Bengalflói

Bengalflói er þríhyrnt hafsvæði eða gríðarstór flói í norðausturhluta Indlandshafs á milli Indlandsskaga og Andamaneyja við Malakkaskaga. Við norðurenda flóans er indverska ríkið Vestur-Bengal, sem flóinn dregur nafn af, og landið Bangladess. Í suðvestri er eyjan Srí Lanka (áður Seylon) og Andaman- og Níkóbareyjar marka flóann til austur. Austan megin við flóann eru Mjanmar (áður Búrma) á Malakkaskaga, en austan megin við Andamaneyjar, við strönd Taílands, er Andamanhaf.
Helstu ár sem renna í flóann norðanmegin eru Gangesfljót, Meghna og Brahmaputra, og suðvestanmegin Mahanadi, Godavari, Krishnafljót og Kaveri. Norðaustanmegin rennur fljótið Ayeyarwaddy út í flóann frá Mjanmar. Fljótin Ganges, Meghna og Brahmaputra renna öll um sömu árósa þar sem Sundarban fenjaviðarskógarnir eru.

