Open Knowledge
Contents

Defining Open in Open Data, Open Content and Open Knowledge

Skilgreining Opinna Gagna

Version: 1.0

Orðanotkun

Orðið gögn á hér við:

  1. Efni s.s. tónlist, kvikmyndir og bækur
  2. Hvers kyns töflugögn, texta og tölfræði, þar með taldar vísinda-, sagnfræði- og landfræðiupplýsingar, en ekki takmarkað við þær
  3. Skjöl og aðrar upplýsingar stjórnvalda og annarra opinberra stofnana

Hugbúnaður er undanskilinn þessari skilgreiningu.

Orðið verk er notað til að lýsa því skjali eða þekkingarbút sem um ræðir.

Orðið pakki kann að vera notað til að lýsa safni verka. Líta má á pakka sem verk í sjálfu sér.

Orðið leyfi vísar til þeirra lagalegu skilmála sem tilgreina réttindi til nýtingar, dreifingar og annarar notkunar á verki. Þar sem ekkert leyfi er tiltekið vísar leyfi til þeirra sjálfgefnu lagalegu réttinda og skyldna sem gilda um viðkomandi verk.

Skilgreiningin

Verk telst opið ef dreifing þess uppfyllir eftirtalin skilyrði:

1. Aðgangur

Verkið skal vera fáanlegt í heild sinni án þess að kostnaður nemi meira en eðlilegum afritunarkostnaði, helst aðgengilegt á Internetinu án gjaldtöku. Verkið þarf jafnframt að vera fáanlegt á hentugu og vinnanlegu sniði.

2. Dreifingarréttur

Leyfið skal ekki hindra neinn aðila í að selja eða gefa verkið, hvort heldur sem er óbreytt eða sem hluta af pakka sem inniheldur einnig önnur verk, þó þau verk séu af öðrum uppruna. Leyfið skal ekki kveða á um leyfisgjöld eða önnur gjöld vegna þess háttar sölu eða dreifingar.

3. Nýtingarréttur

Leyfið skal heimila breytingar og gerð afleiddra verka og verður að heimila dreifingu þeirra undir sömu skilmálum og hið upphaflega verk. Leyfið má innihalda kvöð um eignun og að heilleika verksins sé gætt: sjá lið 5 (Eignun) og lið 6 (Heilleiki) hér að neðan.

4. Tæknilegt hlutleysi

Verkið verður að vera fáanlegt á sniði sem ekki er háð tæknilegum hindrunum á ofangreindum réttindum. Þetta má uppfylla með því að notast við opin skráarsnið, þ.e. skráarsnið sem til er opin og aðgengileg tæknileg lýsing á og ekki fylgja kvaðir á notkun.

5. Eignun

Leyfið má kveða á um að verkið skuli eignað þeim sem að gerð verksins standa sem skilyrði fyrir dreifingu og nýtingu verksins. Slíkt skilyrði má þó ekki vera íþyngjandi. Sem dæmi má fara fram á að listi yfir aðstandendur verks fylgi hverskonar dreifingu á öðrum verkum sem á því byggja.

6. Heilleiki

Leyfið má kveða á um að afleitt verk beri annað nafn eða annað útgáfunúmer en upprunalega verkið.

7. Hlutleysi með tilliti til notenda

Leyfið má ekki mismuna fólki eða hópum.

8. Hlutleysi með tilliti til notkunar

Leyfið má ekki hindra að verkið sé notað á ákveðnu sviði eða til ákveðinna verka. Sem dæmi má leyfið ekki banna notkun verksins í viðskiptalegum tilgangi eða í hernaði.

9. Framvirkni leyfis

Leyfið verður að mega gilda með sama hætti um öll afleidd verk og aðra endurdreifingu á verkinu án þess að gera þurfi sérstakt samkomulag þar um milli aðila.

10. Leyfið skal ekki vera háð tilteknum pakka

Réttindin sem fylgja verkinu mega ekki vera háð því að verkið sé hluti tiltekins pakka. Ef verk er skilið frá pakka og dreift í samræmi við leyfið, skulu sömu skilmálar gilda um það verk eins og gilda um upprunalegan pakka.

11. Leyfið má ekki hamla dreifingu annarra verka

Leyfið má ekki hamla dreifingu annarra verka sem dreift er samhliða því verki sem leyfið tekur til. Sem dæmi má leyfið ekki krefjast þess að önnur verk sem dreift er samhliða séu líka undir opnu leyfi.

Translated by Icelandic Open Data