Stan Lee
Stan Lee árið 2014. | |
Fæddur: | 28. desember 1922 New York, Bandaríkjunum |
---|---|
Látinn: | 12. nóvember 2018 (95 ára) |
Starf/staða: | Myndasöguhöfundur |
Þjóðerni: | Bandarískur |
Maki/ar: | Joan Boocock (g. 1947; d. 2017) |
Undirskrift: | |
Heimasíða: | https://therealstanlee.com |
Stan Lee (fæddur undir nafninu Stanley Martin Lieber; 28. desember 1922 – 12. nóvember 2018) var bandarískur myndasöguhöfundur, ritstjóri og útgefandi. Hann var ritstjóri Marvel-myndasögufyrirtækisins og síðar útgáfustjóri og stjórnarformaður þess. Undir stjórn Stans Lee þróuðust Marvel-myndasögurnar úr því að vera lítil undirdeild stærra útgáfufyrirtækis til þess að verða margmiðlunarrisi með veruleg umsvif í bandaríska myndasöguiðnaðinum.
Ásamt ýmsum samstarfsmönnum, sér í lagi Jack Kirby og Steve Ditko, tók Lee þátt í því að skapa fjölmargar frægar myndasöguhetjur, þar á meðal Köngulóarmanninn (enska: Spider-Man), Hulk og X-Mennina. Lee var frumkvöðull í raunsærri persónusköpun í ofurhetjugeiranum en hafði áður tíðkast og átti þátt í því að létta á ritskoðun á myndasögum fyrir börn og ungmenni í Bandaríkjunum með skrifum sínum.
Eftir að Lee settist í helgan stein var hann áfram nokkurs konar opinbert andlit Marvel-myndasagnanna og dundaði sér við ýmis sjálfstæð verkefni alveg fram á tíræðisaldur. Hefð myndaðist fyrir því að Stan Lee birtist í aukahlutverkum í kvikmyndum byggðum á Marvel-ofurhetjum eftir aldamótin. Lee var því tíð sjón á hvíta tjaldinu á efri árum og birtist í stuttum feluhlutverkum í fjölmörgum stórmyndum,[1] þar á meðal öllum 20 myndunum í Marvel-kvikmyndaheimnum sem komu út fyrir dauða hans.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Stan Lee látinn“. mbl.is. 12. nóvember 2018. Sótt 14. nóvember 2018.