Fara í innihald

Fjara

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þangfjara við Skáleyjar á Breiðafirði

Fjara er nefnd sú landræma sem er á mörkum meginlands eða eyja og sjávar eða stöðuvatns. Þar sem sjávarfalla gætir er þetta svæði breiðara en ella. Til dæmis gætir sjávarfalla varla eða mjög lítið í stöðuvötnum en mikið mun meira á sjávarströndum, þó óverulega í innhöfum eins og til dæmis Eystrasalti og Miðjarðarhafi.

Yfirleitt er fjara skilgreind sem sú landræma sem sjór fellur af og er á milli meðalstórstraumsflóðs og meðalstórstraumsfjöru. Sjávarföll eru mjög mismikil, mest geta þau orðið 16 metra munur á flóði og fjöru í Fundyflóa á austurströnd Kanada, því eru fjörur mjög mismunandi að umfangi, einnig er lífríki og gerð þeirra mjög mismunandi. Margir líffræðingar vilja líka skilgreina fjöru frekar út frá vistkerfi hennar og segja að hún nái frá efstu klettadoppum, en ofan þeirra teljist land, og niður að þarabelti, en þar byrji grunnsævi. Sú skilgreining er talsverð einföldun og á fyrst og fremst við um kletta- og klapparfjörur.[1]

Fjörur á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]

Fjörur á Íslandi eru misstórar vegna þess að sjávarfalla gætir mismikið í kringum landið. Mestur munur flóðs og fjöru er við Breiðafjörð og getur þar orðið 5 metrar. Við Faxaflóa er algengur fjögurra metra munur á stórstreymi en á Norður- og Austurlandi sjaldnast meiri en einn og hálfur metri. Lögun landsins ræður miklu um hve fjörur eru víðáttumiklar að viðbættum sjáfarföllum, en talið í ferkílómetrum er um helmingur allra fjara á Íslandi við Breiðarfjörð, fjórðungur við Faxaflóann en aðeins um 10% samanlagt við norður- og austurströndina.

Fjörugerðir

[breyta | breyta frumkóða]

Fjörur eru margvíslegar að gerð. Sumstaðar ganga klettar í sjó út, aðrar sorfnar af brimi úthafsöldunar, enn aðrar fullar af grjóthnullungum, möl eða sandi eða eru lygnar leirur við árósa. Lífríki hinna ýmsu fjörugerða er misjafnt og hefur skjól þar mikið að segja. Í sumum gerðum fjara er nánast ekkert fjörulíf, eins og í sandfjörum fyrir opnu hafi, en mjög mikið í skjólgóðum hnullunga- og þangfjörum.

Skipta má fjörum í margar gerði og hafa Íslenskum fjörum meðal annars verið skipt í eftirfarandi flokka: Þangfjörur, hrúðurkallafjörur, hnullungafjörur, skjóllitlar sandfjörur, kræklingaleirur, sandmaðksleirur, sjávarfitjar og árósar og sjáfarlón.[2]

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Guðmundur P. Ólafsson (1986). Algeng fjörudýr.
  2. Agnar Ingólfsson (1990). Íslenskar fjörur.
  • Agnar Ingólfsson (1990). Íslenskar fjörur.
  • Guðmundur P. Ólafsson (1986). Algeng fjörudýr.
  • Agnar Ingólfsson, Hrefna Sigurjónsdóttir, Karl Gunnarsson, Eggert Pétursson (1986). Fjörulíf.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.