Fara í innihald

Rauðsmári

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Rauðsmári

Vísindaleg flokkun
Ríki: Jurtaríki (Plantae)
Fylking: Dulfrævingar (Magnoliophyta)
Flokkur: Tvíkímblöðungar (Magnoliopsida)
Ættbálkur: Belgjurtabálkur (Fabales)
Ætt: Ertublómaætt (Fabaceae)
Undirætt: Smárar (Faboideae)
Ættkvísl: Smárar (Trifolium)
Tegund:
T. pratense

Tvínefni
Trifolium pratense
L.

Rauðsmári (fræðiheiti: Trifolium pratense) er belgjurt af ertublómaætt. Hann þekkist af ljósrauðum eða bleikum blómkollum. Rauðsmári er notaður í alls kyns túnrækt enda nýtir hann köfnunarefni úr andrúmslofti í sambýli við svokallaða Rhizobium-gerla.

Rauðsmári hefur sterka stólparót en stönglarnir verða 40 cm á hæð. Þeir eru hærðir og ýmist uppréttir eða jarðlægir. Blöðin eru hærð og nær heilrend, oft með ljósan blett í miðju blaði. Blöðin eru þrífingruð með öfugegglaga eða sporbaugótt smáblöð. Smáblöð þessi eru 2 til 3,5 sentímetrar á lengd. Við blaðaxlir eru axlablöð sem mynda ljósgrænt slíður með dökkum æðum og löngum broddi í endann.

Blómgun rauðsmára verður í júlí til ágúst en það er mjög sjaldgæft að hann myndi fræ á Íslandi vegna þess að til að það gerist þurfa stór skordýr, eins og humlur, að sjá um frjóvgunina. Blómin eru við allar aðstæður víxlfrjóvga.[1] Blómin eru einsamhverf og um 2,5 til 3 cm í þvermál. Krónan er 12 til 16 mm löng en bikarinn eilítið styttri, um 7 til 8 mm langur. Hann er aðhærður og klofinn niður að miðju í 5 örsmáa hærða flipa.

Rauðsmári telst til íslensku flórunnar, þó að hann sé ekki algengur nema sem slæðingur við bæi og á röskuðum svæðum. Hann hefur verið notaður til túnræktar að einhverju marki, en endist illa (oft bara um 2 til 4 ár) vegna þess hve hann er illa búinn undir beit og traðk.[1] Hans kjörlendi er graslendi og tún, þó hann láti oft undan í samkeppni í grónu og frjósömu landi. Hann hentar einkar vel til gróffóðurverkunar, sér í lagi í blöndu við vallarfoxgras. Vallarfoxgras hefur reynst góður svarðarnautur rauðsmárans vegna þess að það er ekki eins frekt og margar aðrar grastegundir sem notaðar er í tún. Í íslenskum tilraunum sem gerðar voru 1994 var sýnt fram á það að rauðsmári hefur hærra hlutfall lignínsellulósa, meira af hrápróteini og steinefnum en félagi Vallarfoxgras.[2]

Eitthvað hefur borið á svokölluðu smáraroti, sem er sveppasjúkdómur af völdum Sclerotina trifolium en hann er hættumestur á mildum, votum haustum og undir snjó. Þá er rauðsmári viðkvæmur við rótarsliti vegna frostlyftingar og hárri grunnvatnsstöðu. Hann safnar sterkju í forðarót sína sem er að vissu leyti því sterkjunni er erfiðara að breyta í orku fyrir grasbíta heldur en frúktósi eða súkrósi sem er aðal forðanæring grasa.[1]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Jóhannes Hr. Símonarson. „Ræktun rauðsmára“. Handbók bænda. Bændasamtök Íslands, 2000: . .
  2. Jóhannes Sveinbjörnsson. „Ræktun og nýting rauðsmára við íslenskar aðstæður“. Búvísindi. (11) (1997): 49-74.
  • Hörður Kristinsson (1986). Íslenska plöntuhandbókin – blómplöntur og byrkningar. Mál og menning, Reykjavík.
  • Ríkharð Brynjólfsson; Stefanía Nindel (2006). Nytjajurtir. Landbúnaðarháskóli Íslands, Hvanneyri.
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.