Fara í innihald

Knattspyrna

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Framherji (knattspyrna))
Leikmaðurinn í rauðu hefur brotist gegnum vörn hins liðsins og býst til að skjóta knettinum í markið.
Fagnaðarlæti stuðningsmanna liðs í Argentínu.

Knattspyrna eða fótbolti er boltaíþrótt þar sem farið er eftir 17 reglum sem voru staðfestar af Alþjóðaknattspyrnustjórninni IFAB þegar hún var stofnuð árið 1886. Knattspyrna er leikin með knetti af tveimur allt að 11 manna liðum (með markmanni) sem reyna að sigra hitt liðið með því að skora fleiri mörk en andstæðingarnir á leiktíma sem venjulega er 90 mínútur. Til að skora mark þarf að spyrna boltanum inn í mark andstæðinganna. Ef mark er skorað í eigin mark kallast það sjálfsmark. Leikmenn mega ekki snerta boltann með hönd sinni, en markmaðurinn er undantekning. Hann má verja boltann með höndunum á afmörkuðu svæði sem kallast vítateigur.

Alþjóðaknattspyrnusambandið er alþjóðasamband knattspyrnunnar. Það er oft kallað FIFA eftir skammstöfun heitis þess á frönsku (Fédération Internationale de Football Association). FIFA skipuleggur heimsbikarmót í knattspyrnu í karla- og kvennaflokki á fjögurra ára fresti. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu karla hefur farið fram á fjögurra ára fresti frá árinu 1930, nema í tvö skipti: 1942 og 1946 þegar mótið var fellt niður vegna Síðari heimsstyrjaldar. Um 190-200 landslið keppa í heimshlutamótum til að öðlast þátttökurétt á heimsmeistaramótinu þar sem 32 lið keppa í 4 vikur um heimsmeistaratitil. Heimsmeistaramót FIFA er eitt vinsælasta íþróttamót heims og fær meira áhorf en Ólympíuleikarnir. Heimsmeistaramót landsliða í knattspyrnu kvenna hefur verið haldið á fjögurra ára fresti frá 1991. 1,12 milljarðar áhorfenda fylgdust með heimsmeistaramóti kvenna 2019 í Frakklandi, sem var met.

Álfukeppnir eins og Evrópumótið í knattspyrnu karla og Copa América eru vinsælustu álfukeppnirnar.

Þekktasta íþróttamót knattspyrnuliða í Evrópu er Meistaradeild Evrópu í kvenna- og karlaflokki, sem er sýnd í sjónvarpi um allan heim. Úrslitakeppnin í karlaflokki hefur verið það íþróttamót sem fær mest áhorf á heimsvísu. Þekktustu efstu deildir knattspyrnuliða í heimi eru Enska úrvalsdeildin (Premier League), Spænska úrvalsdeildin (La Liga), Þýska úrvalsdeildin (Bundesliga), Ítalska úrvalsdeildin (Serie A) og Franska úrvalsdeildin (Ligue 1). Í þessum deildum leika bestu knattspyrnumenn heims og samanlögð laun þeirra eru yfir 600 milljónir punda.

Grunnreglur fótboltans

[breyta | breyta frumkóða]

Leikvöllurinn

[breyta | breyta frumkóða]
Fótboltavöllur

Leikurinn skal vera spilaður á grænu undirlagi en annars skal tilkynna mótherja um annað vallarval.[1]

Fótboltavöllurinn skal vera rétthyrndur og mörk hans merkt. Tvær lengri hliðar vallarins eru kallaðar hliðarlínur og styttri línurnar eru kallaðar markalínur. Miðlína liggur þvert á völlinn á milli miðpunkta hliðarlínanna. Miðpunktur hennar er vallarmiðja sem jafnframt er miðpunktur hrings með 9,15 metra radíus.

Hliðarlínur eiga í öllum tilvikum að vera lengri en markalínurnar. Stærð valla í landsleikjum er 100-110 metrar að lengd og 64-75 metrar að breidd. Leikir á vegum Knattspyrnusambands Íslands eru spilaðir á völlum með 68 metra breidd og 105 metra lengd.[2] Stærð vallarins má breyta í öðrum tilvikum.

Mark á að vera staðsett við miðju markalína. Mark samanstendur af tveimur lóðréttum stöngum sem eru samtengdar láréttri stöng efst. Lóðréttu stengurnar marksúlur, eru 2.44 metrar og lárétta stöngin markslá er 7.32 metrar. Bæði marksúlur og markslá eiga að vera að hámarki 12 cm að breidd og hvítar að lit. Þær eiga að vera úr viði, málmi eða öðru samþykktu efni. Þær eiga að vera rétthyrndar, kassalaga, hringlaga eða sporöskjulaga og mega alls ekki vera hættulegar leikmönnum. Markið í heild sinni verður að vera örugglega fest við jörðu og færanleg mörk má aðeins nota ef þau uppfylla þetta skilyrði.

Tvær línur eru dregnar frá markalínu, 5.5 metra frá marksúlu, samsíða hliðarlínum. Þær eru 5.5 metra langar og á milli enda þeirra er lína samsíða markalínunni. Þetta afmarkaða svæði kallast markteigur.

Aðrar tvær línur eru dregnar 16.5 metra frá marksúlu, samsíða hliðarlínum. Þær eru 16.5 metra langar og á milli enda þeirra er lína sem er samsíða markalínunni. Þetta afmarkaða svæði kallast vítateigur.

Við horn vallarins, þar sem markalínur og hliðarlínur mætast, skal vera fáni sem er ekki minni en 1.5 metrar. Á sama stað skal vera hornbogi með 1m radíus frá fánanum. Hornfáni við miðlínu er valkvæður. Merkingar mega vera utan vallarins á þessum stað.

Boltinn er kúlulaga með 68-70 cm þvermál og vegur á milli 410 og 450 grömm. Loftþrýstingur í boltanum skal jafngilda 0.6 - 1,1 loftþyngd við sjávarmál. Ef bolti verður ónothæfur við leik, þá er leikurinn stöðvaður og varabolti er settur á sama stað og boltinn sem varð ónothæfur var á. Ef taka á vítaspyrnu, markspyrnu eða álíka, þá er varaboltinn settur inná samkvæmt þeim reglum. Ekki má skipta út bolta án leyfis frá dómara. Boltar sem eru notaðir í keppnum FIFA, þurfa að vera merktir og staðfestir af FIFA. Auk þess eiga allar keppnir FIFA, og knattspyrnusamtaka, sem undir það heyra, að nota bolta sem er ekki merktur á annan hátt en þann að bera merki keppninnar og framleiðandans.

Fjöldi leikmanna

[breyta | breyta frumkóða]

Fjöldi leikmanna á að vera 11 hið mesta og í minnsta lagi 7. Einn leikmaður er markvörður. Ekki er heimilt að byrja leik með færri leikmönnum en sjö eða fleiri en 11. Í keppnum FIFA eða knattspyrnusamtaka sem heyra undir það, má hámarki skipta varamönnum inn á þrisvar sinnum í leik. Fjöldi varamanna sem eru heimilaðir á varamannabekk, eru ákvarðaðir af þeim knattspyrnusamtökunum sem við á. Í alþjóðlegum leikjum eru hámark sex leikmenn á varamannabekk, nema samkomulag ríki milli beggja liða sem keppa og dómari viti af ákvörðun liðanna. Í öllum tilfellum á að tilgreina leikmenn á varamannabekk áður en leikur hefst.

Þegar leikmanni er skipt inná er dómari fyrst látinn vita af skiptingunni og hann stöðvar leikinn. Hann gefur leikmanni á vellinum merki um að koma að hliðarlínunni og fara útaf. Þegar að leikmaðurinn er farinn út af fer leikmaðurinn sem skipta á inná á völlinn frá hliðarlínu og við það telst skiptingunni lokið. Leikmaður, sem hefur verið skipt útaf, tekur ekki frekar þátt í leiknum og allir varamenn fylgja fyrirmælum dómara. Leikur er jafnframt stöðvaður, ef að útileikmaður er færður í markmannsstöðu.

Fari leikmaður inn á völlinn án leyfis dómara er leikurinn stöðvaður. Dómarinn gefur leikmanninum viðvörun og leikurinn heldur áfram með aukaspyrnu. Ef að leikmaður skiptir við markmann án leyfis dómara heldur leikurinn áfram, en leikmennirnir tveir eru viðvaraðir. Einungis má skipta inn leikmenn í hópi varaleikmanna.

Búnaður leikmanna

[breyta | breyta frumkóða]

Leikmaður má ekki bera neinn búnað sem er hættulegur honum sjálfum eða öðrum leikmönnum. Grunnbúnaður leikmanns samanstendur af ermabol, stuttbuxum, sokkum, skóm og legghlífum. Bolur, stuttbuxur og ermar bolsins þurfa ekki endilega að vera í sama lit. Allir leikmenn liðsins að markmanni undanskildum, eiga að vera í eins búningi. Auk þess er aðildarfélögum KSÍ heimilt að leggja bann við takkaskóm.[1] Ef að legghlífar eru notaðar, þá eiga þær að vera að fullu faldar bak við sokka leikmanns. Markmaður skal bera liti sem aðgreina hann frá öðrum leikmönnum, dómara og aðstoðardómurum. Ef þessum reglum er ekki fylgt er dómara heimilt að vísa leikmanni tímabundið af velli á meðan lausn er fengin á vandamálinu.

Dómari sér um að reglum fótboltans sé framfylgt á þeim leik sem hann hefur verið skipaður á. Hann stjórnar leik í samvinnu með aðstoðardómara. Honum er heimilt að stöðva, fresta eða hætta við leik vegna utanaðkomandi truflunar eða vegna brota á grunnreglum fótboltans. Hann leggur mat á meiðsli leikmanna og bíður með að senda smávægilega meidda leikmenn af velli. Leikmenn með blæðandi sár er þó ávallt hleypt rakleiðis af velli og fá ekki að koma aftur á völlinn fyrr en blæðing hefur stöðvast.

Þegar brot eiga sér stað og liðið sem brotið var á er með boltann leyfir dómari leiknum að halda áfram. Refsað er leikmanni sem brýtur á sér oftar en einu sinni í einu, háskalegar athafnir og starfsmönnum sem sýna ekki ábyrgð. Hann hleypir ekki utanaðkomandi persónu á völlinn og setur leik að nýju. Hann er tímastjórnandi leiksins og er oft sá sem er ábyrgur fyrir að senda leikskýrslu til knattspyrnusambandsins. Heimalið leiksins í keppni innan KSÍ eru þó ábyrg að senda leikskýrslur utan úrvalsdeildar karla og kvenna.[1] Allar ákvarðanir dómara eru endanlegar og er ekki breytt nema eftir að dómarinn hafi ráðgefið sig við aðstoðardómara.

Heimilt er að notast við tvo aðstoðardómara í leik. Þeir senda merki til dómara. Í þeim tilfellum þegar boltinn fer út fyrir völlinn segja þeir dómara til um hvort liðið eigi kröfu á innkasti, hornspyrnu eða markspyrnu, eftir því sem við á. Þeir láta vita af rangstöðu. Jafnframt láta þeir dómara vita af atvikum sem gerast utan vallarins eða eru utan sjónsviðs hans eins og skiptingar eða brot. Aðstoðardómari heyrir undir dómara.

Frá 2017 hefur myndbandadómgæsla verið notuð í ríkari mæli. Þá fær aðaldómari skilaboð frá nokkrum aðstoðardómurum sem sitja við skjá og greina leikinn. Aðaldómari getur einnig skoðað sjálfur atvik í skjá við völlinn ef hann telur þörf á.

Fótboltalið

[breyta | breyta frumkóða]

Í fótbolta er þrenn möguleg úrslit. Í leik þar sem annað liðið hefur skorað fleiri mörk en andstæðingurinn kallast leikurinn unninn, og það lið fær ýmist 2 eða 3 stig fyrir það afrek. Sé leikurinn hins vegar, með jafn mörgum mörkum frá báðum liðum vallarins kallast jafntefli og bæði lið fá eitt stig. Engin stig eru þó veitt í útsláttakeppnum, þar gildir að það lið sem sigrar heldur áfram í næstu umferð. Framlenging og loks vítaspyrnukeppni er gripið til ef leikurinn er jafn.

Fótbolti er einn af vinsælustu íþróttum í heimi. Samkvæmt tölum Fifa, sem er yfirstjórn knattspyrnu í heiminum, spila yfir 265 milljónir manna í yfir 200 löndum fótbolta. Skipulagðir leikir eru spilaðir af 38 milljónum um allan heim í meira en 325 þúsund knattspyrnuklúbbum. 207 lönd og sjálfstjórnarsvæði eru meðlimir FIFA. Einungis þarf nokkrar grundvallarreglur og lítinn útbúnað til þess að iðka íþróttina. Nóbelsverðlaunahafinn Albert Camus sagði: "Allt sem ég veit með öryggi um siðferði og ábyrgð, á ég að þakka fótboltanum".

Félagslið

[breyta | breyta frumkóða]

Fótbolti er ýmist spilaður í fótboltaklúbbum eða sem áhugamannaíþrótt. Fótboltaklúbbar eru félög sem spila á móti öðrum klúbbum í deild innan síns eigin lands. Oft eru margar deildir í einu landi, þar sem liðunum er skipt eftir því hversu vel liðið spilar. Auk fótboltaliðs starfa hjá félaginu þjálfarar, sjúkraþjálfarar og búningastjóri. Þjálfarar sjá um að kenna leikmönnum um þá tækni og færni sem notuð er í fótbolta. Sjúkraþjálfarar sjá um meiðsli leikmanna og búningastjórn sér um að allir búningar félagsins séu í röð og reglu. Áhugamenn hinsvegar, spila frekar upp á skemmtunina og þeim áhuga sem þeir hafa fyrir íþróttinni. Áhugamenn fá ekki greitt fyrir vinnu sína úti á vellinum, ólíkt atvinnumönnum í fótboltaklúbbum. Þessi laun, sem að atvinnumenn fá eru fengin með styrktarsamningum fyrirtækja, verðlaunafé við það að vinna keppnir og í sumum tilfellum fé frá eigendum liðsins.

Auk félagsliða og áhugamannaliða eru starfrækt landslið. Landslið eru lið, þar sem óskað er eftir kröftum leikmanna sem hafa ríkisborgararétt í viðkomandi landi. Landsliðum er stjórnað af knattspyrnusamböndum, hvers lands fyrir sig, sem jafnframt stjórna fyrirkomulagi deildarleikja landsins. Landsliðum er skipt upp innan hvers lands eftir aldri. Unglingalið landsliðsins eru ýmist undir 17 ára, undir 19 ára, undir 21 árs og undir 23 ára. Ekki er þörf á að öll þessi landslið séu virk, og í raun er algengast að haldið sé út landsliðum aðeins í undir 17 ára, undir 19 ára og undir 21 árs. Aðallið landsliðs, getur þó alltaf kallað leikmenn sem eru á þessum aldri, nema að ákvörðun knattspyrnusambandsins sé önnur.

Áhorfendur

[breyta | breyta frumkóða]

Áhorfendur eru fólk sem mætir á leikvanga, þar sem liðið spilar til þess að horfa á leikinn og styðja sitt lið. Auk þess er jafnframt til að áhorfendur fylgist með sínum liðum í sjónvarpi, með sjónvarpsútsendingum. Mismikill áhugi er þó á fótboltaliðum eftir kynjum. Fótbolti kvenna er í augum almennings minna umfangs og vinsældir hans minni, en vegna árangurs liða og landsliða hefur áhuginn undanfarið aukist, þá sérstaklega í Bandaríkjunum og Þýskalandi.

  • Á Íslandi: Knattspyrnusamband Íslands setti af stað átakið "Leikur án fordóma" með það að markmiði að útrýma fordómum úr knattspyrnu, sporna gegn einelti og leggja áherslu á heiðarlegan leik.[3] Fyrirliðar úrvalsdeildar karla og kvenna studdu átakið árið 2008, með samstarfsyfirlýsingu um að sýna gott fordæmi.[4]

Sérstakar stofnanir gegn misrétti:

  • Kick It Out: Samtökin hafa stofnað staðal Equality Standard sem knattspyrnufélög fara eftir. Knattspyrnufélögin mynda stefnu gegn fordómum meðal áhorfenda og félagsins sjálfs. Fylgst er með breytingum og árangri.

Fótboltabullur

[breyta | breyta frumkóða]

Ofbeldi í fótbolta hefur verið til frá upphafi hans og verið kennt við fótboltabullur. Þær urðu fyrst að skipulögðum hópum árið 1980 í Ítalíu. Fjölmiðlar hafa verið gagnrýndir fyrir að gefa fótboltabullum gaum og á þann veg efla ofbeldi í fótbolta.[5]

  1. 1,0 1,1 1,2 „Reglugerð KSÍ um knattspyrnumót“. Afrit af upprunalegu geymt þann 21. mars 2012. Sótt 6. desember 2010.
  2. Bæklingur um knattspyrnuleikvanga Geymt 21 mars 2012 í Wayback Machine KSÍ
  3. „KSÍ Leikur án fordóma“. Afrit af upprunalegu geymt þann 2. febrúar 2011. Sótt 4. desember 2010.
  4. - Knattspyrnumenn á Íslandi vilja fótbolta án fordóma
  5. „- Hooliganism in European Football“. Afrit af upprunalegu geymt þann 14. júní 2011. Sótt 4. desember 2010.