Lafði Margrét Beaufort
Lafði Margrét Beaufort (31. maí 1443 – 29. júní 1509), greifynja af Richmond og Derby, var ensk hefðarkona á 15. öld, ættmóðir Tudor-ættar, móðir Hinriks 7. Englandskonungs og amma Hinriks 8. Árið 1509 var hún skamma hríð ríkisstjóri Englands fyrir hönd sonarsonar síns. Ját Margrét var dóttir John Beaufort, hertoga af Somerset, sem var sonarsonur Johns af Gaunt, sonar Játvarðar 3., og Margrétar konu hans. Faðir hennar hafði gert samkomulag við Hinrik 6. Englandskonung um að ef hann dæi skyldi kona hans hafa forsjá dóttur þeirra og ráða giftingu hennar. Þeir konungur urðu svo ósáttir og þegar faðir Margrétar dó ári eftir fæðingu hennar sveik konungur samstundis heit sítt og fól hertoganum af Suffolk forræði Margrétar, sem var einkaerfingi auðæfa föður síns. Hún var þó áfram hjá móður sinni.
Snemma árs 1450, þegar Margrét var sex ára að aldri, var hún gefin saman við John de la Pole, son hertogans af Suffolk, sem var ári eldri. Páfaleyfi þurfti til giftingarinnar, þó ekki vegna æsku brúðhjónanna, heldur vegna þess að þau voru of skyld. Þremur árum seinna var hjónabandið ógilt og konungurinn lét hálfbræður sína, Jasper og Edmund Tudor jarl af Richmond, fá forræði Margétar litlu, enda hafði hann þá þegar ákveðið að hún ætti að giftast Edmund. Þau gengu í hjónaband 1. nóvember 1455 og var Margrét þá 12 ára en Edmund 24 ára.
Rúmlega hálfu ári síðar var Edmund, sem var Lancaster-megin í Rósastríðunum, handsamaður af mönnum hertogans af York og hafður í haldi í Carmarthen-kastala í Wales. Þar dó hann úr plágu í nóvember. Margrét var þá þrettán og hálfs árs og komin sjö mánuði á leið. Hún ól son 28. janúar 1457, Hinrik Tudor, sem síðar varð Hinrik 7. Fæðingin var mjög erfið og Margrét ól ekki fleiri börn. Hinrik ólst að mestu leyti upp hjá föðurfjölskyldu sinni í Wales og síðar í útlegð í Frakklandi.
Margrét gekk að eiga þriðja mann sinn, Henry Stafford, son hertogans af Buckingham, 3. janúar 1462 og var þá átján ára. Þau þurftu undanþágu vegna skyldleika. Hjónaband þeirra virðist hafa verið hamingjusamt en Stafford dó 1471. Margrét virðist þó hafa virt Edmund mann sinn meira, kannski vegna þess að hann var faðir sonar hennar, því að hún tók fram í erfðaskrá sem hún gerði 1472 að hún vildi láta grafa sig við hlið hans. Í júní sama ár giftist hún Thomas Stanley en það virðist hafa verið hagkvæmnishjónaband og þegar frá leið kaus hún að búa ein og vann skírlífisheit með samþykki eiginmanns síns.
Eftir dauða Játvarðar 4., valdatöku Ríkharðs 3. bróður hans og hvarfs prinsanna í turninum taldi Hinrik sonur Margrétar sig eiga erfðatilkall til krúnunnar þar sem móðir hans var barnabarnabarn Johns af Gaunt, þriðja sonar Játvarðar 3. John hafði gengið að eiga frillu sína, Katherine Swynford, árið 1396 og áttu þau þá saman fjögur börn, þar á meðal John Beaufort, afa Margrétar. Ríkharður 2., þáverandi konungur, hafði lýst börnin skilgetin en erfðakrafa Hinriks þótti vafasöm þar sem hún var um kvenlegg og langafi hans þar að auki fæddur utan hjónabands. Margrét gerði þá bandalag við Elísabetu Woodville, ekkju Játvarðar 4., og sömdu þær um trúlofun Hinriks og Elísabetar af York, elstu dóttur Elísabetar Woodville og Játvarðar 4. Þetta styrkti erfðakröfu Hinriks til muna.
Í orrustunni á Bosworth-völlum árið 1485 féll Ríkharður 3. og Thomas Stanley setti kórónu hans á höfuð Hinriks stjúpsonar síns. Stanley var síðar gerður jarl af Derby og var Margrét eftir það titluð greifynja af Richmond og Derby. Við hirðina var hún hins vegar kölluð konungsmóðirin og naut mikillar virðingar. Þingið veitti henni rétt til að eiga eignir án þess að eiginmaður hennar hefði umráð yfir þeim, eins og hún væri ógift. Hún er talin hafa haft mikil áhrif á son sinn og verið mjög valdamikil. Þegar Hinrik dó 21. apríl 1509 hafði hann skipað móður sína tilsjónarmann erfðaskrárinnar og hún var gerð að ríkisstjóra fyrir sonarson sinn, Hinrik 8., sem talinn var of ungur til að stýra ríkinu einn. Ríkisstjóratíð hennar varð þó ekki löng því hún dó tveimur mánuðum á eftir syni sínum.
Margrét var vel menntuð og mikil áhugamanneskja um menntun. Hún lét reisa ókeypis almenningsskóla í Wimborne í Dorset og gaf fé til stofnunar tveggja skóla (colleges) við háskólann í Cambridge. Fyrsti kvennaháskólinn í Oxford, Lady Margaret Hall, var nefndur eftir henni.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Lady Margaret Beaufort“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 21. júní 2010.