Keisaramörgæs
Keisaramörgæs | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Fullorðin keisaramörgæs
| ||||||||||||||
Ástand stofns | ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Aptenodytes forsteri | ||||||||||||||
Heimkynni keisaramörgæsarinanar
|
Keisaramörgæs (fræðiheiti: Aptenodytes forsteri) er stærst allra mörgæsa og eina mörgæsategundin sem makast um vetur á Suðurskautslandinu. Keisaramörgæsir éta aðallega átu og önnur krabbadýr, en einnig litla fiska og smokkfiska. Í sínu náttúrulega umhverfi lifa keisaramörgæsir yfirleitt í um 20 ár en geta orðið allt að 40 ára gamlar. Hæð kvenfugla og karlfugla er svipuð. Þau geta náð allt að 122 sentimetra á hæð og vegið um 45 kíló. Keisaramörgæsin getur ekki flogið, vængir hennar virka frekar sem hreyflar við köfun í sjónum.
Útlit og einkenni
[breyta | breyta frumkóða]Bolir keisaramörgæsa eru straumlínulaga sem hefur þann tilgang að minnka viðnám þegar þær synda. Sundfimi þeirra er talin einstök og ein sú besta á meðal fugla. Þær hafa fiður en vængir þeirra líkjast frekar bægslum eða hreifum heldur en fuglsvængjum.[1]
Keisaramörgæsin vegur að jafnaði um þrjátíu kíló og er 115 sentimetrar á hæð. Æxlunartímabilið er frá apríl til desember. Keisaramörgæsin er með litríkar fjaðrir í kringum háls og höfuð. Þær eru með gular eyrnabætur sem blandast niður eftir bringu þeirra. Talið er að til séu um 595 þúsund keisaramörgæsir í heiminum.[2]
Að lifa af
[breyta | breyta frumkóða]Keisaramörgæsir notast við líkamlegar aðlaganir og mikla samvinnu sín á milli til að komast af í krefjandi umhverfi. Á Suðurskautslandinu blása kaldir vindar og kuldinn fer niður í -60˚ C. Þegar köldustu vindarnir herja á þær safnast hópurinn og hjúfrar sig saman til þess að forðast vindinn og einangra hitann. Þær skiptast síðan á: Þær mörgæsir sem standa yst fá að færa sig innar með tímanum og þær innri færa sig utar til að taka við kuldanum.
Keisaramörgæsir eyða heilu vetrunum á opnum ís við ekkert skjól. Þær æxlast jafnvel við þessi skilyrði. Kvenfuglarnir verpa einu eggi og skilja það eftir í umsjá karlfuglsins. Eftir það leggja þær af stað í veiðiferð út í ískaldan sjóinn. Þessar veiðiferðir geta staðið í allt að tvo mánuði. Þær þurfa að ferðast minnst fimmtíu mílur til að ná opnu hafi. Þar veiða þær fiska, beitusmokk og ljósátu. Keisaramörgæsin getur kafað niður á 564 metra dýpi og haldið í sér andanum í allt að tuttugu mínútur.[3]
Foreldrahlutverkið
[breyta | breyta frumkóða]Karlfuglinn heldur hita á egginu meðan móðirin er á veiðum. Keisaramörgæsir sitja ekki á eggjunum heldur koma þeim fyrir ofan á klóm sínum til þess að verja þau frá kulda íssins og breiða fjaðrahaminn yfir eggið til að veita hlýju. Á þessum tveimur mánuðum éta karfuglarnir ekkert og nærast því ekkert og nota því allt sem þeir eiga til að þrauka biðina.
Þegar kvenfuglarnir snúa aftur á ísinn eru þeir með magann fullan af mat handa nýklöktum unganum. Um leið leggur karlfuglinn af stað í veiðiferð í leit að æti fyrir sjálfan sig. Mæðurnar halda hita á unga sínum með fjaðrahamnum því annars myndi hann deyja innan nokkra mínútna. Á sumrin í desember bráðnar ísinn eða brotnar. Þá eru ungarnir tilbúnir að synda og veiða sjálfstætt.[3]
Afræningjar
[breyta | breyta frumkóða]Hlébarðaselurinn er helsta dýrið sem veiðir keisaramörgæsir. Önnur rándýr eru sæljón og háhyrningar.[4] Skúmar, pípunefir, og aðrir fuglar nærast á eggjum þeirra og geta stundum líka veitt mörgæsarunga.[5]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jón Már Halldórsson (27. febrúar 2003). „Hvers vegna lifa mörgæsir bara á Suðurskautslandinu?“. Vísindavefurinn.
- ↑ „Emperor Penguin Facts – Aptenodytes forsteri“. Cool Antarctica.
- ↑ 3,0 3,1 „Emperor Penguin“. National Geographic.
- ↑ „Penguin Predators“. Penguins World. 2017.
- ↑ „Longevity & Causes Of Death“. Seaworld Parks & Entertainment.