Fara í innihald

Eldgosið í Grímsvötnum 2011

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Gervihnattamynd af Grímsvötnum 22. maí 2011.
Ummerki gossins í Grímsvötnum sumarið 2011.

Eldgosið í Grímsvötnum 2011 var eldgos í Grímsvötnum sem hófst síðdegis 21. maí 2011[1] Strax við upphaf gosins sást gosmökkurinn frá Egilsstöðum og Selfoss. Gosmökkurinn náði hæst 20 km hæð og gjóskan var fínkorna. Fínkorna gjóska er létt og helst á lofti dögum saman. Gjóskan er mestmegnis basaltgler með litlu hlutfalli mengandi efna. Til samanburðar við Eyjafjallagosið 2010 er helmingi minna af fínu efni.[2]

Í Eldgosinu í Eyjafjallajökli 2010 kom í ljós að veðursjáin á Keflavíkurflugvelli fylgdist ágætlega með gosmekkinum. Eftir gosið var ákveðið var að setja upp færanlega veðursjá sem yrði staðsett nær eldgosinu.[3] Ratsjá var fengin frá bresku veðurstofunni og staðsett 70 kílómetra frá Grímsvötnum. Hún veitti mikilvægar upplýsingar til flugfélaga og gerði það að verkum að mögulegt var að hefja flug mun fyrr.[4]

Afleiðingar eldgossins

[breyta | breyta frumkóða]

Röskun flugumferðar

[breyta | breyta frumkóða]

Nokkur röskun varð á flugi á Íslandi vegna gossins. Sama dag og gosið hófst var öllu flugi innanlands á vegum flugfélaganna Flugfélags Íslands og Flugfélagsins Ernis lokað til 26. maí.[5] Flugi frá Reykjavík til Grænlands var þó áfram aflýst á meðan lofthelgi landsins var lokuð.[6] Keflavíkurflugvelli var lokað 22. og 24. maí.[7] Akureyrarflugvelli og Egilsstaðaflugvelli, sem eru vara alþjóðaflugvellir Íslands var jafnframt lokað 24. maí.[8]

Erlendis var austurhluta loftrýmis Grænlands lokað 23. maí og hefur verið lokað síðan.[9] Skoskum og Norð-Írskum flugvöllum var lokað 24. maí. Lággjaldaflugfélagið Ryanair mótmælti þessari lokun með þeirri fullyrðingu um að þeir hefðu flogið í gegnum svæðið og ekki fundið nein ummerki um gosösku. Forráðamenn flugeftirlits þarlendis fullyrtu hinsvegar að flugfélagið hafði ekki farið inn á gösöskusvæðið. Ákvörðunin um hvort flogið sé í gosmekki í Bretlandi var tekin alfarið af flugfélögunum sjálfum.[10] Sama dag var loftrýmið yfir norðausturhluta Danmerkur lokað ásamt flugvellinum í Landvetter. Lokun loftrýmis Grænlands lengdi leiðina sem flogin er frá Danmörku og Svíþjóð til Norður-Ameríku.[11][12] Degi síðar voru flugsamgöngur komnar í eðlilegt horf í Skandinavíu.[13] Sama dags var flugvöllum í þýsku borgunum Hamborg, Bremen og Berlín lokað. 26. Maí voru engir flugvellir lokaðir á meginlandi Evrópu. Gosið var í rénun og engar horfur voru á frekari lokun flugvalla í álfunni.[14][15][16]

Áhrif á búsvæði

[breyta | breyta frumkóða]
Lögreglubifreið lokar þjóðvegi 1 við Skaftafell.

Þjóðvegi eitt yfir Skeiðarársand var lokað frá 21. til 24 maí og á sama tíma var gosmökkurinn yfir þjóðveginum.[17] Lélegt skyggni var við opnun vegarins og unnið var að hreinsun sandskafla á veginum.[18] Lokun vegarins lokaði á alla bílumferð til Skaftafells sem var lokað á sama tímabili og opnaði tveimur dögum síðar.[19] Gosið hafði engin teljandi áhrif á afbókanir ferðamanna og tjón ferðaþjónustunnar á Íslandi er lítið.[20] Í Skaftárhreppi drápust níu kindur og margar kindur fengu ösku í augun.[21] Í hreppnum var grunnskóla og leikskóla Kirkjubæjarklausturs lokað til 26. maí.[22] Kennslu í grunnskólum Vestmannaeyja og Hvolsvallar var jafnframt aflýst 23. maí.[23]