Fara í innihald

Sigurður munnur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Sigurður munnur eða Sigurður 2. Haraldsson (11331155) var konungur Noregs frá 1136, allan tímann ásamt Inga hálfbróður sínum og frá 1142 einnig ásamt Eysteini hálfbróður þeirra.

Þeir bræður voru synir Haraldar gilla og móðir Sigurðar var Þóra Guttormsdóttir, frilla Haraldar. Barnungur var hann settur í fóstur hjá höfðingjanum Sáða-Gyrði Bárðarsyni í Þrændalögum. Þegar Sigurður var þriggja ár drap Sigurður slembidjákn föður hans og voru þá bræðurnir Sigurður og Ingi, sem var á öðru ári, kjörnir konungar. Næstu árin voru skærur milli Sigurðar slembidjákns og konunganna ungu - eða höfðingjanna sem stýrðu landinu í nafni þeirra. Lauk þeim með orrustu við Hólminn grá árið 1139, þar sem Sigurður var drepinn. Næstu árin ríkti friður í landinu en 1142 kom Eysteinn Haraldsson, elsti sonur Haraldar gilla, sem alist hafði upp á Bretlandseyjum, til landsins og krafðist konungsnafnbótar. Varð úr að hann var tekinn til konungs með bræðrum sínum og raunar einnig yngsti hálfbróðirinn, Magnús, sem var þá sjö ára og dó þremur árum síðar.

Eftir að höfðinginn Gregoríus Dagsson varð helsti ráðgjafi Inga konungs sló fljótt í brýnu með Inga og bræðrum hans. Þeir ætluðu að hittast á sáttafundi í Björgvin 1155 en þegar Sigurður kom þangað réðust menn Inga að honum og drápu hann. Tveimur árum seinna var svo Eysteinn drepinn af mönnum Inga.

Snorri Sturluson lýsir Sigurði svo í Heimskringlu að hann hafi verið „maður mikill og sterkur, vasklegur maður sýnum, jarpur á hár, munnljótur og vel að öðrum andlitssköpum. Allra manna var hann snjallastur og gervastur í máli.“ Hann virðist hafa haft kvenhylli því þrátt fyrir ungan aldur lét hann eftir sig allmörg börn og var raunar ekki nema 14 ára þegar Hákon herðabreiður sonur hans fæddist.

  • Fyrirmynd greinarinnar var „Sigurd Munn“ á norsku útgáfu Wikipedia. Sótt 31. desember 2009.
  • „Heimskringla“.


Fyrirrennari:
Haraldur gilli
Noregskonungur
með Inga krypplingi og Eysteini Haraldssyni (frá 1142)
(1136 – 1155)
Eftirmaður:
Ingi krypplingur
Eysteinn Haraldsson