Fara í innihald

Artemismusterið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
16.aldar málmrista eftir listamanninn Martin Heemskerck. Hann ímyndaði sér hofið í stíl við fyrritíma ítalskar kirkjur.

Artemismusterið eða Artemisarhofið (forngríska: Ἀρτεμίσιον Artemision, latína: Artemisium) var eitt af sjö undrum veraldar. Það var byggt árið 550 f.Kr. í Efesos, sem nú tilheyrir Tyrklandi.

Saga og eyðilegging

[breyta | breyta frumkóða]

Bygging hofsins tók 120 ár. Krösos Lýdíukonungur hóf verkið og kostaði það en Kersifron teiknaði hofið. Það varð strax mikið aðdráttarafl fyrir Efesos og þangað komu kóngar, ferðalangar og fleiri sem vildu votta Artemis virðingu sína með fórnum og gjöfum.

Þann 21. júlí árið 356 f.Kr. var hofið eyðilagt. Herostratos nokkur var drifinn af svo mikilli hvöt til þess að fá nafn sitt á spjöld sögunnar að hann kveikti í hofinu. Orðrómurinn um tortímingu hofsins barst fljótt um heiminn en Efesosbúar voru svo fokreiðir að hver sá sem nefndi Herostratos á nafn skyldi þegar verða líflátinn. En þá kemur forngríski sagnfræðingurinn Strabon til sögunnar því hann ritaði niður nafn hans og þannig er það þekkt í dag.

Sömu nótt og hofið var eyðilagt fæddist Alexander mikli. Gríski sagnfræðingurinn Plútarkos sagði að Artemis hafi verið svo upptekin við fæðingu hans að hún hafi gleymt að bjarga hofinu sínu. Alexander bauðst seinna til að borga fyrir endurbyggingu hofsins en Efesosbúar afþökkuðu. Eftir dauða Alexanders árið 323 f.Kr. var það hins vegar gert og hafði myndhöggvarinn Skópas yfirumsjón með endurbyggingunni. Hún var svo eyðilögð í áhlaupi Gota árið 262 e.Kr., sem komu yfir Hellusund (Dardanellasund) og tortímdu í leiðinni mörgum borgum og kveiktu þá meðal annars í hofinu.

Næstu tvær aldir urðu flestir Efesosbúar kristnir, svo Artemisarhofið missti trúarljóma sinn. Kristnir menn rifu það sem eftir var af hofinu og notuðu steinana í aðrar byggingar. Leiðangur frá British Museum fann byggingarlóð hofsins árið 1869 og eru gripir og höggmyndir frá endurgerð hofsins þar enn til sýnis. Í dag er aðeins ein súla eftir uppistandandi af hofinu á upprunalegum stað, sem nú er mýrlendi.

Flestar lýsingar frá hofinu koma frá Pliníusi eldri. Það eru líka til aðrar frásagnir, þótt bæði stærðin og lýsingar á hofinu séu breytilegar. Samkvæmt Pliníusi var hofið 115 m langt og 55 m á breidd, aðeins gert úr marmara. Hofið er sett saman úr 127 jónískum súlum, hver um 18 m á hæð. Inni í hofinu var síðan mikið um fallega list. Þar voru höggmyndir eftir fræga gríska myndhöggvara, til dæmis Feidías sem gerði Seifsstyttuna, Skópas sem vann við grafhýsi Mausolos og fleiri. Listamaðurinn Fradmon skreytti hofið að utan, auk málverka og gyllti og silfraði styttur. Myndhöggvararnir kepptust meira segja sín á milli. Sumir stytturnar eru af Amazonunum, sem eru sagðar hafa stofnað Efesos.

Hofið hefur án efa verið glæsilegt, en Antipatros frá Sídon, sem tók saman listann yfir öll furðuverkin, lýsir hér hofinu:

Ég hef séð hina himinháu varnarveggi Babýlon þar sem er vegur fyrir stríðsvagna, styttuna af Seifi, Hengigarðana og Risann Apollon og hið mikla erfiðsverk hinna háu pýramída og hið gríðarstóra grafhýsi Mausolos en þegar ég sá hús Artemisar rísa til skýjanna, misstu hin undrin ljómann sinn og ég sagði: „Sjá, fyrir utan Ólympos, þá hefur sólin aldrei séð neitt jafn stórbrotið.“

Fílon frá Býzantíon lýsir því einnig svo að öll hin undrin falli í skugga af mikilfengleika hofsins. Samtímafólk hofsins lýsti því einfaldlega sem fallegustu byggingu jarðar, svo glæsilegt var það.