kynni við marga mektarmenn. Hann hélt svo til Danmerkur, þar sem Kristján 1. var nýtekinn við konungdómi, kynnti sig sem sérlegan sendimann páfa og var fljótur að koma sér í mjúkinn hjá hinum unga konungi. Hann fylgdi konungi til Noregs sumarið 1450 og krýndi hann konung Noregs í Niðarósdómkirkju. Honum tókst meira að segja að fá konung til að lýsa nýkjörinn erkibiskup ólöglega kosinn og útnefna Marcellus sem erkibiskupsefni.

Fór svo Marcellus til Rómar að fá páfa til að staðfesta erkibiskupstignina en þá var páfi búinn að fá fréttir af afbrotaferli hans og var hann úthrópaður alræmdur skálkur. Hann flúði því frá Róm áður en hann yrði dæmdur og fór norður til Kölnar, þar sem hann fékkst meðal annars við lækningar og falsaði páfabréf sér til viðurværis. Hann var handtekinn haustið 1451 en tókst að flýja einu sinni enn.

Vorið 1452 var Marcellus bannfærður af páfanum sjálfum, sem um leið sendi Kristjáni 1. boð um að veita honum ærlega ráðningu ef hann næði honum á sitt vald. Um leið skipaði hann virtan kennimann, Hinrik Kaldajárn, erkibiskup í Niðarósi, og er hann talinn merkasti klerkur sem það embætti hlaut á miðöldum. Eitt helsta hlutverkið sem páfi fól honum var að bæta úr þeim skaða sem Marcellus hafði valdið. Hann kom til Kaupmannahafnar og tókst að fá konungu til að samþykkja sig sem erkisbiskup í stað Marcellusar en þegar Hinrik var farinn norður til Niðaróss tókst Marcellusi fljótt að komast innundir hjá kóngi að nýju og leggja fram alls konar bréf sem sýndu að illa hafði verið farið með hann, en þau bréf voru raunar útbúin af Marcellusi sjálfum. Eftir mikíl átök og mikla pólitíska refskák og undirferli varð úr sumarið 1454 að Hinrik Kaldajárn sagði af sér og hélt suður til Rómarborgar en Marcellus varð þó ekki erkibiskup.

Kanslari Danakonungs

[breyta | breyta frumkóða]

Kristján 1. lét gera upptækar allar eignir sem Kölnarbúar áttu í danska ríkinu til að hefna fyrir illa meðferð þeirra á Marcellusi hirðmanni sínum. Úr þessu urðu langvinnar deilur sem lauk ekki fyrr en meira en áratug eftir dauða Marcellusar.

Marcellus sat við hirð Danakonungs og var í miklum metum, hafði kanslaranafnbót, var ráðgjafi konungs, kirkjumálaráðherra og einn af áhrifamestu mönnum Danmerkur og raunar Norðurlanda allra. Á Íslandi var hins vegar lítið um hann vitað, enda kom hann aldrei til landsins og ekki verður þess vart að hann hafi skipt sér mikið af málefnum Íslands. Hann hirti tekjur af Skálholtsstól, var lénsherra af Vestmannaeyjum og hafði umboð til að selja Englendingum verslunarleyfi á Íslandi. Hann vann flesta íslenska höfðingja til fylgis við sig en þó er vitað að hann bannfærði Jón Pálsson Maríuskáld af einhverri ástæðu. Andrés Garðabiskup, líklega útnefndur af Marcellusi til biskupstignar í Görðum á Grænlandi þótt hann færi þangað aldrei, var umboðsmaður hans á Íslandi.

Marcellus drukknaði af skipi undan strönd Svíþjóðar í ársbyrjun 1460. Eftirmaður hans var Jón Stefánsson Krabbe.

  • Björn Þorsteinsson: Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups. Heimskringla, Reykjavík 1965.


Fyrirrennari:
Gozewijn Comhaer
Skálholtsbiskupar
(1448 – 1460)
Eftirmaður:
Jón Stefánsson Krabbe