Fara í innihald

Brugge

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skjaldarmerki Fáni
Upplýsingar
Hérað: Vestur-Flæmingjaland
Flatarmál: 138,4 km²
Mannfjöldi: 116.885 (1. janúar 2011)
Þéttleiki byggðar: 845/km²
Vefsíða: [1]
Lega í Belgíu

Brugge (til forna stundum nefnd Bryggja á íslensku) (franska: Bruges; þýska: Brügge) (stundum nefnd Bryggja á íslensku) er borg í Belgíu. Hún er jafnframt höfuðborg og stærsta borgin í flæmska héraðinu Vestur-Flæmingjalandi. Borgin er mikilvæg hafnarborg en tvær stórar hafnir eru í borginni, norðan miðborgarinnar og í Zeebrugge við Norðursjó. Miðborgin hefur lítið breyst síðan á miðöldum og er í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO. Íbúar eru 116 þúsund.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]
Eitt síkjanna við Rozenhoedkaai

Brugge er vestasta stórborgin í Belgíu og liggur norðvestast í landinu, aðeins 15 km frá Norðursjó og 15 km fyrir sunnan hollensku landamærin. Næstu stærri borgir eru Oostende til vesturs (25 km), Gent til austurs (45 km), Kortrijk til suðurs (45 km) og Dunkerque í Frakklandi til suðvesturs (70 km). Brugge er skipt upp í tvo meginhluta: Gamla borgin, sem er 15 km frá ströndinni, og höfnin sjálf við Norðursjó, sem er bær út af fyrir sig og heitir Zeebrugge. Önnur höfn, talsvert minni, er við miðborgina sjálfa. Frá miðborginni er hægt að sigla til Zeebrügge eftir Baldvinsskurðinum (Boudewijnkanaal), sem og til Oostende, sem einnig er hafnarborg við Norðursjó.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Fáni Brugge samanstendur af sjö láréttum röndum, fjórum rauðum og þremur hvítum. Merking þeirra er ekki þekkt. Fyrir miðju er blátt ljón, en það er sennilega ljón greifanna af Flæmingjalandi. Fáninn eins og hann er í dag var samþykktur 1986.

Skjaldarmerkið sýnir fánann í skjaldarformi. Skjaldarberar eru björn til hægri og ljón til vinstri. Neðst er borði með áletruninni SPQB, sem stendur fyrir Senatus PopulusQue Brugensis (ráð og fólk borgarinnar Brugge). Áletrunin er frá 17. öld og hermir eftir frægri skammstöfun Rómverja (SPQR). Skjaldarmerkið var formlega veitt 1819 og staðfest 1842. Síðustu breytingar á merkinu voru gerðar 1986.

Orðið Brugge er germanskt að uppruna og merkir upphaflega brú eða bryggja. Elsti rithátturinn er Bruggia (eða Bruccia), en önnur heiti finnast í skjölum, s.s. Bruggas, Brugis, Brugias, og þessu líkt. Rithátturinn Brugge kom fyrst fram 1116. Vegna fjölda síkja í borginni er Brugge gjarnan nefnd Feneyjar norðursins (eins og Amsterdam). Íbúar borgarinnar eru kallaðir Bruggelingen (Bryggjubúar). Gælunafn þeirra er Zotten (eða Brugse Zotten), sem merkir vitleysingarnir í Brugge. Þjóðsagan segir að þegar Maximilian I keisari hafi átt í stríði við Frakka, var hann handtekinn af eigin þegnum í Brugge 1488. Í varðhaldinu bannaði hann borgarbúum að halda markaði og hátíðir. Til að skaprauna keisaranum héldu borgarbúar hins vegar allstóra veislu og báðu síðan um leyfi til að halda markaði á ný, því annars yrði fangelsisbyggingin nýtt vitleysingjahús (zothuis). Þá svaraði keisari: ‚Lokið öllum hliðum í Brugge og þá breytist borgin öll í vitleysingjahús.‘ Gæluheitið Brugse Zotten er gjarnan notað enn í dag.

Saga Brugge

[breyta | breyta frumkóða]

Síðan á 2. eða 3. öld e.Kr. hefur þorp verið á núverandi borgarstæði, þar sem gallar og rómverjar bjuggu í sameiningu. Íbúarnir voru ekki bara bændur, heldur stunduðu einnig verslun, svo sem við England og aðra hluta Gallíu. Það var Baldvin járnhönd, stofnandi greifadæmisins í Flandri, sem reisti kastalavirki á staðnum um miðja 9. öld til varnar árásum víkinga (sem eyddu Antwerpen 836). Mikil byggð myndaðist í kringum virkið og hlaut Brugge almenn borgarréttindi þegar árið 1128. 1134 átti sér stað mikið stormflóð sem myndaði lítill fjörð úr Norðursjó, Het Zwin, sem náði nær alla leið til Brugge. Borgin varð því í einu vettvangi að hafnarborg og fóru verslunarmenn óðara að flytja út vefnaðarvörur en flytja inn ull frá Englandi og vín frá Frakklandi.

Hansaborgin

[breyta | breyta frumkóða]
Gömul hús við aðalmarkaðstorgið

Brugge hlaut víðtæk markaðsréttindi og dró að sér verslunarmenn víða að. 1253 gerði greifaynjan Margrét af Flandri samning við Hansakaupmenn frá ýmsum borgum. Hansasambandið reisti sér stór verslunar- og lager hús í borginni. Gífurleg velmegun fylgdi í kjölfarið og var Brugge næstu aldir ein mesta verslunarborg Niðurlanda. Hús verslunarættarinnar Van der Beurse var notað sem vöru- og verðbréfamarkað. Talið er að þaðan hafi orðið börsen (kauphöll) orðið til. Meðan á blómatíma borgarinnar stóð voru tveir enskir konungar í útlegð í Brugge: Játvarður IV og Ríkharður III, báðir á 15. öld. Tvær ástæður urðu til þess að Hansasambandið hætti verslun í Brugge. Í fyrsta lagi gerðu búrgundar, sem þá réðu héraðinu á 16. öld, verslunina erfiða með auknum álögum og kröfum. Í refsingarskyni setti Hansasambandið verslunarbann á borgina í þrjú skipti, sem reyndust borginni gífurlega erfið. Í öðru lagi fór fjörðurinn Zwin að grynnka. Loks fór svo að hann var ekki lengur skipgengur og er reyndar horfinn í dag. 1520 voru verslunarhús Hansasambandsins færð til Antwerpen, sem tók við sem helsta verslunarborg Niðurlanda. Hnignun borgarinnar stóð yfir næstu 300 árin, sem var á þeim tíma meðal fátækustu borga Flæmingjalands.

Nýrri tímar

[breyta | breyta frumkóða]
Kort af Brugge 1562 eftir Marcus Gerards

Brugge kom varla við sögu í stórstyrjöldum Evrópu næstu alda. 1524-1713 var borgin á valdi Spánverja, 1713-1795 á valdi Habsborgar og 1795-1815 á valdi Frakka. 1815 var konungsríki Niðurlanda stofnað en 1830 gerðu Belgar uppreisn. Brugge tók ekki þátt í þeirri uppreisn, en engu að síður lengi borgin í Belgíu, ekki Hollandi. Iðnvæðing 19. aldar fór nær algerlega framhjá Brugge. Þar af leiðandi myndaðist ekki mikill iðnaður í borginni. Það var ekki fyrr en í lok 19. aldar að Brugge komst á kortin á ný en nú sem ferðamannaborg. 1907 lagði Brugge nýja stórhöfn við Norðursjó, sem hlaut heitið Zeebrugge. Þar með var Brugge orðin að hafnarborg á ný. Höfnin hefur verið stækkuð í gegnum árin og er hún orðin meðal stærstu hafna Evrópu. 1987 átti sér stað stórslys í höfninni er ferjan Herald of free Enterprise lagðist á hliðina. 193 manns biðu bana. Árið 2000 var miðborgin öll, sem verið hefur nánast óbreytt í langan tíma, sett á heimsminjaskrá UNESCO.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Aðalknattspyrnulið borgarinnar eru tvö: FC Brugge og Cercle Brugge. FC Brugge hefur lengi verið sigursælasta knattspyrnufélag borgarinnar. Það hefur þrettán sinnum orðið belgískur meistari (síðast 2005), tíu sinnum bikarmeistari (síðast 2007) og einu sinni deildarbikarmeistari. Liðið komst einnig í úrslit í Evrópukeppni meistaraliða 1976 en tapaði úrslitaleiknum fyrir Liverpool. Cercle Brugge hefur þrisvar orðið belgískur meistari (1911, 1927 og 1930) og tvisvar bikarmeistari (1927 og 1985). Tveir Íslendingar leika sem stendur með félaginu: Arnar Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen.

De ronde van Vlaanderen er hjólreiðakeppni og lang vinsælasta einsdagskeppnin í Belgíu. Hjólaðir eru um 400 km með viðkomu í helstu borgum Flæmingjalands og víðar. Keppnin fer fram í apríl árlega og er Brugge ávallt rásmark keppninnar.

Nokkur úthverfi Brugge viðhéldu vinabæjasambandi við ýmsar borgir. En þegar þær sameinuðust Brugge lokaði borgin á öll þessi sambönd. Í dag er Brugge aðeins með einn vinabæ:

Frægustu börn borgarinnar

[breyta | breyta frumkóða]

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Klukkuturninn er einkennismerki borgarinnar

Miðborg Brugge er í heild sinni á heimsminjaskrá UNESCO, sökum gamalla og sögufrægra bygginga. Miðborgin afmarkast af ánni Leie sem hringum í kringum hana. Einnig eru talsvert mörg síki í miðborginni.

  • Kapella hins heilaga blóðs er stórfögur bygging og alls ekki lík kirkju. Hún hefur að geyma blóð úr líkama Jesú.
  • Frúarkirkjan er gotnesk kirkja í borginni. Aðalhluti hennar var reistur 1210-30 og er meðal allra elstu tígulsteinabyggingum í Flæmingjalandi. Að auki er hún næsthæsta tígulsteinakirkja heims. Í grafhvelfingu kirkjunnar eru steinkistur Karls hins djarfa, greifa af Búrgund, og dóttur hans Maríu af Búrgund. Eitt mesta listaverk kirkjunnar er Madonnulíkneski eftir Michelangelo frá 1503.
  • Klukkuturninn á aðalmarkaðstorginu er eitt helsta kennileiti borgarinnar. Hann var reistur 1240 og hýsti þá skjalasafn borgarinnar. Í miklum bruna 1280 eyðilögðust öll skjöl og var turninn endurreistur. Efsti hluti hans, átthyrningnum, var bætt við 1483-87. Í turninum eru 47 bjöllur sem samtals vega 27,5 tonn.
  • Gamla ráðhúsið í Brugge er eitt elsta ráðhús Niðurlanda sem enn stendur. Það var reist snemma á 15. öld og vígt 1421. Það er elsta bygging í síðgotneskum stíl í Flæmingjalandi og Brabant. Húsið brann 1887 og endurgert 1895-1905. Húsið er enn notað sem ráðhús í dag.
  • Gamli Jóhannesarspítalinn (Oud Sint-Janshospitaal) er frá miðöldum, en elsti hlutinn er frá 13. öld. Á 19. öld flutti hann í nýtt hús, en gamli spítalinn er í notaður fyrir ráðstefnur og viðburði í dag. Í byggingunni eru nokkur málverk, þar á meðal eftir Picasso.
  • Gamli borgarmúrinn er löngu horfinn í dag, en þó standa eftir fjögur gömul borgarhlið:

Smedenpoort frá 14. öld, Ezelpoort frá 14. öld, Kruispoort frá 13. öld og Gentpoort frá 13. öld.