Fara í innihald

Antwerpen-hérað

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Antwerpen (hérað))
Fáni Skjaldarmerki
Fáni
Fáni
Skjaldarmerki
Upplýsingar
Höfuðborg: Antwerpen
Flatarmál: 2.867 km²
Mannfjöldi: 1.847.000 (1. janúar 2018)
Þéttleiki byggðar: 598/km²
Vefsíða: [1][óvirkur tengill]
Lega

Antwerpen (hollenska/flæmska: Antwerpen provincie; franska: Province d'Anvers) er eitt af fimm hollenskumælandi héruðum í Belgíu og tilheyrir Flæmingjalandi. Íbúar eru 1,8 milljónir. Höfuðborgin heitir sömuleiðis Antwerpen.

Lega og lýsing

[breyta | breyta frumkóða]

Antwerpen er nyrst í Belgíu og á löng landamæri að Hollandi. Það liggur auk þess að þremur öðrum belgískum héruðum: Austur-Flæmingjalandi að vestan, Flæmska Brabant að sunnan og Limburg að austan. Antwerpen á eitt útsvæði sem er í hollenska héraðinu Norður-Brabant og heitir Baarle-Hertog. Stærð Antwerpen-héraðs er 2.867 km2. Fljótið Schelde rennur í gegnum héraðið frá suðri til norðurs. Við það liggur höfuðborgin Antwerpen, sem er með stærstu höfnum Evrópu. Héraðið er marflatt. Hæsti punkturinn er Beerzelberg sem nær aðeins 51 metra hæð. Þó er manngerð hæð við höfnina í Antwerpen sem nær í 55 metra hæð.

Fáni og skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Í fána Antwerpen eru 24 ferningar: 8 rauðir, 6 hvítir, 6 gulir og 4 bláir. Ferningarnir og litirnar eru teknir úr fánum þriggja stærstu sýslna héraðsins, Antwerpens, Mechelen og Turnhout. Fáninn var samþykktur í október 1996 og tekinn í notkun 7. janúar 1997. Skjaldarmerkið kom fyrst fram á innsigli 1239 og er sett saman úr þremur merkjum, þ.e. merki markgreifadæmisins Antwerpen (borgarvirkið og tvíhöfða örninn), Mechelen (svarti örninn á röndótta fletinum) og Turnhout (bláhvíti borðinn neðst). Merkið var sett saman þegar Belgía varð sjálfstæð árið 1830, en hefur tekið nokkrum breytingum á síðari tímum.

Gervihnattamynd af héraðinu. Schelde rennur í gegnum borgina Antwerpen. Höfnin mikla sést greinilega báðum megin við Schelde. Nokkrir skipaskurðir eru einnig sjáanlegir.

Héraðið Antwerpen heitir eftir borginni Antwerpen, sem er ein mesta hafnarborg Evrópu. Heitið kemur úr þýsku og er dregið af orðunum an de warp, sem merkir við hólmana. Hólmarnir voru eiginlega litlar manngerðar eyjar á fljótinu Schelde sem fólk bjó á.

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]

Þegar hinu mikla ríki Franka var skipt upp eftir lát Karlamagnúsar varð fljótið Schelde að landamærum Frakklands og þýska ríkisins. Ottó II. keisari stofnaði markgreifadæmið Antwerpen sem mótvægi og vörn gegn Flæmingjalandi. Héraðið varð síðar hluti af greifadæminu Brabant, sem tilheyrði ýmist Búrgund, Habsborg, Spáni eða Austurríki. Árið 1795 var héraðið innlimað í Frakkland og tilheyrði því meðan Napoleons naut við. Frakkar settu mörk héraðsins eins og þau eru í dag. Antwerpen varð hluti af konungsríkinu Belgíu 1830, þrátt fyrir að flestir íbúarnir töluðu hollensku en ekki frönsku.

Antwerpen er langstærsta borg héraðsins. Alls eru 70 sveitarfélög þar. Stærstu borgir héraðsins:

Röð Bær Íbúar Ath.
1 Antwerpen 493 þúsund Höfuðborg héraðsins
2 Mechelen 81 þúsund
3 Turnhout 41 þúsund
4 Heist-op-den-Berg 40 þúsund
5 Braasschat 37 þúsund
6 Geel 37 þúsund
7 Mol 34 þúsund
8 Lier 33 þúsund
9 Schoten 33 þúsund