Fara í innihald

Varnarsveitir Kúrda

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá YPG)
Fáni Varnarsveita Kúrda (YPG)

Varnarsveitir Kúrda eða Þjóðvarnarsveitirnar (kúrdíska: یەکینەکانی پاراستنی گەل eða Yekîneyên Parastina Gel), yfirleitt stytt í YPG, eru kúrdísk hernaðarsamtök í Sýrlandi sem leiða Lýðræðissveitir Sýrlands (SDF) í sýrlensku borgarastyrjöldinni.[1][2] Flestir meðlimir YPG eru kúrdar en í samtökunum eru einnig arabar og fjöldi erlendra sjálfboðaliða.

Saga og skipulag

[breyta | breyta frumkóða]

Varnarsveitir Kúrda voru stofnaðar árið 2004 sem hernaðararmur kúrdísku vinstrihreyfingarinnar Lýðræðislega einingarflokksins í Sýrlandi. Áhrif YPG jukust verulega eftir að sýrlenska borgarastyrjöldin braust út og varnarsveitirnar urðu leiðandi afl meðal annarra kúrdískra skæruhreyfinga. Systurhreyfing YPG sem berst við hlið hennar í norður- og austurhluta Sýrlands ber nafnið Varnarsveitir kvenna (YPJ) og er eingöngu skipuð konum.[3]

Síðla árs 2015 unnu Varnarsveitirnar afgerandi sigur gegn hryðjuverkasamtökunum íslamska ríkinu (ISIS) í umsátri um bæinn Kobanî í Sýrlandi. Í umsátrinu naut YPG herstuðnings Bandaríkjanna og annarra bandalagsþjóða sem börðust einnig gegn ISIS. Upp frá því hafa Varnarsveitirnar aðallega barist gegn íslamska ríkinu en stundum einnig gegn öðrum uppreisnarhreyfingum innan Sýrlands.[4]

Árið 2015 stofnuðu Varnarsveitirnar Lýðræðissveitir Sýrlands (SDF) að áeggjan Bandaríkjamanna. Lýðræðissveitirnar eru regnhlífasamtök sem ætlað er að auðvelda aröbum og sýrlenskum minnihlutahópum að taka þátt í hernaðarbaráttu Varnarsveitanna. Á árunum 2016 til 2017 tókst Varnarsveitunum að frelsa al-Raqqah, „höfuðborg“ íslamska ríkisins í Sýrlandi, undan yfirráðum hryðjuverkasamtakanna.

Meðlimur í kvennasveit YPG árið 2014.

Ýmsir vestrænir miðlar líta á YPG sem sigursælustu og skilvirkustu hernaðarandstæðinga ISIS í Sýrlandi.[5][6] Varnarsveitirnar eru léttbúnar og hafa fá hergögn eða brynvarin ökutæki undir höndunum.

Ríkisstjórn Tyrklands hefur gagnrýnt Varnarsveitirnar fyrir meintan stuðning þeirra við Verkalýðsflokk Kúrda (PKK), sérstaklega eftir að uppreisn kúrda hófst í suðurhluta Tyrklands árið 2015.[7] Á öryggisráðstefnu í júlí árið 2017 lét bandaríski hershöfðinginn Raymond A. Thomas þau orð falla að Lýðræðissveitir Sýrlands væru í reynd annað heiti á YPG sem ætlað væri að auðvelda almannatengsl hópsins með því að forðast beintengingu við Verkalýðsflokk Kúrda, sem Bandaríkjastjórn skilgreinir sem hryðjuverkasamtök.[8][9] Ash Carter, þáverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, staðfesti einnig að „veruleg tengsl“ væru á milli Varnarsveita Kúrda og PKK.[10] Dan Coats, yfirmaður leyniþjónustustofnana Bandaríkjanna, skilgreindi YPG einnig sem „hernaðararm PKK í Sýrlandi“ í yfirheyrslu við öldungadeild Bandaríkjaþings árið 2018.[11][12] Vegna þessara tengsla hefur ríkisstjórn Tyrklands skilgreint YPG sem hryðjuverkahóp[7] og hóf innrás í Norður-Sýrland árið 2018 til þess að ná Afrin-héraði úr höndum Varnarsveitanna.

Erlendir sjálfboðaliðar í YPG

[breyta | breyta frumkóða]

Í borgarastyrjöldinni hefur fjöldi erlendra sjálfboðaliða frá vesturlöndum, aðallega uppgjafarhermenn af báðum kynjum, gengið til liðs við Varnarsveitirnar til þess að berjast gegn jihadistum.[13][14][15][16] Í fyrstu voru erlendir sjálfboðaliðar fáir en þeim fjölgaði verulega eftir sigur YPG í orrustunni um Kobanî. Þann 11. júní 2015 tilkynnti Sýrlenska mannréttindavaktin að 400 sjálfboðaliðar frá Ameríku, Evrópu og Ástralíu hefðu gengið til liðs við YPG og að átta þeirra hefðu látið lífið, þar á meðal ein kona.[17]

Í maí árið 2015 var stofnuð sérstök herdeild innan YPG undir nafninu „al-Shahid Sarkan“ (íslenska: Sarkan píslarvottur) fyrir tyrkneska sjálfboðaliða úr marx-leníníska kommúnistaflokknum í Tyrklandi (MLKP).[18] Þann 10. júní 2015 stofnuðu Varnarsveitirnar í Rojava herdeild undir nafninu „Alþjóðlega frelsisherdeildin“ fyrir erlenda sjálfboðaliða. Herdeildin var stofnuð að undirlagi MLKP með tilvísun í Alþjóðasveitir sjálfboðaliða sem börðust í spænsku borgarastyrjöldinni. Í herdeildinni eru tyrkneskir, spænskir, grískir, þýskir, albanskir, sirkasískir, arabískir, armenskir og lazískir sjálfboðaliðar.

Þann 12. júlí árið 2017 tilkynntu Varnarsveitirnar að átta erlendir sjálfboðaliðar hefðu fallið í valinn; einn Bandaríkjamaður, tveir Bretar, tveir Þjóðverjar, tveir Ástralir og einn Kanadamaður.[19]

Talið er að frá 2013 til 2018 hafi um 1.500 til 2.000 útlendingar gengið til liðs við YPG.[20] Erlendu sjálfboðaliðarnir eru fjölbreyttur hópur: Meðal þeirra eru ópólitískir ævintýramenn og spennufíklar án fyrri reynslu í hernaði, gamlir uppgjafahermenn, öfgahægrimenn sem leita að tækifærum til að berjast við jihadista og öfgavinstrimenn sem laðast að byltingarfyrirheitum Lýðræðislega einingarflokksins um lýðræðislegt fylkjasamband í Rojava.[20][21][22][23]

Íslenski aðgerðasinninn Haukur Hilmarsson gekk til liðs við Varnarsveitir Kúrda árið 2017 og barðist í orrustunni um al-Raqqah.[24] Talið er að Haukur hafi verið drepinn í árás Tyrkja á hernámssvæði YPG í Afrin-héraði í febrúar árið 2018.[25]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Barfi, Barak (apríl 2016). „Ascent of the PYD and the SDF“. Washington Institute for Near East Policy.
  2. Cook, Steven A. (25. febrúar 2016). „Who Exactly Are 'the Kurds'?“. The Atlantic. Sótt 16. febrúar 2017.
  3. Gunnar Hrafn Jónsson (13. mars 2018). „Kúrdar: 40 milljón manna þjóð sem ólöglegt er að nefna í Tyrklandi“. Kvennablaðið. Sótt 8. október 2019.
  4. „Kurdish Forces Bolster Assad in Aleppo“ (enska). Washington Institute. 29. júlí 2016. Sótt 17. mars 2017.
  5. „Turkey v Syria's Kurds v Islamic State“. BBC. 23. ágúst 2016.
  6. „US troops wearing YPG patches in Syria“. Business Insider. 27. maí 2016.
  7. 7,0 7,1 „Erdogan: Operation in Syria's Afrin has begun“. Al Jazeera. Sótt 21. janúar 2018.
  8. U.S. general told Syria's YPG: 'You have got to change your brand' Reuters.com, 22 July 2017
  9. Dangerous Turkish-US escalation ahead of Washington talks Hürriyetdailynews.com, 7. mars 2018
  10. American Defense Secretary Ashton Carter confirms "substantial ties" between the PYD/YPG and PKK Youtube, 23 juli 2017.
  11. Director of National Intelligence, Worldwide threat assessment of the US intelligence community, 13 February 2018
  12. CIA World Factbook, Syria, version 28 February 2018.
  13. LE Figaro : Syrie: 2 Anglais se battraient contre l'EI.
  14. Une Israélienne rejoint les combattants kurdes. : The Times of Israel
  15. Reuters : Un ex-soldat américain combat aux côtés des Kurdes contre l'EI.
  16. Huffington Post : Facebook : Recrutement de volontaires pour combattre l'État islamique en Syrie (PHOTOS/VIDÉO).
  17. OSDH : More than 400 fighters from Australia, America and Europe join YPG.
  18. http://www.syriahr.com/en/2015/07/the-second-german-fighter-in-ypg-killed-in-clashes-with-islamic-state/ A second German fighter in YPG killed in clashes with “Islamic State”, OSDH, 13 juillet 2015.
  19. German killed in Syria while fighting ISIS with Kurdish YPG: YPG official, Reuters, 23 février 2016.
  20. 20,0 20,1 Sarah Leduc, Des Occidentaux avec les Kurdes à Afrin : l'ultra-gauche monte au front (1/2), France 24, 22 février 2018.
  21. Sarah Leduc et Wassim Nasr, Aux côtés des Kurdes à Afrin : la litigieuse question du retour des combattants français (2/2), France 24, 23 février 2018.
  22. Adrien Jaulmes, Syrie : ces volontaires étrangers qui combattent les djihadistes au sein des troupes kurdes, Le Figaro, 20 mai 2018.
  23. Jean-Manuel Escarnot, «Seuls les plus aptes sont envoyés au front», Libération, 23 novembre 2018.
  24. Þóra Arnórsdóttir; Arnar Þórisson. „Á slóðum Hauks í Sýrlandi“. RÚV. Sótt 8. október 2019.
  25. Baldur Guðmundsson (7. mars 2018). „„Þannig lifði hann og dó með sinni sannfæringu". Fréttablaðið. Sótt 8. október 2019.