Otto von Rantzau
Otto Manderup von Rantzau (22. maí 1719 – 2. október 1768) var danskur greifi og embættismaður sem var stiftamtmaður yfir Íslandi frá 1750 til dauðadags en kom þó aldrei til landsins.
Rantzau var sonur Christians Rantzau greifa (d. 1771), sem var á sinni tíð einn æðsti embættismaður Danmerkur og meðal annars landstjóri í Noregi um tíma, og konu hans Eleonore Hedevig von Plessen. Hann fékk mjög góða menntun og dvaldist meðal annars í Genf og Göttingen við nám. Hann var skipaður dómari í Hæstarétti Danmerkur 1742, 23 ára að aldri, gegndi því embætti til dauðadags og var nokkrum sinnum dómforseti. Frá 10. september 1750 var hann jafnframt stiftamtmaður Íslands og Færeyja. Hann hlaut kammerherratitil 1743 og varð leyndarráð 1759. Hann var þekktur fyrir áhuga sinn á vísindum og listum, var félagi í danska Vísindafélaginu og hafði mikinn áhuga á leiklist og studdi hana sérstaklega.
Fyrirrennari Rantzaus, Henrik Ochsen, hafði embættið á hendi í tuttugu ár án þess að koma til Íslands en þegar Rantzau varð stiftamtmaður að honum látnum var sett það skilyrði fyrir veitingunni að hann flytti til landsins. Hann vildi þó ekki setjast að á Bessastöðum og var þá ákveðið að byggja hús handa honum í Viðey og skyldi Skúli Magnússon landfógeti einnig búa þar. En þegar bygging Viðeyjarstofu hófst 1752 hafði Rantzau fengið sig leystan undan þeirri skyldu að flytja og Skúli fékk því húsið einn til búsetu.
Þótt Rantzau kæmi aldrei til landsins hefur hann samt verið talinn einn af hinum hæfari stiftamtmönnum og Íslendingum einkar velviljaður og er í annálum kallaður „sá góði stiftamtmaður“. Hann átti meðal annars stóran þátt í því, með tilstyrk danska Vísindafélagsins, að landlæknisembætti var komið á fót á Íslandi og Bjarni Pálsson var skipaður landlæknir. Þeim Rantzau og Skúla fógeta var vel til vina og sagði Skúli að í Kaupmannahöfn ættu Íslendingar marga óvini en einnig nokkra vini, og tiltók þá Thott greifa og Rantzau stiftamtmann og sagði að þeir hefðu „sýnt og sannað að þeir væru Íslandsvinir í orði og verki,“ og er Rantzau líklega einn hinna fyrstu sem nefndur var Íslandsvinur. Magnús Ketilsson sýslumaður sagði líka um Rantzau að honum látnum að hann hefði verið „sannur Islands Patron“.
Rantzau dó tæplega fimmtugur og mælti svo fyrir í erfðaskrá sinni að Íslendingar skyldu einir bera lík sitt til grafar og sá fyrir fé til þess að þeir gætu drukkið erfi sitt.
Kona hans (gift 1754) var Eibe Margrethe von Levetzow (1735 – 1791).