Netumbo Nandi-Ndaitwah
Netumbo Nandi-Ndaitwah | |
---|---|
Forseti Namibíu (kjörin) | |
Tekur við embætti 21. mars 2025 | |
Forveri | Nangolo Mbumba |
Varaforseti Namibíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 4. febrúar 2024 | |
Forseti | Nangolo Mbumba |
Forveri | Nangolo Mbumba |
Utanríkisráðherra Namibíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 4. desember 2012 | |
Forsætisráðherra | Hage Geingob Saara Kuugongelwa |
Forveri | Utoni Nujoma |
Persónulegar upplýsingar | |
Fædd | 29. október 1952 Onamutai, Suðvestur-Afríku (nú Namibíu) |
Þjóðerni | Namibísk |
Stjórnmálaflokkur | SWAPO |
Maki | Epaphras Denga Ndaitwah |
Háskóli | Keele-háskóli Glasgow Caledonian University |
Netumbo Nandi-Ndaitwah (f. 29. október 1952) er namibísk stjórnmálakona og verðandi forseti Namibíu. Hún hefur jafnframt verið varaforseti Namibíu frá febrúar 2024.[1] Hún var áður aðstoðarforsætisráðherra Namibíu frá 2015 til 2024.[2] Hún er núverandi varaforseti stjórnarflokksins SWAPO og var frambjóðandi flokksins í forsetakosningum Namibíu í nóvember 2024.[3]
Nandi-Ndaitwah hefur utanríkis- og samvinnuráðherra frá desember 2022. Frá 2010 til desember 2012 var hún umhverfis- og ferðamálaráðherra. Nandi-Ndaitwah hefur setið á namibíska þinginu um árabil fyrir SWAPO-flokkinn. Árið 2017 var hún kjörin varaforseti SWAPO á sjötta landsþingi flokksins. Hún er fyrsta konan til að gegna því embætti.
Æska og menntun
[breyta | breyta frumkóða]Ndemupelila Netumbo Nandi-Ndaitwah fæddist þann 29. október 1952 í Onamutai í norðurhluta Namibíu. Foreldrar hennar voru Justina Nekoto Shaduka-Nandi og Petrus Nandi.[4] Hún var menntuð í trúboðsskóla Heilagrar Maríu í Odibo.[5]
Nandi-Ndaitwah fór í útlegð frá Namibíu árið 1974 og gekk til liðs við hreyfingu SWAPO í Sambíu. Hún vann í höfuðstöðvum SWAPO í Lusaka í Sambíu frá 1974 til 1975 og gekk í Lenínskóla Komsomol í Sovétríkjunum frá 1975 til 1976. Hún útskrifaðist með prófskírteini í starfi og framkvæmd ungliðahreyfingar kommúnista. Árið 1987 útskrifaðist hún með framhaldsgráðu í stjórnsýslufræðum og stjórnun frá Tækniháskólanum í Glasgow og síðan með framhaldsgráðu í alþjóðasamskiptum frá Keele-háskóla árið 1988. Árið 1989 hlaut Nandi-Ndaitwah mastersgráðu í alþjóðafræðum, einnig frá Keele-háskóla.[6]
Stjórnmálaferill
[breyta | breyta frumkóða]Nandi-Ndaitwah var aðstoðarfulltrúi SWAPO í Sambíu frá 1976 til 1978 og aðalfulltrúi frá 1978 til 1980. Frá 1980 til 1986 var hún aðalfulltrúi SWAPO í Austur-Afríku með aðsetur í Dar es Salaam. Hún var meðlimur í miðnefnd SWAPO frá 1976 til 1986 og forseti Þjóðarsamtaka namibískra kvenna (e. National Women's Organisation; NANAWO) frá 1991 til 1994.[6]
Nandi-Ndaitwah hefur setið á namibíska þinginu frá árinu 1990. Hún var aðstoðarráðherra í utanríkis- og samvinnumálum frá 1990 til 1996 og varð síðan framkvæmdastjóri kvennamálefna í skrifstofu forsetaembættisins. Hún gegndi því starfi til ársins 2000 en varð þá ráðherra kvenna- og barnavelferðarmála.[7]
Frá 2005 til 2010 var hún upplýsinga- og útsendingaráðherra í ríkisstjórn Namibíu. Hún var síðan umhverfis- og ferðamálaráðherra þar til stjórnin var uppstokkuð í desember 2012, en þá var hún útnefnd utanríkisráðherra.[8]
Í forsetatíð Hage Geingob var Nandi-Ndaitwah útnefnd aðstoðarforsætisráðherra í mars 2015, ásamt því sem hún fór áfram með utanríkismál.[9] Nandi-Ndaitwah á bæði sæti í miðnefnd og stjórnmálanefnd SWAPO. Hún er einnig ritari flokksins í upplýsingamálum og er því einn af helstu talsmönnum SWAPO út á við.[6]
Samherjamálið
[breyta | breyta frumkóða]Nandi-Ndaitwah kom til Íslands í júní árið 2022 ásamt Mörthu Imalwa, ríkissaksóknara Namibíu, til að ræða við íslensk stjórnvöld um rannsókn á meintum mútugreiðslum sjávarútvegsfélagsins Samherja til namibískra embættismanna í skiptum fyrir aflaheimildir undan ströndum Namibíu. Hún fundaði meðal annars með Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.[10] Nandi-Ndaitwah og sendinefnd hennar óskuðu þess jafnframt að fá fund með Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra en Jón sótti ekki fundinn og því fundaði Nandi-Ndaitwah með aðstoðarmanni hans, Brynjari Níelssyni.[11] Brynjar fullyrti eftir fundinn að hann hefði verið einkalegs eðlis og efni hans því undanskilið lögbundinni upplýsingaskyldu stjórnvalda. Dómsmálaráðuneytið hafnaði síðar þeirri fullyrðingu Brynjars að um hefði verið að ræða einkafund en sagði efni hans hafa verið viðkvæm samskipti milli ríkja sem væru undanþegin gildissviði upplýsingalaga.[12]
Nandi-Ndaitwah hefur farið hörðum orðum um Samherja vegna mútumálsins og lét þau orð falla í ræðu í ágúst 2022 að fyrirtækið hefði notfært sér namibíska borgara til að koma höggi á sjávarútveg landsins.[13]
Forseti Namibíu
[breyta | breyta frumkóða]Í mars árið 2023 útnefndi Hage Geingob forseti Netumbo Nandi-Ndaitwah eina frambjóðanda SWAPO-flokksins í forsetakosningum Namibíu á næsta ári.[14] Nandi-Ndaitwah vann kosningarnar með naumindum í byrjun desember 2024. Stjórnarandstöðuflokkar gagnrýndu framlengingu á opnun kjörstaða í kosningunum, sniðgengu tilkynningu um kjör hennar og tilkynntu að þeir myndu kæra kosningarnar til dómstóla.[15]
Einkahagir
[breyta | breyta frumkóða]Netumbo Nandi-Ndaitwah er gift Epaphras Denga Ndaitwah, fyrrum yfirmanni namibíska hersins.[6]
Netumbo Nandi-Ndaitwa hefur áhuga á börnum, samfélagsvinnu og lestri.[2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Staff, „Nangolo Mbumba sworn in as Namibia's fourth President“, The Star Kenya, sótt 4. febrúar 2024
- ↑ 2,0 2,1 „Nandi-Ndaitwah Netumbo“. Namibian Parliament (bandarísk enska). Sótt 13. febrúar 2023.
- ↑ „Netumbo Nandi-Ndaitwah | Profile | Africa Confidential“. www.africa-confidential.com (enska). Sótt 10. janúar 2023.
- ↑ Namibian, The. „Nandi-Ndaitwah's moment of truth“. The Namibian (enska). Sótt 24. febrúar 2023.
- ↑ Dierks, Klaus. „Biographies of Namibian Personalities, N“. klausdierks.com. Sótt 11. júní 2022.
- ↑ 6,0 6,1 6,2 6,3 Hopwood, Graham. „Who's Who, entry for Netumbo Nandi-Ndaitwah“. Namibia Institute for Democracy. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. júní 2011. Sótt 8. janúar 2014.
- ↑ „Nandi-Ndaitwah Netumbo“. Parliament of Namibia. Sótt 11. júní 2022.
- ↑ Shipanga, Selma; Immanuel, Shinovene (5. desember 2012). „Transition team picked“. The Namibian. Afrit af upprunalegu geymt þann 28. desember 2013. Sótt 27. desember 2013.
- ↑ „Geingob announces Cabinet“. The Namibian. 20. mars 2015.
- ↑ „Utanríkisráðherra Namibíu í heimsókn á Íslandi“. Stjórnarráð Íslands. 7. júní 2022. Sótt 25. júní 2024.
- ↑ Ingi Freyr Vilhjálmsson (8. júní 2022). „Brynjar hitti utanríkisráðherra Namibíu: Engin framsalsbeiðni enn borist í Samherjamáli“. Stundin. Sótt 25. júní 2024.
- ↑ „Ráðuneytisfólk ræddi viðkvæm málefni við Namibíumenn“. Fréttablaðið. 13. ágúst 2022. bls. 4.
- ↑ Björgvin Gunnarsson (10. ágúst 2022). „Varaformaður Swapo veður í Samherjamenn: „Það eru þeir, sem eru öfundsjúkir og á móti okkur"“. Mannlíf. Sótt 25. júní 2024.
- ↑ „Namibia: President Geingob Names Nandi-Ndaitwah Woman Successor“. The Heritage Times. 13. mars 2023.
- ↑ Hugrún Hannesdóttir Diego (4. desember 2024). „Fyrsti kvenforsetinn kjörinn í Namibíu“. RÚV. Sótt 6. desember 2024.