Fara í innihald

Snóksdalur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Snóksdalskirkja, reist 1875.

Snóksdalur er bær og kirkjustaður í Miðdölum í Dalasýslu, þekktastur af því að þar bjó Daði Guðmundsson, einn helsti andstæðingur Jóns Arasonar biskups, á 16. öld.

Kirkja hefur verið í Snóksdal að minnsta kosti frá því snemma á þrettándu öld og er hennar getið í Sturlungu. Kirkjan var helguð heilögum Stefáni og var í bóndaeign. Í elstu máldögum kirkjunnar, frá 13. og 14. öld, er kveðið á um að þar skuli vera bæði prestur og djákni.

Guttormur Ormsson bóndi í Þykkvaskógi í Miðdölum, sonur Orms Snorrasonar og faðir Lofts Guttormssonar ríka, var veginn í Snóksdal 1381. Í lok 15. aldar bjó Guðmundur Finnsson í Snóksdal. Sonur hans, Daði Guðmundsson, bjó síðan stórbúi á jörðinni og auðgaðist mjög. Hannes Björnsson, dóttursonur Daða, bjó þar seinna og afkomendur hans mjög lengi síðan. Í Snóksdalskirkju er enn klukka sem Hannes gaf henni árið 1595 og fleiri merkir gripir eru í kirkjunni, meðal annars kaleikur frá 16. öld.

Núverandi kirkja er byggð árið 1875 og var gerð upp í samstarfi við Húsafriðunarnefnd á árunum 1975-1978.

  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.