Fara í innihald

Lífspekifélagið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Merki guðspekinnar blandar saman ýmsum gömlum trúartáknum.
Hús lífspekifélagsins í Reykjavík.
Helena Blavatsky, stofnandi guðspekihreyfingunnar.

Lífspekifélagið (áður Guðspekifélagið; á ensku: Theosophical Society) er alþjóðleg hreyfing sem helgar sig dulspekitrúnni guðspeki.

Hin rússneska Helena Blavatsky stofnaði hreyfinguna um guðspeki árið 1875 í New York-borg. Á þeim tíma voru dulspeki og spíritismi vinsælar hreyfingar. Trúarhreyfing hennar hélt því fram að til væri ævafornt bræðralag vitringa sem byggju yfir dulrænum mætti. Vitringarnir væru til um heim allan, en höfuðstöðvar þeirra væru í Tíbet. Samkvæmt trú guðspekinga vilja vitringarnir deila speki sinni, sem mun einn daginn vera æðri öllum trúarbrögðum. Guðspekingar trúa á endurholdgun eftir dauðan og karma. Sjálfir líta guðspekingar ekki á hreyfingu sína sem trúarbrögð.

Eftir að Helena Blavatsky lést klofnaði hreyfingin í tvennt. Einn hópur er með höfuðstöðvar í Chennai á Indlandi, en hinn er með höfuðstöðvar í Kaliforníu. Íslandsdeild félagsins tilheyrir þeirri hreyfingu sem er í Indlandi.

Guðspekifélagið stofnaði útibú í Reykjavík 1912 en Íslandsdeild Guðspekifélagsins var formlega stofnuð 1921. Guðspekifélagið á Íslandi breytti um nafn árið 2018 og heitir nú Lífspekifélagið á Íslandi.