Fara í innihald

Wei Zhongxian

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Wei Zhongxian (1568 - 12. desember 1627) var kínverskur hirðgeldingur sem bjó í Kína seint á tímum Ming keisaraættarinnar. Hann er talinn af flestum sagnfræðingum valdamesti og alræmdasti geldingur í sögu Kínverja. [1] Hann er þekktastur fyrir þjónustu sína í hirð Tianqi keisarans (r. 1620–27), og virðast völd hans hafa teygt sig jafn langt eða jafnvel víðar en völd sjálfs keisarans.

Uppvaxtarár (1568-1585)

[breyta | breyta frumkóða]

Lítið er vitað um líf Wei áður en hann gerðist hirðmaður. Wei er talinn hafa verið ólæs, sem gæti verið vísbending um að hann hafi fæðst í bóndafjölskyldu eða kaupmannastétt. Talið er að hann hafi verið fæddur árið 1568 í Suning-sýslu (100 mílur suðaustur af Peking), að hann hafi gifst stúlku með eftirnafnið Fang og að hann hafi verið geldur 21 ára að aldri (Söguannálar Ming fullyrða að hann hafi gert það til að komast undan fjárhættuspilaskuld). [2] Vegna frægðar sinnar í kínverskri menningu undanfarin 400 ár hafa ýmsar sögur um ævi hans komið fram, sem draga upp þá mynd að hann hafi verið með glæpsamlegar hneigðir og verið spilafíkill.

Þjónusta við hirðina (1585-1619)

[breyta | breyta frumkóða]

Í gegnum tengsl móður sinnar gat Wei fengið inngöngu í hirð Forboðnu borgarinnar . [3] Sem hirðmaður náði Wei hægt og rólega að komast í mjúkinn hjá hinum ýmsu embættismönnum í ýmsum lægri, óopinberum stöðum. Árið 1605 fékk hann það starf að þjóna til borðs fyrir Lafði Wang og son hennar Zhu Youxiao, sem að lokum varð keisari undir nafninu Tianqi . [2] Meðan hann sinnti þessari stöðu myndaðist með honum náið samband við barnapíu Zhu Youxiao, frú Ke . Þegar Zhu Youxiao varð eldri varð hann ákaflega háður bæði frú Ke og Wei Zhongxian og virðist hafa litið á þau sem foreldra sína eftir dauða móður sinnar árið 1619.

Wei á valdastóli (1620-1624)

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar Wanli keisarinn lét lífið og erfingi hans, Taichang keisarinn, lést einungis mánuði síðar árið 1620, myndaðist stjórnarkreppa meðan skrifræðið leitaði að hentugum erfingja. Zhu Youxiao var enn ekki fullvaxta (15 á þessum tímapunkti) og féll hann undir forræði Lafði Li, eftirlætis hjákonu Taichang keisarans, föður Zhu. Zhu Youxiao var lítt hrifinn af henni, [2] en þurfti ekki að þola yfirumsjón hennar lengi því Donglin fylking konfúsíanskra embættismanna undir forystu Yang Lian réðst inn í forboðnu borgina og létu útnefna Zhu Youxiao fullgildan keisara. [4] Um leið og lafði Li hafði verið vikið frá völdum hindraði fátt Wei og frú Ke að hafa áhrif á ákvarðanir keisarans.

Fljótlega eftir að Zhu Youxiao hafði verið hylltur keisari kom í ljós að hann hafði mun meiri áhuga á trésmíði og byggingarframkvæmdum en völdum; Hann eftirlét slík mál í höndum Wei og annarra hirðmeistara. [5] Þjónusta Wei við Tianqi keisarann borgaði sig fljótt - árið 1625 var hann orðinn ráðherra austur-varna, og hafði yfir að ráða her með eitt þúsund einkennisklæddum lögreglumönnum með höfuðstöðvar í höfuðborginni. Sem verndari Tianqi keisara (og í raun föðursígildi), varð Wei að lokum ábyrgur fyrir því að koma skipunum keisarans til skila, [6] og allar fyrirskipanir úr hirðinu komu út í nafni keisarans og Wei, „varnaráðherra.“ Fjórtán ættingjar Wei fengu ýmist aðalstign eða arfgenga stöðu innan hersins; aðrir jafnvel háttsettar embættisstöður. [7] Eftir því sem vald Wei óx voru mörg hof byggð honum til heiðurs sem angraði mjög konfúsíska fræðimenn. [1]

Donglin atvikin (1624-1627)

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir langa valdatíð Wanli-keisarans (1563-1620) hafði fræðimannafylkingin Donglin vonast til þess að keisarararnir Taichang og Tianqi myndu reynast „konfúsískir herramenn“. Þegar Tianqi keisari reyndist jafn áhugalaus um keisaralegar skyldur snar líkt og afi hans hafði verið og ólæs geldingur virtist í raun hafa orðið valdamesta manneskja keisaradæmisins, ákvað sama fylking og hafði komið keisaranum til valda að aðgerða hennar væri þörf. Keisaralegi ritskoðarinn Zhou Zongjian sótti Wei Zhongxian til saka í júlí 1622 og bað keisarann að reka hann í útlegt. [8] Árið 1624 lét Yang Lian senda minnisblað til keisarans þar sem hann fordæmdi Wei fyrir 24 glæpi. Fræðimenn álíta að sumir þeirra hafi verið uppspuni. Hvorugar tilraunir báru árangur og eina sem fræðimennirnir uppskáru var andúð Wei á Donglin-fylkingunni.

Sem yfirmaður Austan-varna var vald Weis til að handtaka og sakfella andófsmenn tæknilega séð einvörðungu bundið við bændur og kaupmenn. Handtökur og yfirheyrslur embættismanna þurfti að gera í gegnum annað ráðuneyti undir stjórn Xu Xianchun. Raunveruleg uppspretta valds Wei voru tengls hans við Keisarann, en hann gat skipað í nafni hans og stýrt upplýsingaflæði til hans. [9] Xu Xianchun handtók sex af leiðtogum Donglin flokksins árið 1625, þar með talinn Yang Lian, og ásakaði um að hafa sólundað almannafé. Eftir langar yfirheyrslur og pyntingar létust allir sex. Sjö aðrir Donglin fræðimenn, Zhou Zongjian meðal þeirra, voru teknir af lífi árið 1626. Á tveggja ára tímabili 1625-26 voru hundruðir annarra Donglin-fylgjenda handteknir eða reknir á brott. [10] Þrátt fyrir að þátttaka Wei í þessum handtökum og drápum sé ekki opinber, þá má telja öruggt í ljósi náins sambands hans við keisarann að hann hafi átt einhvern hlut í máli.

Valdmissir og sjálfsvíg (1627)

[breyta | breyta frumkóða]

Tianqi-keisarinn lést árið 1627 og þótt margir bjuggust við valdaránstilraun frá Wei gerðist ekkert slíkt. Samkvæmt Li Sunzhi (Donglin-fylgjanda) hafði Wei áður reynt að sannfæra Zhang keisaraynju um að ættleiða frænda sinn, Wei Liangqing, í því skyni að hann gæti stýrt í gegnum hann áfram sinni á hásætinu. Keisaraynjan hafnaði boðinu. [11] Þar sem enginn af þremur sonum Tianqi keisara var fullorðinn, veitti keisarinn yngri bróður sinn, Zhu Youjian, erfðaréttinn, sem varð Chongzhen keisari 2. október 1627.

Chongzhen keisarinn hugðist ólíkt bróður sínum stýra án milligöngumanna, en þrátt fyrir það rak hann ekki Wei umsvifalaust. Þegar Wei bauðst til að segja af sér einungis sex dögum eftir valdatöku Chonzhen hafnaði keisarinn boðinu. Engu að síður ákvað Wei mánuði síðar að banna að fleiri hof yrðu reist honum til heiðurs. [12] Á næstu mánuðum bárust margvíslegar kvartanir um Wei til keisarans. Eftir að hunsa þær fyrstu ákvað keisarinn loks að hefja skyldi rannsókn á spillingu geldingsins. Til að bregðast við þessu sendu meira en eitt hundrað (tala óviss) minnisblöð þar sem þeir fordæmdu Wei. 8. desember gaf keisarinn loks út tilkynningu um að Wei skyldi vera sendur í útlegð til Fengyang. (Nú þekkt sem Anhui fylki í Kína). [13]

Vegna viðvarana um að Wei gæti reynt að fremja valdarán með stuðningsmönnum sínum sem nú voru að missa embætti sín þegar hans naut ekki við ákvað keisarinn að senda varðlið til að handtaka hann. 13. desember bárust Wei fregnir um handtökuskipan hans. Hann var þá staddur á áningarstað 150 mílum frá Beijing. Wei og aðstoðarmaður hans ákváðu þá að hengja sig með beltum sínum. Restin af fylgismönnum hans flúðu áður en varðliðið náði þangað. [14]

Chongzhen keisarinn lét hreinsa burtu alla fylgismenn Wei. Árið 1628 var afskræmt lík hans sýnt öllum í fæðingarþorpi sem dæmi um hvað gerist þegar fólk óhlýðnast keisaranum. [15] Árið 1629 hafði 161 af félögum Wei verið refsað af keisara Chongzhen; og 24 dæmdir til aftöku. [16] Frú Ke var pyntuð til bana 11 dögum eftir andlát Wei.

Menningararfleifð

[breyta | breyta frumkóða]

Eftir dauða sinn hefur Wei verið kennt um mikið af hörmungum Tianqi tímabilsins. Í hefðbundinni kínverskri sagnfræði er ekki litið svo á að ofsóknir hans á Donglin-fylkingunni sé aðalbrotið heldur mun frekar hvernig Wei tók völd til sín sem áttu að tilheyra keisaranum einum. [17] Strax nokkrum mánuðum eftir dauða hans voru skrifaðar sögur og leikrit upp úr ævi hans sem náðu til stór hluta almennings. [18] Árið 2009 var gerð sjónvarpsþáttaröð í kínversku sjónvarpi sem um ævi Wei Zhongxian og frú Ke sem sýndi þau og Tianqi keisarann í mjög neikvæðu ljósi.[19]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 “Wei Zhongxian,” ‘’Encyclopædia Britannica. Encyclopædia Britannica Online Academic Edition’’. Encyclopædia Britannica Inc, 2014.
  2. 2,0 2,1 2,2 Dardess 2002
  3. Tsai 1996
  4. . ISBN 9780521243322. {{cite book}}: |title= vantar (hjálp)
  5. Dardess 2002
  6. Dardess 2002
  7. Dardess 2002
  8. Dardess 2002
  9. Dardess 2002
  10. Dardess 2002
  11. Dardess 2002
  12. Dardess 2002
  13. Dardess 2002
  14. Dardess 2002
  15. Tsai 1996
  16. Dardess 2002
  17. Wu 2009
  18. Wu 2009
  19. Sogou. 电视剧:天下