Gínea (heimshluti)
Gínea er sögulegt heiti á þeim heimshluta sem liggur umhverfis Gíneuflóa í Afríku. Gínea nær frá hitabeltinu í suðri að Sahel-svæðinu, við jaðar Sahara í norðri.
Þetta svæði var með þeim fyrstu í Afríku sunnan Sahara sem Evrópubúar komust í kynni við. Umfangsmikil verslun með gull, fílabein og þræla skapaði mikið ríkidæmi á svæðinu og nokkur öflug konungsríki urðu þar til á 18. og 19. öld eins og Dahómey og Asante-sambandið. Þessi ríki voru miðstýrð, fjölmenn og tæknilega þróuð, og veittu mikla mótspyrnu þegar Evrópuríkin hófu að leggja álfuna undir sig. Stór hluti þessa svæðis var því ekki gerður að evrópskum nýlendum fyrr en undir lok 19. aldar.
Nafnið Gínea kemur úr máli berba, í gegnum portúgölsku og merkir „land hinna svörtu“.
Gíneu var oft skipt í Neðri Gíneu, sem náði yfir suðurhluta Nígeríu, Benín, Tógó og inn í Gana, og Efri Gíneu, sem er mun fámennara svæði, og nær yfir Fílabeinsströndina og Gíneu-Bissá.
Evrópskir kaupmenn gáfu hlutum strandlengjunnar við Gíneuflóa heiti eftir höfuðútflutningsvöru hvers staðar. Eystri hlutinn við Benín og Nígeríu var nefndur Þrælaströndin, þar sem nú er Gana var kallað Gullströndin og vestan við Gana var Fílabeinsströndin, sem nú er nafn ríkis á sömu slóðum. Enn vestar, við Líberíu og Síerra Leóne, var ströndin kölluð Kornströndin eða Piparströndin.
Lönd í Gíneu
[breyta | breyta frumkóða]- Benín
- Fílabeinsströndin
- Miðbaugs-Gínea
- Gana
- Gínea
- Gínea-Bissá
- Líbería
- Síerra Leóne
- Tógó
- Nígería að sunnanverðu
- Kamerún að vestanverðu