Fara í innihald

Viðeyjarklaustur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ljósmynd sem sýnir Viðeyjarstofu.

Viðeyjarklaustur var munkaklaustur í Viðey á Kollafirði og var af Ágústínusarreglu. Það er ýmist talið stofnað 1225 eða 1226 og er oftar miðað við síðara árið því að það ár var klaustrinu settur máldagi. Þorvaldur Gissurarson stofnaði klaustrið með tilstyrk Snorra Sturlusonar og hvatningu Magnúsar biskups, bróður síns. Það var fyrsta klaustrið í Sunnlendingafjórðungi og má gera ráð fyrir að einn hvatinn til klausturstofnunar hafi verið sá að menn vildu halda sáluhjálpargjöfum og áheitum í heimahéraði.

Þorvaldur keypti Viðey, lagði hana til stofnunar klaustursins og settist sjálfur í það og var forstöðumaður en kallaðist þó ekki ábóti eða príor. Fyrsti príor klaustursins var Styrmir Kárason hinn fróði en fyrsti ábótinn var Arnór Digur-Helgason.

Viðey var menntasetur, vitað er að þar var ágætur bókakostur, eins og kemur m.a. fram í bókaskrá í Vilkinsmáldaga. Þar voru líka skrifaðar ýmsar bækur. Algengt var að aldraðir höfðingjar gengju í klaustur síðustu æviár sín og vitað er að Gissur Þorvaldsson hafði hug á að gerast munkur í Viðey en entist ekki aldur til.

Þegar Magnús biskup vígði klaustrið gaf hann því tekjur sínar af svæðinu milli Botnsár og Hafnarfjarðar. Viðeyjarklaustur var ekki ríkt í fyrstu en auðgaðist fljótt, eignaðist margar jarðir, einkum í nágrenni klaustursins og á Suðurnesjum, og varð eitt ríkasta klaustur landsins. Í Viðey var rekið stórbú og klaustrið hafði einnig tekjur af æðarvarpi, af laxveiði í Elliðaám og af útgerð, en það átti marga báta í ýmsum verstöðvum.

Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup aflagði Ágústínusarreglu í Viðey 1344 og klaustrið varð aðsetur Benediktsmunka til 1352 en þá tók Ágústínusarreglan aftur við.

Klaustrið starfaði með blóma til 1539 en á hvítasunnudag það ár kom Diðrik frá Minden, umboðsmaður hirðstjóra konungs á Íslandi, og hertók klaustrið með mönnum sínum, sem rændu og rupluðu, misþyrmdu munkunum og ráku þá burt. Jón Arason biskup á Hólum fór suður í herför 1550, lagði Viðey undir sig og rak burt hirðstjórann. Laurentius Mule, endurreisti klaustrið og lét reisa virki í kringum það. Endurreisnin stóð þó ekki lengi því Jón biskup var handtekinn um haustið og tekinn af lífi ásamt sonum sínum. Klaustrið var endanlega lagt af við siðbreytinguna. Viðey komst í eigu konungs eins og aðrar klaustureignir.

Ábótar í Viðeyjarklaustri

[breyta | breyta frumkóða]
  • Arnór Helgason (Digur-Helgason) var fyrsti ábóti klaustursins sem fyrr segir og var vígður 1247 en dó 1249. Hann var bróðir Ögmundar Helgasonar í Kirkjubæ.
  • Runólfur tók þá við og hlaut ábótavígslu 1250. Hann stýrði klaustrinu í nærri hálfa öld, eða til dauðadags 1299. Stundum er hann talinn hafa verið Ólafsson en í samtímaheimildum er hann sagður bróðir Hafur-Bjarnar Styrkárssonar og er þess meðal annars getið í Sturlungu að þeir hafi báðir særst í Bæjarbardaga 1237, þar sem þeir voru í liði Þorleifs úr Görðum.
  • Andrés drengur er næsti ábóti í Viðey kallaður og tók hann við 1305 eftir að klaustrið hafið verið ábótalaust í nokkur ár. Hann hafði verið munkur í Þykkvabæjarklaustri. Hann gegndi embættinu til 1325, þegar Jón Halldórsson biskup setti hann af.
  • Helgi Sigurðsson var þá settur ábóti í staðinn. Hann kom einnig úr Þykkvabæjarklaustri. Hann dó í árslok 1343 eða 1344. Eftir lát hans aflagði Jón biskup Sigurðsson Ágústínusarreglu en gerði klaustrið að Benediktsklaustri og skipaði Sigmund Einarsson príor. En 1352 breytti Gyrðir Ívarsson biskup aftur til fyrra horfs.
  • Björn Auðunarson varð þá ábóti og gegndi því embætti til dauðadags 1364.
  • Jón nokkur, sem verið hafði munkur í Þykkvabæ, var vígður ábóti 1364 og dó 1369 eða 1370.
  • Jón Guðmundsson var vígður ábóti 1370 og dó 1379.
  • Gísli hét næsti ábóti, var vígður 1379 en dó sama ár.
  • Páll, sem kallaður var kjarni, var vígður 1379. Hann dó í Svartadauða 1403.
  • Bjarni Andrésson var vígður ábóti í Viðey 1405 af Vilchin Skálholtsbiskupi. Hann dó árið 1428.
  • Steinmóður Bárðarson er næsti ábóti sem vitað er um í Viðey og var orðinn það 1444. Hann var officialis í Skálholtsbiskupsdæmi 1448 og aftur 1457. Hann dó 1481.
  • Jón Árnason var orðinn ábóti 1490 og tók þá þátt í að samþykkja Píningsdóm á alþingi. Sagt er að hann hafi farið með 60 manna lið til Hafnarfjarðar og lagt til atlögu við 300 Englendinga sem rænt höfðu fiski frá honum; helmingur Íslendinganna lagði á flótta er þeir sáu liðsmuninn en ábóti réðist að Englendingum með 30 manna lið og hafði betur. Jón ábóti dó í plágunni síðari 1494.
  • Árni Snæbjarnarson, sem áður hafði verið Skálholtsráðsmaður og síðan officialis, varð ábóti 1496 og dó 1515.
  • Ögmundur Pálsson, síðar biskup, varð ábóti haustið 1515. Stefán Skálholtsbiskup heimsótti klaustrið 1519 og í veislu sem haldin var þar drap frændi biskups systurson Ögmundar ábóta. Biskup lofaði þá að sögn ábótanum að hann yrði biskup eftir sig og þegar Stefán biskup dó seinna sama ár var Ögmundur valinn biskup.
  • Helgi Jónsson, prestur í Hvammi í Norðurárdal, varð ábóti í Viðey 1522. Hann dó 1527 eða 1528.
  • Gísli nokkur var orðinn ábóti 1528 en sagði af sér 1533.
  • Alexíus Pálsson var síðasti ábóti í Viðey og var vígður 1533. Hann hafði áður verið prestur á Þingvöllum. Þegar Diðrik frá Minden tók undir sig klaustrið 1539 fór Alexíus ábóti að Hólum í Grímsnesi og bjó þar til dauðadags 1568. Jón Arason setti hann aftur yfir klaustrið þegar hann hafði rekið hirðstjórann þaðan 1550 og vígt kirkju og klaustur að nýju en það stóð stutt.
  • „Um klaustrin á Íslandi. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags, 8. árgangur 1887“.