Yma Sumac
Yma Sumac (13. september, 1922 (fæðingarvottorð)[1][2] eða 10. september, 1922 (seinni tíma skjöl)[3][4][5] – 1. nóvember, 2008) var perúsk söngkona (coloratura sópran) og ein af frægustu flytjendum exotíkatónlistar á 6. áratugnum.
Yma Sumac hét Zoila Augusta Emperatriz Chávarri del Castillo og fæddist í Cajamarca í Perú. Hún hóf tónlistarferil með því að syngja suðuramerísk þjóðlög fyrir upptöku á vegum Odeon í Buenos Aires árið 1942. Sama ár giftist hún tónskáldinu Moisés Vivanco og tók upp sviðsnafnið Imma Sumack, sem síðar varð Yma Sumac. Þau ferðuðust um Suður- og Mið-Ameríku og fluttu loks til New York-borgar árið 1946 þar sem þau komu fram sem Inca Taqui Trio, ásamt frænku Sumac, Cholita Rivero. Les Baxter framleiðandi hjá Capitol Records heyrði í henni og framleiddi fyrstu breiðskífu hennar, Voice of the Xtabay árið 1950. Platan seldist í 500.000 eintökum og náði 1. sæti á lista Variety yfir metsöluplötur ársins 1950. Ferill hennar náði hátindi sínum á 6. áratugnum. Hún kom oft fram í Carnegie Hall og Roxy Theatre, lék í söngleikjum og kvikmyndum, og gaf út sjö breiðskífur til 1961. Eftir það kom hún fram á tónleikum með hléum og mörg lög hennar áttu endurkomu síðar, eins og „Ataypura“ sem heyrðist í The Big Lebowski og „Gopher Mambo“ sem heyrðist í Confessions of a Dangerous Mind. Hún lést á hjúkrunarheimili í Los Angeles, 86 ára að aldri.
Sumac sló í gegn á heimsvísu meðal annars vegna hins mikla raddsviðs sem hún bjó yfir. Samkvæmt sumum heimildum var hún fær um fimm áttundir,[6] en upptökur benda til þess að hún hafi náð yfir fjóra og hálfa áttund á hátindi söngferilsins.[1][7] Til samanburðar má nefna að þjálfaður söngvari nær oftast um það bil þremur áttundum.[8] Yma Sumac seldi yfir 40 milljón plötur og er ein af mest seldu rómönsku söngvurum heims og söluhæsti perúski tónlistarmaður allra tíma.[9][10][11]
Í einni tónleikaupptöku af laginu „Chuncho“ fer söngur hennar yfir fjórar og hálfa áttund, frá B2 að G#7. Hún gat sungið bæði lágar baritónnótur og nótur sem voru hærri en hefðbundin sópranrödd ræður við. Mörg af lögum hennar gengu einmitt út á að sýna þetta mikla raddsvið. Hún virðist líka hafa getað sungið „tvíraddað“.[12]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Martin, Douglas (4. nóvember 2008). „Yma Sumac, Vocalist of the Exotic, Dies at 86“. The New York Times. Sótt 14. september 2019.
- ↑ „The Yma Sumac Timeline“. yma-sumac.com. Sótt 14. september 2019.
- ↑ Petition for Naturalization as a United States Citizen for Emperatriz Chavarri de Vivanco (#176380), filed October 8, 1954, indicates she was born on September 10, 1922 at Ichocan, Cajamarca, Peru, ancestry.com; sótt 20. febrúar, 2018.
- ↑ „Ancestry Library Edition“. search.ancestrylibrary.com.
- ↑ „Ancestry Library Edition“. www.ancestrylibrary.com.
- ↑ David Richards, "The Trill of a Lifetime", The Washington Post (p. B1), March 2, 1987; accessed February 20, 2018.
Quote: "a voice that shot up five octaves" - ↑ Dennis McLellan (3. nóvember 2008). „Yma Sumac, 'Peruvian songbird' with multi-octave range, dies at 86“. Los Angeles Times. Sótt 10. nóvember 2017.
- ↑ „Why is a four octave vocal range so rare?“. BBC News Magazine. 5. nóvember 2008. Sótt 10. nóvember 2017.
- ↑ Mendoza, Zoila S. (28. júní 2021). „Yma Sumac: The Extraordinary Peruvian Singer and Her Paradoxical Career“. Oxford Research Encyclopedia of Latin American History (enska). doi:10.1093/acrefore/9780199366439.013.980. Sótt 9. janúar 2022.
- ↑ „Yma Súmac: the greatest Peruvian voice of all time featured on the new iPhone12“. peru.info (bandarísk enska). Sótt 9. janúar 2022.
- ↑ „Yma Súmac, la última princesa inca“. Fundación BBVA Perú (spænska). Sótt 25. desember 2021.
- ↑ „Secret Museum of the Air, October 6, 2002 program (5:15–5:57)“. WFMU. Sótt 28. október 2019.