Fara í innihald

Kaupfélag Eyfirðinga

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
KEA
Rekstrarform Samvinnufélag
Stofnað 19. júní 1886
Staðsetning Glerárgötu 36,
600 Akureyri
Lykilpersónur Birgir Guðmundsson formaður stjórnar, Hallur Gunnarsson varaformaður, Jóhannes Ævar Jónsson ritari
Starfsemi Fjárfestingarfélag
Vefsíða http://www.kea.is

Kaupfélag Eyfirðinga, best þekkt undir skammstöfuninni KEA, er íslenskt fyrirtæki sem stofnað var 1886 sem kaupfélag. Félagið var á tímabili stærsti atvinnuveitandi á Norðurlandi en má muna sinn fífil fegurri. Í dag starfar KEA sem fjárfestingarfélag sem öðrum þræði vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfssvæði sínu.

Kaupfélag Eyfirðinga var stofnað þann 19. júní 1886 á Grund í Eyjafirði. Kom þar saman hópur manna og stofnaði Pöntunarfélag Eyjafjarðar, en hálfu ári síðar var nafninu breytt í Kaupfélag Eyfirðinga. Upphaflegur tilgangur félagsins, líkt og annarra kaupfélaga, var að útvega félagsmönnum vörur á hagstæðu verði. Á árunum eftir heimsstyrjöldina fyrri byggði KEA verslunarhús, sláturhús, mjólkurvinnslustöðvar og frystihús til frystingar á kjöti til útflutnings.

Á fimmtíu ára afmæli KEA, 1936, voru félagsmenn um 2400, þar af var fjórðungur frá Akureyri. Þá sneri félagið sér að sjávarútvegi og stofnaði Útgerðarfélag KEA og gerði út skip. Kaupfélag Eyfirðinga tók þátt í að stofna ESSO á Íslandi, Olíufélagið hf. árið 1946. Upphaflegt hlutafé Olíufélagsins hf. var 850.000 kr en KEA lagði til 195.000 kr því og var næst stærsti stofnhluthafi á eftir SÍS.

Gamla KEA-merkið

KEA hefur breyst frá því að vera hefðbundið kaupfélag, yfir í að vera fjárfestingarfélag. Það er þó ennþá samvinnufélag og eru félagsmenn KEA í dag rúmlega 19 þúsund. Í samþykktum félagsins kemur fram að félagið heitir KEA og starfar í samræmi við lög um samvinnufélög nr 22/1991 - með áorðnum breytingum. Heimili þess og varnarþing er á Akureyri. Félgassvæði KEA er frá og með Fjallabyggð í vestri til og með Langanesbyggðar í austri, tekið er mið af sveitarfélagamörkum eins og þau eru árið 2013. Tilgangur félagsins er að vinna að hagsmunum félagsmanna og efla búsetu á félagssvæði sínu. Félaginu er fyrst og fremst æltað að vera fjárfestingarfélag og hefur því ekki með höndum atvinnurekstur, en stofnar og rekur hlutafélög og fyrirtæki sem ýmist eru að fullu í eigu KEA eða í sameign með öðrum aðilum. Þá er félaginu heimilt að starfrækja innlánsdeild í samræmi við lög um samvinnufélög nr. 22/1991.

Á heimasíðu félagsins er stefna félagsins og þar kemur fram að KEA er fjárfestingarfélag sem vinnur í þágu eigenda sinna að eflingu félagsins og þar með atvinnulífs og búsetuskilyrða á starfsvæði sínu. Framtíðarsýn félagsins er að KEA verði áfram fjárhagslega sterkt, rekið með ábyrgum hætti, byggt á arðsömum fjárfestingum sem samræmast hagsmunum eigenda félagsins. Með hagnaðarmyndun verði KEA öflugur þátttakandi og stuðningsaðili í samfélagslegum verkefnum. Gildi KEA eru ábyrgð, traust og þátttaka. Í stefnu félagsins koma fram fjárfestingaráherslur, arðgreiðslustefna og jafnréttisstefna og hægt að lesa nánar um það á heimasíðu félagsins.