Norðurfrísnesku eyjarnar
Norðurfrísnesku eyjarnar er eyjaklasi í Norðursjó meðfram þýsku og dönsku ströndunum. Eyjaklasinn er í Vaðhafinu nyrst í Þýskalandi og teygir sig allt til dönsku borgarinnar Esbjerg. Margar eyjanna eru álitlega stórar og eru í byggð. Sumir vilja meina að dönsku eyjarnar tilheyri ekki Norðurfrísnesku eyjunum, heldur séu eigin eyjaklasi. Jarðfræðilega og sögulega eru þær þó af sama meiði.
Jarðfræði
[breyta | breyta frumkóða]Langflestar eyjarnar voru áður fyrr miklu stærri og voru að hluta tengdar meginlandinu. En stormar og straumar hafa brotið af eyjunum, þannig að með tímanum hafa þær minnkað og í flestum tilfellum fjarlægst meginlandið. Nokkrar eyjar hafa klofnað í miklum flóðum. Það á við um eyjarnar Nordstrand og Pellworm, en þær voru ein eyja til 1634 er óveður mikið (Burchardi-flóðið) braut þær í sundur. Í dag er Nordstrand orðin landföst. Enn í dag eiga sér stað breytingar á eyjunum. Þær eiga það til að brotna meira niður en einnig að stækka, eftir því sem við á hverju sinni. Örfáar eyjar eru aðeins sandrif og eru ekki í byggð. Eyjan Amrum fyrir sunnan Sylt er nær eingöngu gerð úr sandi og er reyndar stærsta rif Þýskalands. Þar búa samt um níu þúsund manns.
Samgöngur
[breyta | breyta frumkóða]Siglt er út í flestar eyjar með bátum og ferjum. Sökum þess hve Vaðhafið er grunnt er það þó erfiðleikum háð. Búið er að tengja nokkrar eyjar, svo sem Oland og Langeness, með smáteinum sem handknúin lest fer eftir. Eyjan Sylt er tengd meginlandinu með járnbrautarbrú. Hægt er að stíga upp í lestina í bænum Klanxbüll en bílar eru aðeins settir á lestina í Hamborg. Eingöngu danska eyjan Rømø er tengd með bílabrú frá meginlandinu. Í fjöru myndast víðáttumiklar leirur í kringum eyjarnar (Watten á þýsku). Við þær aðstæður er hægt að komast fótgangandi í margar eyjar. Slíkt er hins vegar hættulegt sökum fjarlægðar og sökum þess að það flæðir hratt að. Mælt er með að göngur um leirurnar séu eingöngu í fylgd með vönum leiðsögumönnum.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Upphaflega bjuggu frísar á eyjunum. Þeir lutu Danakonungi í gegnum aldirnar. Eyjarnar urðu síðan hluti af hertogadæminu Slésvík. En Bismarck hrifsaði Slésvík til sín í dansk-þýska stríðinu 1864 og urðu þær því eign Prússlands. Í atkvæðagreiðslu íbúa Slésvíkur 1920 kusu íbúar Rømø að sameinast Danmörku á ný og er eyjan því dönsk í dag. Allar eyjar þar fyrir sunnan eru hins vegar þýskar. Reyndar er norðuroddi eyjarinnar Sylt einnig nyrsti oddi Þýskalands.
Listi eyjanna
[breyta | breyta frumkóða]Eftirfarandi listi yfir Norðurfrísnesku eyjanna tekur aðeins fyrir byggðar eyjar. Eyjarnar eru taldar frá norðri til suðurs.
Danskar eyjar:
Eyja | Stærð í km² | Íbúar | Höfuðstaður |
---|---|---|---|
Fanø | 55 | 3.200 | Nordby |
Mandø | 7,6 | 62 | Mandø By |
Rømø | 128 | 680 | Havneby |
Þýskar eyjar:
Eyja | Stærð í km2 | Íbúar | Höfuðstaður |
---|---|---|---|
Sylt | 99 | 21 þús | Westerland |
Föhr | 82 | 8.600 | Wyk auf Föhr |
Amrum | 20 | 2.300 | Nebel |
Pellworm | 37 | 1.000 | |
Oland | 2 | 30 | |
Langeness | 11 | 122 | |
Gröde | 2,52 | 11 | |
Hooge | 5,78 | 80 | |
Nordstrandischmoor | 1,9 | 22 | |
Süderoog | 62 hektarar | 2 | |
Südfall | 56 hektarar | 2 |
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Nordfriesische Inseln“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt júlí 2010.