Fara í innihald

Mál og menning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Mál og menning er útgáfufélag og bókaforlag sem var stofnað árið 1937. Verk margra þjóðþekktra íslenskra rithöfunda hafa verið gefin út af forlaginu. Þar á meðal má nefna Þórberg Þórðarson, Jóhannes úr Kötlum, Svövu Jakobsdóttur, Þórarin Eldjárn, Einar Kárason og marga aðra.

Útgáfufélagið Mál og menning var stofnað 17. júní 1937 af bókaútgáfunni Heimskringlu, sem Kristinn E. Andrésson hafði stofnað 1934 ásamt Ragnari Jónssyni í Smára og fleirum, og Félagi byltingarsinnaðra rithöfunda en í því voru meðal annars þeir Kristinn E. Andrésson, Halldór Laxness, Steinn Steinarr, Jóhannes úr Kötlum og Halldór Stefánsson. Árið 1944 keypti Kristinn Ragnar út úr Heimskringlu og innlimaði þá útgáfu í Mál og menningu en Halldór Laxness og Þórbergur Þórðarson fylgdu báðir Ragnari þegar hann stofnaði bókaútgáfuna Helgafell, þótt Halldór sæti raunar áfram í stjórn MM.

Mál og menning var upphaflega bókaklúbbur sem fólk gekk í, greiddi áskriftargjald og fékk sendar bækur. Fyrstu útgáfubækurnar voru Vatnajökull eftir Niels Nielsen og þriðja hefti tímaritsins Rauðir pennar, sem Félag byltingarsinnaðra rithöfunda hafði gefið út frá 1935, en fyrsta skáldsagan, gefin út 1938, var Móðirin eftir Maxím Gorkí. Markmiðið var að gefa út góðar bækur á lágu verði. Töluvert var gefið út af þýddum bókum, svo og rit eldri íslenskra höfunda, en fremur fáar bækur eftir samtímahöfunda fyrstu árin. Á fyrstu sjö árunum urðu félagsmenn í MM á sjöunda þúsund. Fljótlega var stofnuð bókaverslun í tengslum við útgáfuna, Bókabúð Máls og menningar.

Stjórnendur og stefna

[breyta | breyta frumkóða]

Kristinn E. Andrésson var framkvæmdastjóri Máls og menningar frá stofnun 1937 til 1971 og setti mikinn svip á starfsemi félagsins allan þann tíma. Sigfús Daðason tók þá við og stýrði félaginu til 1973, þegar Þröstur Ólafsson tók við en Sigfús varð útgáfustjóri. Þorleifur Hauksson var útgáfustjóri 1976-1982 og síðan Þuríður Baxter. Þröstur var framkvæmdastjóri til 1980 og síðan Ólafur Ólafsson og Ólöf Eldjárn. Árið 1984 tók svo ný kynslóð við þegar Halldór Guðmundsson varð útgáfustjóri og Árni Einarsson framkvæmdastjóri og í tíð þeirra varð Mál og menning stærsta og öflugasta bókaútgáfa landsins.

Félagið var lengi tengt við sósíalista á Íslandi og virðist hafa fengið fjárstyrki[1] frá Sovétríkjunum á tímum kalda stríðsins. Forlagið hafði lengi aðsetur á Laugavegi 18, í húsi sem reist var þar 1970 og oft nefnt Rúblan vegna orðrómsins um „Rússagullið“.

Sameiningarsaga

[breyta | breyta frumkóða]

Þann 30. júní 2000 sameinaðist Mál og menning bókaforlaginu Vöku-Helgafell og Edda - miðlun og útgáfa var stofnuð. Hið nýja fyrirtæki flutti í stórhýsi við Suðurlandsbraut. Bækur voru þó áfram gefnar út undir nafni Máls og menningar og Vöku-Helgafells. Árið 2002 ráku fjárhagsvandræði Eddu til endurskipulagningar og endurfjármögnunar þar sem Björgólfur Guðmundsson kom inn í félagið með fleirum.

Árið 2007 var svo útgáfuhluti Eddu seldur aftur eignarhaldsfélagi Máls og menningar og 1. október 2007 sameinuðust MM, Vaka-Helgafell og Iðunn, sem Edda hafði keypt nokkrum árum áður, bókaforlaginu JPV undir nafninu Forlagið. Bækur koma áfram út undir nafni Máls og menningar, svo og hinna forlaganna. Núverandi útgáfustjóri MM er Silja Aðalsteinsdóttir.

Tímarit Máls og menningar er bókmenntatímarit sem hefur verið gefið út frá 1938, lengst af í tengslum við bókaútgáfuna. Núverandi ritstjóri er Guðmundur Andri Thorsson.

  • „Erum ekki erfingjar kalda stríðsins. Lesbók Morgunblaðsins, 14. júní 1997“.
  • „Mál og Menning og JPV sameinast“. ruv.is.
  • „Fædd og uppalin í Máli og menningu“.
  • „Nýfundin skjöl Sovéska kommúnistaflokksins í Moskvu: Mál og menning fékk styrki“.