Fara í innihald

Eilífðarhyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eilífðarhyggja er kenning í heimspeki sem felur í sér að fortíðin, nútíðin og framtíðin séu allar jafnraunverulegar. Kenningunni fylgja verufræðilegar skuldbindingar umfram einungis við núverandi atburði eða líðandi stund, sem greina hana skarplega frá nútíðarhyggju.

Eilífðarhyggjan er oft talin nátengd „óraunveruhyggju“ um tíðir og tíðarmerkingu. Það er að segja, eilífðarhyggjumenn neita því oft að tíðarorð eins og „fortíðin“, „nútíðin“ og „framtíðin“ vísi til þeirra hluta raunveruleikans sem þau samsvara. Slík orð séu helst notuð sem þægilegar styttingar fyrir orðalag sem lýsir undanfarandi tíma, samtíma eða tíma eftir þann tíma þegar sá sem talar notar órð af þessu tagi í setningu.

Óraunveruhyggja um tíðir ásamt eilífðarhyggju og þeirri skoðun að raunveruleikinn sé ekki mótsagnarkenndur er oft nefnd „B seríu“ viðhorfið til tímans.

Í tengslum við búddisma er eilífðarhyggjan kenningin um eilífa hluti eða eilíft líf. Hugmyndin um eilífa og ævarandi sál er prýðilegt dæmi um þetta. En Búddismi hafnar eilífðarhyggju auk tómhyggju. Höfnunin er byggð á þeirri hugsun að þegar hlutur er greindur niður í frumþætti sína, þá er enga eilífa hluta eða neina eilífa tilvist að finna.

  • „Hvað er tími?“. Vísindavefurinn.