Fara í innihald

Frans 1. Frakkakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Valois-ætt Konungur Frakklands
Valois-ætt
Frans 1. Frakkakonungur
Frans 1.
Ríkisár 1. janúar 1515 – 31. mars 1547
SkírnarnafnFrançois d'Orléans
Fæddur12. september 1494
 Château de Cognac, Cognac, Frakklandi
Dáinn31. mars 1547 (52 ára)
 Château de Rambouillet, Frakklandi
GröfBasilique Saint-Denis, Frakklandi
Undirskrift
Konungsfjölskyldan
Faðir Karl, greifi af Angoulême
Móðir Lovísa af Savoja
DrottningClaude af Bretagne (g. 1514; d. 1524)
Elinóra af Austurríki (g. 1530)
Börn7; þ. á m. Hinrik 2.

Frans 1. (12. september 149431. mars 1547) var greifi af Angoulême og konungur Frakklands frá 1515 til dauðadags. Á stjórnartíma hans hófst mikið blómaskeið í menningarlífi Frakka.

Ríkiserfingi og tengdasonur konungsins

[breyta | breyta frumkóða]

Frans var einkasonur Karls greifa af Angoulême og Lovísu af Savoja. Faðir hans var sonarsonur Karls 5. Frakkakonungs. Karl greifi dó á nýársdag 1496. Tveimur árum seinna varð Loðvík 12., frændi Frans, konungur Frakklands og var þá strax ljóst að ef hann eignaðist ekki son stæði Frans næstur til erfða. Þá var hann gerður að hertoga af Valois. Loðvík konungur sagði skilið við konu sína, sem ekki hafði alið barn í meira en tuttugu ára hjónabandi, og giftist hinni ungu ekkjudrottningu, Önnu af Bretagne. Hún ól á næstu árum tvær dætur, Claude og Renée, og að minnsta kosti fjóra andvana syni.

Dæturnar áttu ekki erfðarétt að frönsku krúnunni og árið 1506, þegar Loðvík var farinn að óttast að eignast ekki son, samdi hann um trúlofun Claude, eldri dóttur sinnar, og Frans, í því skyni að tryggja að afkomendur hans sætu áfram á konungsstóli. Anna drottning var þó mjög mótfallin þessu því að henni var mjög í mun að tryggja sjálfstæði erfðaléns síns, hertogadæmisins Bretagne, sem Claude átti að erfa, og vildi ekki að það rynni saman við Frakkland. Því varð ekkert af giftingunni meðan hún lifði.

Anna dó í janúarbyrjun 1514 og 18. maí um vorið giftust Frans og Claude. Loðvík konungur var rúmlega fimmtugur en var ekki búinn að gefa upp alla von um að eignast son og giftist um haustið þriðju konu sinni, hinni átján ára Maríu Tudor, systur Hinriks 8. Englandskonungs. Hann naut hennar þó ekki lengi því hann dó á nýársdag 1515 og þar sem María var ekki barnshafandi varð Frans konungur Frakklands sem Frans 1.

Listvinur og menntamaður

[breyta | breyta frumkóða]
Frans 1. um 1515.

Frans var vel menntaður og varð snemma fyrir áhrifum af ítölsku endurreisnarstefnunni. Hann er oft kallaður fyrsti endurreisnarkonungur Frakklands. Hann var mikill listvinur, studdi marga helstu listamenn samtímans og fékk ýmsa þeirra til að koma til Frakklands og starfa þar, meðal annars Leonardo da Vinci, sem kom með ýmis helstu verk sín með sér, þar á meðal Monu Lisu. Da Vinci dó í Frakklandi og verk hans urðu þar eftir. Einnig má nefna gullsmiðinn Benvenuto Cellini. Frans hafði einnig umboðsmenn á Ítalíu sem keyptu verk eftir Michelangelo, Titian, Rafael og fleiri meistara og sendu til Frakklands. Upphaf hinna stórkostlegu listaverkasafna Frakklandskonunga sem sjá má í Louvre og víðar má rekja til stjórnartíðar Frans.

Hann var einnig bókmenntasinnaður, orti sjálfur ljóð og veitti ýmsum helstu rithöfundum samtíma síns stuðning. Hann efldi mjög hið konunglega bókasafn og lét umboðsmenn sína á Ítalíu leita uppi fágæt handrit. Árið 1537 gaf hann út tilskipun um að konunglega bókasafnið skyldi fá eintak af hverri bók sem prentuð væri í Frakklandi og er það fyrsta dæmið um prentskilaskyldu. Og það var ekki nóg með að hann safnaði bókum, hann virðist líka hafa lesið bækurnar sem hann keypti. Hann leyfði líka fræðimönnum aðgang að bókasafni sínu til að ýta undir útbreiðslu þekkingar. Systir hans, Margrét drottning Navarra, var einnig mikil bókamanneskja og rithöfundur.

Frans var stórtækur í byggingaframkvæmdum, lét reisa ýmsar hallir og skreyta þær með listaverkum. Þar á meðal var Fontainebleau-höll, sem varð aðalaðsetur hans og bústaður opinberrar hjákonu hans, Önnu hertogaynju af Étampes. Mikill munaður einkenndi hallirnar og í gosbrunnum í hallargarði Fontainebleau var vatnið blandað með víni.

Heima fyrir gerði Frans ýmsar umbætur á stjórnsýslunni, meðal annars með því að gera frönsku að opinberu tungumáli ríkisins í stað latínu. Hann gaf einnig út tilskipun um að skrásetja skyldi allar fæðingar, brúðkaup og dauðdaga og setja upp skráningarskrifstofu í hverri sókn. Var Frakkland fyrsta ríki Evrópu til að koma slíku kerfi á.

Hernaðarbrölt konungs

[breyta | breyta frumkóða]

Frans var hins vegar ekki jafnhæfur á pólitíska sviðinu eða í hernaði. Hann reyndi að láta kjósa sig keisara hins Heilaga rómverska ríkis en tókst það ekki. Milli hans og Karls 5. keisara, sem réð yfir Austurríki, Spáni og Niðurlöndum, ríkti gagnkvæmt hatur og mikil togstreita og Karl skoraði hvað eftir annað á Frans í einvígi þótt ekkert yrði af því. Þeir lentu þó oft í átökum og í orrustunni við Pavia, 24. febrúar 1525, vann Karl sigur og fangaði Frans. Hann var hafður í haldi í Madrid og neyddist til að undirrita friðarsamning og gefa mikið eftir. Hann var látinn laus 17. mars 1526 en varð að senda syni sína tvo í gíslingu í Madrid. Hann fór líka í herför til Ítalíu 1536 en beið þar einnig lægri hlut fyrir Karli. Aftur fór hann í stríð á Ítalíu 1542-1546 og gekk ívið betur í það skiptið, ekki síst vegna fjárhagserfiðleika Karls keisara.

Frans leitaðist við að auka áhrif Frakka í Nýja heiminum og Asíu og sendi þangað könnunarleiðangra. Hann sendi meðal annars Jacques Cartier til að rannsaka St. Lawrence-fljót í Quebec árið 1534 og leita þar að gulli og gersemum og árið 1541 sendi hann Jean-François de la Roque de Roberval til að nema land í Kanada og boða þar kaþólska trú. Franskir könnuðir fóru einnig til Indlands og Indónesíu. Frans var líka fyrsti evrópski þjóðhöfðinginn til að koma á tengslum við Tyrkjaveldi og gerði bandalag við Súleiman mikla, sem raunar vakti hneykslan víða í Evrópu og Frans var hallmælt mjög fyrir að gera bandalag við ríki vantrúaðra.

Arfleifð og fjölskylda

[breyta | breyta frumkóða]

Frans dó 31. mars 1547. Hann hefur fengið nokkuð blendin eftirmæli þar sem menning og menntir blómstruðu á stjórnartíð hans en hins vegar átti hann í kostnaðarsömum og illa heppnuðum hernaðarátökum sem ekki fóru vel með efnahag Frakklands. Á síðustu stjórnarárum sínum hóf hann líka ofsóknir gegn mótmælendum og voru þær upphafið að Frönsku trúarbragðastríðunum, borgarastyrjöld sem geisaði í Frakklandi næstu áratugi með hléum og lauk ekki fyrr en 1598.

Frans og Claude drottning eignuðust sjö börn. Tvær elstu dæturnar dóu ungar. Ríkisarfinn, Frans hertogi af Bretagne, dó átján ára að aldri 1536 og það var því Hinrik bróðir hans sem tók við af föður sínum, þá 28 ára. Þriðji bróðirinn, Karl hertogi af Orléans, dó 23 ára. Magdalena giftist Jakob 5. Skotakonungi 1537 en dó hálfu ári síðar úr berklum, tæplega 17 ára að aldri. Yngsta systirin var Margrét, sem giftist Emmanúel Filibert hertoga af Savoja.

Claude drottning dó 1524 og 7. ágúst 1530 giftist Frans Elinóru af Austurríki, systur erkióvinar síns Karls 5., en þau voru barnlaus. Hann átti einnig ýmsar hjákonur og er sagt að ein þeirra hafi verið Mary Boleyn, sem einnig hafði verið ástkona Hinriks 8. Englandskonungs, systir Anne Boleyn. Þær systur voru um tíma hirðmeyjar Claude drottningar.


Fyrirrennari:
Loðvík 12.
Konungur Frakklands
(15151547)
Eftirmaður:
Hinrik 2.