Hannes Bjarnason
Hannes Bjarnason (14. janúar 1777 – 9. nóvember 1838) var prestur og skáld í Skagafirði. Hann var fæddur í Djúpadal í Blönduhlíð, sonur Bjarna Eiríkssonar og konu hans Sigríðar Jónsdóttur en afi hans var Mera-Eiríkur Bjarnason, ættfaðir Djúpadalsættar. Hann varð stúdent frá Hólaskóla 1801 og var í næstsíðasta árgangi sem þaðan var útskrifaður. Hannes sótti á næstu árum um ýmis prestsembætti en fékk ekki og var talið að það mætti að einhverju leyti rekja til vísnagerðar hans og orðbragðs. Hann kvæntist Sigríði Jónsdóttur frá Litla-Dunhaga í Hörgárdal og bjuggu þau á ýmsum jörðum í austanverðum Skagafirði við fremur þröngan kost. Hannes varð loks prestur á Ríp í Hegranesi 1829 og gegndi því embætti til dauðdags.
Bróðurdóttir Hannesar var Efemía Benediktsdóttir, kona Gísla Konráðssonar sagnaritara, og voru þeir Hannes og Gísli vinir og ortu saman, meðal annars Andrarímur, sem komu út 1834 og urðu mjög vinsælar. Hannes orti líka Rímur af Skanderbeg epirótarkappa, þjóðhetju Albana (1861) og Rímur af Hálfdani konungi gamla og sonum hans (1878). Hann orti einnig fjölmargar lausavísur, ekki allar mjög prestslegar, sem urðu fleygar.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Símon Eiríksson (1912). Saga Eiríks Magnússonar (Mera-Eiríks). Prentsmiðja Suðurlands.
- Stefán Jónsson (1984). Djúpdæla saga. Sögufélag Skagfirðinga.