Fara í innihald

Bielefeld

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bielefeld
Skjaldarmerki Bielefeld
Staðsetning Bielefeld
SambandslandNorðurrín-Vestfalía
Flatarmál
 • Samtals258,82 km2
Hæð yfir sjávarmáli
118 m
Mannfjöldi
 • Samtals333 þús (2.018)
 • Þéttleiki1.271/km2
Vefsíðawww.bielefeld.de Geymt 29 júní 2013 í Wayback Machine

Bielefeld er stórborg í þýska sambandslandinu Norðurrín-Vestfalíu og er með 333 þúsund íbúa (2018). Hún er háskólaborg og þar er matvælafyrirtækið Dr. Oetker með aðalstöðvar.

Bielefeld er í fjalllendinu Teutoburger Wald í norðausturhluta sambandslandsins, fyrir norðaustan Ruhr-héraðið. Næstu borgir eru Paderborn til suðurs (30 km), Osnabrück til norðvesturs (30 km), Münster til vesturs (30 km) og Hannover til norðausturs (60 km).

Skjaldarmerki

[breyta | breyta frumkóða]

Skjaldarmerki Bielefeld er rautt borgarhlið á gulum grunni en rauð-hvítur skjöldur er í hliðinu. Þetta skjaldarmerki hefur verið til í borginni síðan 1263. Á 19. öld var tveimur ljónum bætt við en þeim var aftur sleppt 1973.

Erfitt er að gera grein fyrir fyrri hluta nafnsins. Tilgátur eru tvær. Að Biele- sé dregið af bil eða bihel og merkir öxi (Beil) og vísar þá til þess að landið liggi eins og öxi. Eða þá að það sé nefnt eftir hæð sem heitir Bilstein eða Beilstein. -feld merkir völlur. [1]

Söguágrip

[breyta | breyta frumkóða]
Gamla ráðhúsið í Bielefeld
  • 1214 kemur Bielefeld fyrst við skjöl og er þá kominn myndarlegur bær.
  • 1293 var virkið Sparrenburg reist og myndaðist þá nýr bær, Neustadt, þar sem byggingarmenn bjuggu.
  • 1520 sameinuðust þessir bæir undir heitinu Bielefeld.
  • 1553 urðu siðaskiptin í borginni.
  • 1609 komst borgin í einu Brandenborgar, sem 1618 varð að Prússlandi.
  • 1612 varð jarðskjálfti í borginni sem olli töluverðum skemmdum.
  • Í 30 ára stríðinu snemma á 17. öld settist spænskur her um borgina, en fékk ekki unnið hana.
  • 1847 fékk borgin járnbrautartengingu í línunni Köln-Minden. Upp úr því varð borgin mesta vefnaðarborg Þýskalands.
  • 1940-44 varð borgin fyrir loftárásum bandamanna, sérstaklega 1944. Þá eyðilagðist nær öll miðborgin.
  • 1945 hertóku Bandaríkjamenn borgina bardagalaust. Hún var á hernámssvæði Breta.
  • 1969 var háskólinn Universität Bielefeld stofnaður.
  • Eitt stærsta fyrirtæki borgarinnar í dag er matvæla- og fjölskyldufyrirtækið Dr. Oetker.

Íþróttir

[breyta | breyta frumkóða]

Í Bielefeld eru haldin ein mestu sóttu innanhúsknattspyrnumót Evrópu í kvennaboltanum. Einnig eru þar haldin innanhúsmót fyrir unglinga, þar sem jafnvel landslið mæta. Helsta knattspyrnufélag borgarinnar er Arminia Bielefeld, sem leikur ýmist í 1. eða 2. deild Bundesliga. Félagið hefur ekki unnið stóran bikar.

Bielefeld er einn af föstu áningarstöðum í hjólreiðakeppninni Deutschland Tour. Hún hefur einu sinni verið upphafspunktur keppninnar og tíu sinnum lokatakmark keppninnar.

Run & Roll Day er heiti á hlaupa- og hjólaskautakeppni sem fram fer á hraðbrautinni í borginni, sem að sjálfsögðu er lokuð allri bílaumferð á meðan.

Byggingar og kennileiti

[breyta | breyta frumkóða]
Sparrenburg-virkið á sér langa sögu
  • Gamla ráðhúsið er ein fegursta bygging borgarinnar. Elsti hlutinn er sennilega frá 13. öld, en 1538-60 var það stækkað töluvert, þannig að stórir hlutar gamla ráðhússins eru innbyggðir í því nýja. 1820-21 var framhliðin endurnýjuð í klassískum stíl. Húsið skemmdist töluvert í loftárásum 1944 og brann alveg niður. Viðgerðir hófust ekki fyrr en 1949 og var það endurreist að öllu leyti eins og þar var fyrir stríð.
  • Sparrenburg er gamalt virki utan við gamla bæinn og stendur uppi á 180 metra hárri hæð. Hún var reist fyrir 1250 af greifanum í Ravensberg og þjónaði sem aðsetur greifanna og sem virki til að gæta veganna til og frá borginni. Hún hýsti keisarann Karl IV sem var í heimsókn 1377. Árið 1623 tóku Spánverjar virkið í 30 ára stríðinu en misstu það aftur er herir frá Svíþjóð og Hessen sátu um það í heilt ár. Í lok 17. aldar var virkinu breytt í fangelsi og stórir hlutar þess rifnir niður, þar á meðal turninn. Hann var svo endurreistur 1842-43. Í loftárásum seinna stríðsins eyðilagðist virkið nær alveg, aðeins turninn stóð eftir. Viðgerðum lauk ekki fyrr en 1987. Turninn er í dag einkennistákn borgarinnar. Í virkinu er árlega haldin leiksýning þar sem lífið á miðöldum er leikið eftir.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Geographische Namen in Deutschland. Duden. 1993. Bls. 55.