Tasmanía
Tasmanía er eyja suður af Ástralíu. Tasmaníufylki er eina fylki Ástralíu sem ekki er á meginlandinu en því tilheyra auk sjálfrar Tasmaníu 334 smáeyjar. Tasmanía er 64 519 ferkílómetrar að stærð eða rúmlega helmingur af stærð Íslands. Hæsti punktur Tasmaníu er tindur fjallsins Mount Ossa í 1617 metra hæð yfir sjó. 240 km eru frá Tasmaníu til ástralska meginlandsins þar sem styst er. Á Tasmaníu býr tæp hálf milljón manna og kallast höfuðborgin Hobart. Nafn eyjunnar er dregið af nafni hollenska landkönnuðarins Abel Tasman sem kom þangað fyrstur Evrópumanna. Evrópumenn settust þar fyrst að árið 1803 og aðeins 22 árum síðar, eða 1825, varð eyjan að sérstakri sjálfstjórnarnýlendu Breta. Stór hluti eyjunnar er jökulsorfið fjalllendi sem er að mestu leyti skógi vaxið. Helstu atvinnuvegir Tasmaníu hafa löngum verið skógarhögg og námagröftur. Þessir atvinnuvegir eiga þó undir högg að sækja í dag þar sem umhverfisvernd er mjög mikil á eyjunni og þar eru stórir þjóðgarðar. Þar var einmitt fyrsti græningjaflokkur heims, Sameinaði Tasmaníuhópurinn, stofnaður árið 1971 til að berjast gegn virkjunarframkvæmdum. Mary Donaldson, drottning Danmerkur, kemur frá Tasmaníu.