Tvídægra
Tvídægra er heiðaflæmi á milli norðanverðs Borgarfjarðarhéraðs og Vestur-Húnavatnssýslu. Arnarvatnsheiði liggur öðrum megin við hana, Holtavörðuheiði hinum megin. Heiðin er fremur flöt og víða votlend og illfær, mikið um tjarnir og vötn en lágar hæðir og holt á milli. Margar ár og lækir renna frá vötnunum á heiðinni og í flestum þerira er einhver silungsveiði.
Tvídægra skiptist í þrjár heiðar, Húksheiði vestast, þá Núpsheiði og síðan Aðalbólsheiði, og eru þær kenndar við innstu bæina í Miðfjarðardölum: Húk í Vesturárdal, Efra-Núp í Núpsdal og Aðalból í Austurárdal.
Um Tvídægru var áður fjölfarin leið en vandrötuð og lentu ferðamenn þar oft í hrakningum. Á Tvídægru urðu Heiðarvíg, sem segir frá í Heiðarvíga sögu. Þar lenti líka Kolbeinn ungi Arnórsson í hrakningum með menn sína á Sturlungaöld.