Hárkolla
Hárkolla er eftirlíking af hári búin til úr mannshári, hrossahári, ull, fjöðrum eða gerviefnum. Hárkollur eru bornar á höfði til hátíðabrigða eða til að leyna skalla eða til að breyta um útlit. Hárkollur eru oft hluti af leikbúningum leikara og grímubúningum. Einnig eru þær sums staðar hluti af hefðbundnum embættisbúningi dómara.
Hárkollur hafa verið notaðar öldum saman af margs konar menningarheimum. Þegar hárkollur urðu nauðsynlegur hluti af búningi karla af betri stéttum þá varð til öflug stétt hárkollugerðarmanna. Gildi hárkollugerðarmanna var stofnað í Frakklandi árið 1665. Hárkollur voru þá efnismiklar og flóknar að gerð og mjög þungar og dýrar í framleiðslu. Best þótti að búa til hárkollur úr hári manna en einnig var notast við hrosshár og geitahár.
Á 18. öld tíðkaðist að púðra hárkollur til að fá fram hvítan og bleiktan litatón. Hárkollupúður var gert úr sterkju sem í var bætt ilmefnum. Stundum var hárkollupúður litað fjólublátt, blátt, bleikt eða gult en algengast var þó að það væri hvítt. Púðraðar hárkollur urðu hluti af búningi og notkun þeirra hélst allt til enda nítjándu aldar.
Um 1780 varð tíska hjá ungum mönnnum að púðra og lýsa upp eigið hár og eftir 1790 duttu hárkollur og hárkollupúður úr tísku nema hjá eldri mönnum og konum við hirðina.
Við frönsku hirðina í Versölum var á 18. öld tíska meðal kvenna að bera bátlaga stórar hárkollur. Þessar hárkollur urðu seinna á tímum frönsku byltingarinnar táknmynd fyrir hnignun og spillingu franska aðalsins.
Myndasafn
[breyta | breyta frumkóða]-
Marie Antoinette drottning í Frakklandi með hárkollu
-
Elísabet I Englandsdrottning á mynd frá 1588
-
Georg IV (fæddur 1762) Englandskonungur bar hárkollu þegar hann var krýndur árið 1821
-
Litskrúðugar hárkollur fyrir grímubúningasamkvæmi
-
Mynd eftir William Hogarth frá 1758
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Wig (hair)“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 11. nóvember 2007.