Embætti landlæknis
Embætti landlæknis (eða landlæknisembættið) er íslensk ríkisstofnun sem hefur það markmið að tryggja gæði heilbrigðisþjónustu, stuðla að heilsueflingu, og forvörnum.[1] Sá sem stýrir embættinu kallast landlæknir.
Fyrsti landlæknir á Íslandi var Bjarni Pálsson en hann var skipaður í embætti 18. mars 1760. Aðsetur landlæknis var í Nesstofu við Seltjörn á Seltjarnarnesi frá 1763 til 1834. Í fyrsta erindisbréfi landlæknis var honum falið að hafa umsjón með heilbrigðismálum landsins, veita sjúkum læknishjálp, kenna lækningar og uppfræða ljósmæður auk þess að vera lyfsali og sjá um sóttvarnir.
Á tímabilinu 1760–1799 voru stofnuð fimm læknisembætti á Íslandi auk embættis landslæknis og árið 1828 bættist læknisembætti í Vestmannaeyjum við. Læknisembættum fjölgaði ekki á landinu fyrr en með tilkomu Læknaskólans, sem stofnaður var í Reykjavík 1876. Í kjölfar þess urðu læknishéruðin alls tuttugu. Aukin umsvif heilbrigðisþjónustunnar og þar með vaxandi ábyrgðarsvið landlæknis hafa haldist í hendur æ síðan.
Landlæknir hefur frá öndverðu haft með höndum umfangsmikið hlutverk á sviði heilbrigðisþjónustu, jafnt sem læknir og embættismaður í þjónustu heilbrigðisyfirvalda. Meginverkefni landlæknis hefur lengst af verið að hafa eftirlit og yfirumsjón með læknum landsins og öðrum heilbrigðisstarfsmönnum.
Annað meginverkefni landlæknis í upphafi var að veita sjúkum læknishjálp. Sá þáttur í störfum landlæknis hefur með tímanum þróast yfir í áherslu á almenna heilsuvernd, að fylgjast með heilbrigði landsmanna og efla lýðheilsu, og er þetta stór þáttur í starfi embættisins, ekki síst eftir að starfsemi Lýðheilsustöðvar var sameinuð Embætti landlæknis með lögum 1. maí 2011.
Enn ber að nefna samfellu í fræðslustarfi, sem var ein helsta skylda landlæknis í öndverðu og er enn á 21. öld einn þáttur í störfum hans og margra sérfræðinga sem starfa við embættið. Er þá ónefnd óslitin söfnun og úrvinnsla upplýsinga ásamt skýrslugerð um heilbrigðismál í landinu allt frá fyrstu tíð til vorra daga.
Embætti landlæknis er eitt elsta samfellda embætti Íslandssögunnar.
Landlæknar á Íslandi
[breyta | breyta frumkóða]- Bjarni Pálsson 1760–1779
- Jón Sveinsson 1780–1803
- Sveinn Pálsson 1803–1804 (settur)
- Tómas Klog 1804–1815
- Oddur Hjaltalín 1816–1820 (settur)
- Jón Thorstenssen 1820–1855
- Jón Hjaltalín 1855–1881
- Jónas Jónassen 1881–1882 (settur)
- Hans J. G. Schierbeck 1882–1895
- Jónas Jónassen 1895–1906
- Guðmundur Björnsson 1906–1931
- Vilmundur Jónsson 1931–1959
- Sigurður Sigurðsson 1960–1972
- Ólafur Ólafsson 1972–1998
- Sigurður Guðmundsson 1998–2006
- Matthías Halldórsson 2006–2007 (settur)
- Sigurður Guðmundsson 2007–2008
- Matthías Halldórsson 2008–2009
- Geir Gunnlaugsson 2010–2014
- Birgir Jakobsson 2015–2018
- Alma Möller 2018–2024
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Um embættið“. Sótt 15. mars 2010.