Fara í innihald

Make America Great Again

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Donald Trump með derhúfu merkta slagorðinu "Make America Great Again" í forsetaframboði sínu árið 2016

Make America Great Again (ísl. Gerum Bandaríkin stórkostleg aftur) er pólitískt slagorð sem hefur verið notað í tengslum við bandarískar forsetakosningar. Slagorðið var notað og varð vinsælt í kosningaframboði Donalds Trump, 45. forseta Bandaríkjanna, árið 2016 þegar hann vann sigur gegn Hillary Clinton og aftur árið 2020 þegar hann tapaði framboði sínu gegn Joseph Biden.

Slagorðið „Make America Great Again“ á sér þó nokkuð langa sögu en hann hefur ávallt komið upp í tengslum við forsetakosningar í Bandaríkjunum. Frasinn var fyrst notaður árið 1940 af Alexander Wiley, þingmanni repúblikana, í þingræðu í aðdraganda forsetakosninga.[1] Árið 1964 var slagorðið notað í auglýsingum öldungardeildarþingmannsins Barry Goldwater í framboði hans til forsetaembættisins.[2] Goldwater var frambjóðandi repúblikanaflokksins fyrir forsetaembættið en hann laut í lægra haldi gegn Lyndon B. Johnson með rúmlega 52 kjörmenn gegn þeim 486 kjörmönnum sem Johnson tryggði sér.[3]

Ronald Reagan notaðist við frasann „Let‘s make America Great Again“ í forsetaframboði sínu fyrir repúblikanaflokkinn árið 1980. Bandaríkin voru að ganga í gegnum versnandi efnahag og atvinnuleysi var að aukast, svo frasinn var því notaður í þeim tilgangi að stappa stálinu í þjóðina og auka bjartsýni almennings fyrir betri tímum. Við formlega tilnefningu Reagan sem forsetaefni repúblikanaflokksins árið 1980 sagði Reagan í ræðu sinni að hann stefndi á að endurreisa von þeirra sem höfðu hana misst og bjóða þá velkomna í ferðalag með sér til þess að gera Bandaríkin stórkostleg aftur.[4] Reagan kom til með að vinna forsetakosningarnar gegn sitjandi forseta Jimmy Carter og varð þar með elsti kjörni forseti Bandaríkjanna 69 ára og 349 daga gamall til að taka við embættinu, met sem Donald Trump og Joe Biden slógu síðar.[5]

Þrátt fyrir að slagorðið virtist fylgja eingöngu repúblikönum var Bill Clinton næstur í röð forsetaframbjóðenda til þess að nota það í ræðum sínum og kosningaauglýsingum. Það gerði hann fyrir forsetaframboð sitt árið 1992 sem hann vann gegn sitjandi forseta, og fyrrum varaforseta Reagans, George H. W. Bush.[6]

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna frá 2017 til 2021, notaði slagorðið í forsetaframboðum sínum árin 2016 og 2020. Trump hefur þó notað slagorðið síðan árið 2012 en þá sótti hann um að fá það skráð sem vörumerki í pólitískum tilgangi sem gekk eftir árið 2015. Trump hefur ítrekað notast við slagorðið, bæði á samfélagsmiðlum og í ræðum sínum á fjöldafundum og m.a. urðu derhúfur með slagorðinu sérstaklega vinsælar meðal fylgjenda hans bæði í Bandaríkjunum sem og utan þeirra. Fyrir kosningaframboð sitt árið 2020 gaf hann hinsvegar út að sitt nýja slagorð væri „Keep America Great“ (ísl. Höldum Bandaríkjunum frábærum) og sótti hann sömuleiðis um að fá það skráð sem vörumerki. Vegna efnahagskrísunnar sem fylgdi kórónuveirufaraldrinum hefur framboð hans hinsvegar notast að mestu við slagorðið „Make America Great Again.“[7]

Notkun Trumps á slagorðinu hefur verið gagnrýnt vegna þess að það þykir gefa í skyn að afturhvarfsemi Trumps sé til 6. áratugar síðustu aldar þegar efnahagur Bandaríkjanna var í blóma en konur og minnihlutahópar voru enn kúgaðir hópar í samfélaginu, en flest öll mannréttindabarátta sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum á rætur að rekja til 6. áratugs síðustu aldar. Sjálfur hefur Trump sagt að slagorðið sé eingöngu að vísa í betra efnahagsástand, sterkari iðnað og sterkari her.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 86. Þingræða í aðdraganda kosninga 1940, skoðað 24. nóvember 2020.
  2. “Make America Great Again,” Goldwater, 1964, skoðað 25. nóvember 2020.
  3. Niðurstöður forsetakosninga árið 1964, skoðað 25. nóvember 2020.
  4. Acceptance speech of the Republican Nomination for President Geymt 26 janúar 2021 í Wayback Machine, skoðað 26. nóvember 2020.
  5. Eiga fátt annað sameiginlegt en að vera á áttræðisaldri, skoðað 26. nóvember 2020.
  6. “Make America Great Again” – Who Sait It First?, skoðað 26. nóvember 2020.
  7. Trump Tries on MAGA 2.0 for a pandemic era, skoðað 24. nóvember 2020.
  8. Is „Make America Great Again“ Racist?, skoðað 24. nóvember 2020.