Fara í innihald

Njósnavélardeilan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Flugmaðurinn Francis Gary Powers.

Njósnavélardeilan hófst þegar bandarísk njósnaflugvél af gerðinni Lockheed U-2 var skotin niður af sovéska loftvarnaliðinu þar sem hún var að ljósmynda sovéskt landsvæði 1. maí 1960. Flugmaðurinn var Francis Gary Powers. Flugvélin var skotin niður með S-75 Dvína-flugskeyti og hrapaði í nágrenni við Sverdlovsk (nú Jekaterínbúrg). Powers tókst að skjóta sér úr vélinni og lenda heilu og höldnu með fallhlíf.

Upphaflega héldu bandarísk stjórnvöld því fram að vélin hefði verið borgaraleg veðurrannsóknavél á vegum NASA en neyddust til að viðurkenna sannleikann síðar þegar sovésk yfirvöld sýndu flugmanninn og hluta af njósnabúnaði vélarinnar þar sem meðal annars voru ljósmyndir af hernaðarmannvirkjum teknar í ferðinni.

Atvikið átti sér stað í forsetatíð Dwight D. Eisenhower og aðalritaratíð Níkíta Krústsjev um tveimur vikum fyrir fyrirhugaðan leiðtogafund í París. Það olli Bandaríkjunum töluverðum álitshnekki og varð til þess að samband risaveldanna versnaði í Kalda stríðinu.

  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.