Epírus
Epírus er landfræðilegt og sögulegt hérað milli Grikklands og Albaníu og skiptist nú milli þessara tveggja ríkja. Það liggur frá Pindusfjöllum í austri til Jónahafs í vestri með strönd sem nær frá Vlorë-flóa að Ambrakikosflóa í suðri. Albaníuhluti Epírus er í sýslunum Gjirokastër, Vlorë og Berat en Grikklandshlutinn er héraðið Epírus. Stærsta borg héraðsins er Jóannína með rúmlega 100.000 íbúa en Gjirokastër er stærsta borgin Albaníumegin.
Epírus er fjalllent hérað. Þar bjuggu grísku ættbálkarnir Kaónar, Mólossar og Þesprotar og þar var véfréttin í Dódóna. Epírus varð sérstakt ríki 370 f.Kr. Pyrrhos af Epírus varð frægur fyrir hernað sinn gegn Rómaveldi sem er uppruni hugtaksins „Pyrrosarsigur“. Epírus varð hluti af Rómaveldi ásamt öðrum ríkjum Grikklands 146 f.Kr. Síðar varð það hluti af Býsantíum.
Eftir fall Konstantínópel í Fjórðu krossferðinni varð Epírus aftur sjálfstætt um stutt skeið en Tyrkjaveldi lagði héraðið undir sig á 15. öld. Epírus varð sjálfstætt í upphafi 19. aldar undir stjórn Alí Pasja af Jóannína en Tyrkjaveldi endurheimti yfirráð sín 1821. Eftir Balkanstyrjaldirnar og Fyrri heimsstyrjöld skiptist héraðið milli Albaníu og Grikklands.