Einangrun Berlínar
Einangrun Berlínar átti sér stað frá 24. júní 1948 til 11. maí 1949. Hún hófst þegar Sovétríkin lokuðu lestarteinum og vegum sem lágu inn í Vestur-Berlín, yfirráðasvæði vesturveldanna (Bandaríkjanna, Bretlands og Frakklands) í borginni og einangruðu hana því algjörlega í miðju Austur-Þýskalandi sem á þessum tíma var undir stjórn Sóvétmanna.[1]
Oft hefur verið talað um að einangrun Berlínar hafi verið fyrsta alvarlega deilan milli Vesturveldanna og Sovétmanna í kalda stríðinu.[2]
Ástæður
[breyta | breyta frumkóða]Ein helsta ástæða þess að Sovétmenn einangruðu Vestur-Berlín var Marshall-aðstoðin. Hún fólst í fjárstyrkjum sem Bandaríkjamenn veittu þjóðum í Evrópu til að koma efnahaginum aftur í gang eftir stríðið. Þeir gerðu þetta að miklu leyti til að koma í veg fyrir útbreiðslu kommúnisma eftir stríð. Þetta líkaði Sovétmönnum ekki og afþökkuðu þau þennan styrk. Sovétríkjunum fannst að Vesturveldin væru of sterk í Þýskalandi eftir þessa styrki og vildu þau burt af sínu svæði í Þýskalandi.
En spennan á milli Sovétríkjanna og Bandaríkjanna var að aukast gífurlega og fannst Bandaríkjamönnum óviðunandi að nokkur partur af Þýskalandi yrði undir stjórn kommúnista. Fundir voru haldnir í London þar sem rætt var um hvað skyldi gera í sambandi við Sovétríkin og hversu erfitt var að vinna með þeim. Þetta jók á pressuna á Sovétmenn að reka vesturveldin út úr sínum parti af Þýskalandi.[1][3]
Gríðarlega erfitt var fyrir vesturveldin og Sovétmenn að vinna saman því skoðanir þeirra á því hvernig ætti að fara að því að endurbyggja Þýskaland voru svo ólíkar. Bandaríkjamenn vildu endurbyggja Þýskaland og styrkja það og hjálpa eins og þeir gátu. Sovétmenn á hinn bóginn höfðu engan áhuga á því og vildu heldur refsa Þýskalandi og algengt var að þeir tækju til dæmis verksmiðjur og iðnað og flyttu hann heim til Sovétríkjanna.[4]
Loftbrúin
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1948 einangruðu Sovétmenn Vestur-Berlín algjörlega, lokuðu fyrir vegi og lestarsamgöngur. Þetta gerði það að verkum að engan mat var hægt að fá í Vestur-Berlín og þurftu vesturveldin einhvern veginn að leysa það. Hersöfðinginn Lucius Clay lagði til að hersveit á skriðdrekum yrði send með mat og nauðsynjar í gegnum Austur-Þýskaland og til Vestur-Berlínar. Hann lagði enn fremur til að þeim yrði sagt að skjóta á hvern þann sem reyndi að stöðva þá. Þessi hugmynd var aldrei framkvæmd því Harry S. Truman þáverandi forseta Bandaríkjanna leist ekkert á hana og var hræddur um að þetta myndi hefja stríð sem hefði getað endað hryllilega. Þann 28. júní 1948 gaf Truman út yfirlýsingu þess efnis að ekki kæmi til greina að yfirgefa Berlín og Berlínarbúa. Hann sendi einnig bandarískar B-29 sprengjuvélar á breska flugvelli í Þýskalandi til að sýna Sovétmönnum að vesturveldin tækju þetta mjög alvarlega
Það var síðan Sir Brian Robertson, yfirmaður í breska hernum, sem stakk upp á því að fljúga einfaldlega með allar nauðsynjar til Vestur-Berlínar. Þetta var gríðarlega umfangsmikið og erfitt verk. Það hefði verið auðvelt að útvega aðeins hermönnunum nauðsynjar en það var allt önnur saga þegar kom að því að útvega öllum íbúum Vestur-Berlín þær. Einu flugvélarnar sem Bandaríkjamenn gátu notað voru fimm ára gamlar Douglas C-47 vélar sem gátu aðeins tekið 3,5 tonn hver.
Það var ákveðið að daglegur skammtur borgarinnar myndi innihalda 646 tonn af hveiti, 125 tonn af morgunkorni, 64 tonn af fitu, 109 tonn af kjöti og fiski, 180 tonn af kartöflum, 180 tonn af sykri, 11 tonn af kaffi, 19 tonn af mjólk í duftformi, 3 tonn af geri, 144 tonn af grænmeti 38 tonn af salti og 10 tonn af osti. Samanlagt gerði þetta yfir 1500 tonn á dag til að halda lífinu í yfir tveim milljónum af fólki. Í þessa summu vantar einnig annars konar nauðsynjar eins og kol og eldsneyti. Það var því líklegt að daglega þyrfti að fljúga með um 3500 tonn til Vestur-Berlín. Miðað við hvað C-47 vélarnar gátu borið lítið í hverri ferð hefðu þær þurft að fara um þúsund ferðir á dag. Bandaríkjamenn gerðu því ráð fyrir að geta aðeins flogið með um 300 tonn á dag og Bretar um 700 tonn. Það voru því sendar nýjar C-54 vélar til Þýskalands sem gátu borið yfir tíu tonn. Til að byrja með höfðu allt í allt verið um hundrað C-47 vélar en aðeins tvær C-54. Núna voru hinsvegar fleiri en fimmtíu C-54 vélar sem gerði það að verkum að verkefnið gekk upp.[5]
Líf Berlínarbúa
[breyta | breyta frumkóða]Líf Berlínarbúa á fyrstu mánuðum einangruninnar var nokkuð erfitt. Lítið var til af nauðsynjum og loftbrúin ekki komin á fullt skrið. Til að bæta gráu ofan á svart var veturinn að skella á og lítið sem ekkert var til af eldsneyti og kolum. Var því varla hægt að kynda húsin og starfsemi verksmiðja stöðvaðist nánast. Það var því tekið upp á því að höggva niður öll tré borgarinnar til að nota í eldsneyti. Algengt var að fólk borðaði gras og leitaði sér matar í ruslatunnum. Það lét sig samt hafa þetta því að hinn kosturinn í stöðunni var að Vesturveldin yfirgæfu svæðið og Sovétmenn tæku yfir Vestur-Berlín. Þetta leist engum vel á, enda höfðu Vestur-Berlínarbúar heyrt sögur af því hvernig meðferðin á fólkinu í austri var og höfðu fáir áhuga á sameiningu við Sovétríkin. En lífsgæðin bötnuðu þó nokkuð þegar loftbrúin komst á skrið og þótt engin velmegun hafi verið hélt hún lífinu í fólki.[6]
Sælgætisaðgerðin
[breyta | breyta frumkóða]Ein af frægustu sögum einangruninnar er svokölluð Sælgætisaðgerðin (e. Operation Little Vittles). Það var bandaríski flugmaðurinn Gail Halverson sem fyrstur tók upp á því að festa sælgæti við litlar fallhlífar og láta svífa til barnanna í Vestur-Berlín. Sagan segir að hann hafi tekið eftir nokkrum börnum standa fyrir utan flugvöllinn sem hann var á. Hann fór til barnanna og svaraði nokkrum spurningum um flugvélarnar og þess háttar en tók eftir því að enginn þeirra bað um sælgæti eða tyggigúmmí ólíkt börnum hann hafði áður hitt í í Evrópu. Hann gaf því börnunum tyggigúmmi og sagði að ef þau deildu því á milli sín myndi hann fljúga yfir daginn eftir og henda út sælgæti til þeirra. Börnin spurðu hann hvernig þau myndu vita hvaða flugvél væri hans. Hann sagðist þá ætla að vagga vængjunum sínum til hliðar svo þau myndu þekkja hann. Þar fékk hann viðurnefnið „Uncle Wiggly Wings“. Hann var einnig þekktur sem súkkulaði-frændinn eða súkkulaði-flugmaðurinn.[7]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Berlin blockade. Geymt 19 apríl 2013 í Wayback Machine. Sótt 30. september 2013.
- ↑ People & Events: Berlin Blockade.. Sótt 1. október 2013.
- ↑ Berlin blockade.. Sótt 30. september 2013.
- ↑ Part III: Stripping and stagnating of East Germany Geymt 1 september 2013 í Wayback Machine. Sótt 1. október 2013.
- ↑ The Berlin Airlift.. Sótt 1. október 2013.
- ↑ The Berlin Airlift: Life of Berliners.. Sótt 1. október 2013.
- ↑ The Berlin Airlift: Operation Little Vittles.. Sótt 1. október 2013.